Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Kúrdísk stjórnvöld bönnuðu mér að sinna verkefni mínu þar í landi, eftir að það hafði verið starfrækt í eitt ár og 652 konur sótt námskeið á þeim tíma,“ segir Anna Rósa Róbertsdóttir grasalæknir, sem hélt úti sjálfboðaliðastarfi í flóttamannabúðum í Kúrdistan þar sem hún kenndi konum að vinna vörur úr lækningajurtum, smyrsl og olíur.
„Yfirvöld bönnuðu þetta á þeim forsendum að það væri of hættulegt að kenna ómenntuðum flóttakonum að búa til smyrsl úr kamillu. Þetta er hið súrrealíska feðraveldi í öðru veldi, óttinn er svo mikill við að konur eflist,“ segir Anna Rósa sem heldur ótrauð áfram og er nú komin í samstarf við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna í Úganda.
„Þetta kom þannig til að ég fékk tölvupóst frá flóttamannastofnuninni sem vildi starfa með mér, en ég las hann aðeins að hluta til og svaraði ekki, því ég var alveg viss um að þetta væri ruslpóstur, ég fæ mjög marga slíka. Þetta var of gott til að vera satt, en mánuði síðar fékk ég aftur póst frá þeim og var spurð hvort ég vildi virkilega ekki koma í samstarf með þeim, og þá las ég póstinn til enda og svaraði eins og skot játandi. Auðvitað var ég til í samstarf! Þau báðu mig að koma í heimsókn í flóttamannabúðirnar í Palabek í Úganda til að meta hvaða líkur ég teldi á að ég gæti verið með svipað verkefni þar og ég hafði verið með í Kúrdistan. Um 88 þúsund manns búa í þessum flóttamannabúðum, en þetta eru ekki tjaldbúðir eins og í Kúrdistan, heldur hefur flóttafólkinu verið komið fyrir meðal innfæddra. Allir búa í strákofum, bæði heimamenn og flóttafólk, allir rækta sitt grænmeti og búa við sömu aðstæður. Að þessu öllu er svo miklu betur staðið en hjá flóttafólkinu í tjöldunum í Kúrdistan og fyrir vikið er allt auðveldara í framkvæmd. Gróðursæld er slík í Úganda að það er ekkert mál að nálgast lækningajurtir til að vinna með.“
Límið sem býflugurnar búa til
Anna Rósa fór til Úganda í sumar í tvær vikur til að meta aðstæður og hitta starfsfólk Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
„Þetta var frábært, allir voru svo áhugasmir, enda í fyrsta sinn sem þessi stofnum starfar með grasalækni. Ég sat ótal fundi og kenndi líka tvö námskeið. Út úr þessu kom að mér tókst að setja á stofn heil fimm verkefni í flóttamannabúðunum í Palabek, enda eru þetta svo góðar aðstæður og allir hjálplegir. Fyrsta verkefnið snýst um að kenna flóttakonum að vinna vörur úr jurtum, rétt eins og ég gerði í Írak, en í verkefni númer tvö ætla ég að kenna leiðtogum innan hvers ættbálks flóttakvenna að leiða námskeiðin mín þegar ég er fjarverandi. Þriðja verkefnið gengur út á að setja upp upplýsingabanka um jurtir og virkni þeirra, til að efla þekkingu, svo fleiri geti notið. Slíkur upplýsingabanki verður ýmist eingöngu á pappír eða líka á netinu. Með slíkum banka verður allt öruggara, til dæmis réttar skammtastærðir, uppskriftir og vísanir í vísindagreinar. Fjórða verkefnið snýr að býflugnarækt, sem mikið er um á svæðinu og þá er fólk bæði að framleiða hunang en líka að búa til krem. Mitt verkefni verður að endurbæta þær vörur sem fólk er nú þegar að búa til úr afurðum býflugnabúanna og hjálpa fólki að markaðssetja þær, svo það geti aflað tekna. Einnig ætla ég að kenna fólki að búa til tinktúrur, krem og aðrar aukavörur úr býflugnaræktinni. Ég er til dæmis að þróa tinktúrur sem ég ætla að kenna fólki að búa til úr propolis, sem er aukaafurð úr býflugnarækt, en það er límið sem flugurnar gera hýsi sín úr. Propolis er þekkt lækningaafurð, sérstaklega góð gegn kvefi til dæmis. Fólk getur þá selt sínar tinktúrur og þannig aflað tekna.“
Læknarnir vilja moskítófælu
Fimmta verkefnið segir Anna Rósa að sér finnist áhugaverðast.
