„Þetta er ein besta frétt sem maður hefur fengið lengi,“ segir Bragi Þór Thoroddsen sveitarstjóri í Súðavík eftir að innviðaráðuneytið tilkynnti að gert væri ráð fyrir fjárframlagi á fjárlögum til að undirbúa jarðgöng milli Súðavíkur og Ísafjarðar.
Slík göng hafa lengi verið í umræðunni og hafa gjarnan verið kölluð Súðavíkurgöng. Vegurinn um Súðavíkurhlíðina getur verið hættulegur vegna snjóflóða eða grjótskriða eins og dæmin sanna og lokast af og til á veturna.
„Hreint út sagt þá fagna ég þessu gríðarlega. Þetta er ekki nýr slagur en ég hef verið hóflega bjartsýnn á að göngin verði að veruleika. Þetta eru væntanlega þau jarðgöng sem ekki hafa orðið að veruleika sem oftast hefur verið ályktað um á þingi.“
Alþingi samþykkti í vikunni fjárlög fyrir árið 2025. Gert er ráð fyrir framlögum vegna undirbúnings jarðganga á fjórum stöðum (Fljótagöng, Hvalfjarðargöng, Ólafsfjörður/Dalvík og Súðavík/Ísafjörður).
Skiptir marga máli
„Ég lít á það sem mjög mikilvægt skref að peningur sé merktur þessum jarðgangakosti því frumathugun hefur þegar farið fram en það var fyrir um það bil áratug,“ segir Bragi og hann minnir á að slík jarðgöng hafi áhrif fyrir marga á norðanverðum Vestfjörðum. Þau snúist ekki um að Súðvíkingar geti skroppið yfir til Ísafjarðar eða Bolungarvíkur heldur sé vegurinn hluti af tengingu svæðisins til Reykjavíkur. Sé að- og fráflutningsleið.
„Sem dæmi má nefna að þegar vegurinn hefur lokast þá hafa stundum verið á bilinu tuttugu til sextíu manns fastir í Súðavík. Í byggðarlagi sem telur 170 manns. Þá er þetta örsveitarfélag í björgunarhlutverki bæði fyrir Ísafjarðardjúp og þá sem verða hér eftir þegar hlíðin lokast. Björgunarsveitin í Súðavík var með flest útköll á landsvísu við það að sækja bíla inn í Djúp og ná í fólk þegar hlíðin var lokuð.“
kris@mbl.is