„Ég átti fund með læknum sem starfa hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna þarna í Úganda, en þeir höfðu mikinn áhuga á að starfa með mér sem grasalækni. Þeir komu með frábæra hugmynd; þeir vilja að ég þrói moskítóflugnafælu úr jurtum á svæðinu, fyrir fólkið til að draga úr malaríu, en hún er svakalega algeng í Úganda. Þannig sögðu þeir að ég gæti hjálpað mest, að koma eins og mögulegt er í veg fyrir að flugan stingi fólk og smiti það af malaríu. Ég myndi þá kenna fólki að búa til vökva sem það úðar á húðina, og fælir fluguna frá. Ég þarf að gera tilraunir með efniviðinn, jurtirnar sem vaxa í Úganda, en þetta er vel framkvæmanlegt og vel þekkt. Ég er með nokkrar villtar jurtir í huga og eins er hægt að rækta ákveðnar jurtir í slíkan úða. Ég get auðveldlega gert tilraunir á sjálfri mér þarna úti með virkni svona úða, því moskítóflugan elskar að bíta mig. Ég mun líka fá læknana með mér til að prófa þetta á sjúklingum. Þetta er eitt og sér risastórt verkefni, því gríðarlegar upphæðir gætu sparast í heilbrigðiskostnaði ef við getum dregið eitthvað úr malaríusmiti. Þann pening sem sparast væri hægt að setja í að framleiða úðann, eða moskítófæluna, og konurnar í flóttamannabúðunum fengju þá vinnu við það. Ég einblíni á að kenna konum í öllum þessum verkefnum, en reyndar eru býflugnabændurnir sumir karlkyns. Markmiðið hjá Lífgrösum, eins og góðgerðarsamtökin mín heita, er fyrst og fremst að efla konur.“
Leitar styrkja fyrir konurnar
Allt sem Anna Rósa gerir í þessum verkefnum vinnur hún í sjálfboðastarfi.
„Ég fæ ekki krónu fyrir það, þetta er hugsjónastarf sem ég sinni með mikilli ánægju, en það er gríðarlega dýrmætt að fólkið hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna aðstoðar mig úti í Úganda. Þau skipuleggja námskeiðin, koma mér á staðinn þegar ég kem út, til flóttamannabúðanna, sem er ómetanlegt, því úti í Kúrdistan var til dæmis mikill kostnaður fyrir mig að koma mér til flóttamannabúðanna, ég þurfti að hafa bílstjóra á launum, sem var mjög dýrt. Starfsfólkið í Úganda hefur líka nefnt það að aðstoða mig við að sækja um styrki, en það er seinni tíma verkefni. Ég er að hefja herferð núna í að fjölga því fólki sem vill styrkja starfið okkar úti í Úganda, en það er hægt að gera með föstum mánaðarlegum framlögum eða öðrum framlögum. Eins væri frábært ef einhver fyrirtæki vildu leggja okkur lið,“ segir Anna Rósa sem notar sitt eigið sparifé til að brúa bil. „Ég held ótrauð áfram og hef fulla trú á því að ég finni góða styrktaraðila.“
Þeir sem vilja styrkja verkefnið geta farið inn á vefsíðuna: lifgros.is/bakhjarlar