Rósa Margrét Tryggvadóttir
rosa@mbl.is
Hrafnhildur Haraldsdóttir hafnaði í öðru sæti í aðalkeppni Miss Earth 2024 og er nýkomin heim frá Manila á Filippseyjum þar sem keppnin var haldin 9. nóvember. Þar var hún jafnframt valin Ungfrú jarðloft (e. Miss Earth – Air). Hún var enn að melta þennan stóra áfanga þegar hún ræddi við þau Evu Ruzu og Hjálmar í helgarþættinum Bráðavaktinni um liðna helgi.
„Ég er alveg jafn sjokkeruð og þið! Ég bjóst ekki við neinu,“ sagði Hrafnhildur í þættinum, en hún var einnig sigurvegari í Ungfrú Ísland árið 2022.
Miss Earth er fjórða stærsta fegurðarsamkeppni heims en Hrafnhildur segir að um 80 ungar konur hafi tekið þátt í keppninni í ár.
Í spreng á ögurstundu
Hrafnhildur segir að keppniskvöldið hafi verið langt og að keppendur hafi lítið getað skroppið frá.
„Ég var í spreng allan tímann,“ sagði Hrafnhildur og bætti við: „Ég hélt ég myndi deyja. Það var hræðilegt,“ lýsti hún glettnislega.
Lengst af dvaldi hún þó í Manila. Hrafnhildur dvaldi á Filippseyjum í heilan mánuð, þar sem hún ferðaðist um landið. Hún eyddi þó mestum tíma í Manila.
„Þetta var mikill undirbúningur,“ sagði Hrafnhildur og bætti við að þátttakendur hefðu tekið þátt í fjölmörgum samfélagsverkefnum.
„Við vorum að gróðursetja tré, fengum að ferðast, fórum í einhverja æðislega sveit. Svo fórum við í fullt af skólaheimsóknum og á munaðarleysingjaheimili. Þetta var rosalega gefandi. Við fengum að gera mikið gott fyrir fólkið,“ lýsti Hrafnhildur.
Óvænt stjörnumeðferð
Hún segir að stjörnumeðferðin sem fegurðardrottningar í keppninni fái á Filippseyjum hafi kom henni á óvart.
„Menningin þarna er æðisleg. Fegurðardrottningar eru „trítaðar“ eins og stjörnur. Ég spurði út í þetta því mér fannst þetta eiginlega bara fáránlegt stundum, þegar fólk var grenjandi og kyssandi á mér hendurnar. Við vorum með löggueftirfylgd og alls konar rugl,“ sagði hún og bætti við að þó að hún hefði áður tekið þátt í enn stærri keppni, Miss Universe, þar sem væru vissulega miklir aðdáendur, hefðu viðbrögðin ekki verið neitt í líkingu við þetta.
„En þetta er bara menningin þarna,“ sagði Hrafnhildur og bætti við að Filippseyingar væru æðislegt fólk. „Ég var í sjokki!“ sagði hún.
Spurð út í titilinn Miss Air 2024 sagði Hrafnhildur að hún væri í raun sjálf ekki alveg viss um hvaða þýðingu hann hefði fyrir hana.
„Þetta gefur mér helling af tækifærum í þessum bransa. Svo veit ég að ég er eitthvað að ferðast með fyrirtækinu. Ég er á samningi hjá þeim og er að fara að mæta sem heiðursgestur í öðrum keppnum, eins og Miss Earth í Belgíu og svoleiðis. Ég fæ þá að kynnast þessu stóra fólki sem er tengt við þetta samfélag. En ég veit ekki alveg hverju ég er að búast við,“ sagði hún og bætti við að Jessica Lane, frá Ástralíu, sem hafnaði í fyrsta sæti í keppninni, vissi sjálf ekki mikið hvað væri fram undan.
„Við erum mjög góðar vinkonur, ég og hún. Við vorum mikið saman þarna úti og hún veit ekki mikið sjálf. Ég veit að við erum að fara að ferðast mikið saman en þetta mun allt koma í ljós á næstunni. Við máttum bara fara heim til fjölskyldunnar og knúsa alla,“ sagði Hrafnhildur sem var skiljanlega mjög fegin eftir langan tíma í burtu. Hrafnhildur sagði þó einnig frá stuðningi foreldra sinna, sem komu til Filippseyja viku fyrir keppni. Kærasti hennar, Ísak Logi Einarsson, handboltamaður í Stjörnunni, komst þó ekki út vegna handboltans.
Hrafnhildur var valin „Uppáhald pressunnar“ (e. „Darling of the Media“) snemma í keppninni en hún sagðist ekki hafa vitað nákvæmlega hvað fólst í þeim titli heldur.
„Ég vissi ekkert hvað það væri. Þetta var í fyrsta sinn sem við fengum að kynna okkur fyrir almenningi í keppninni. Við vorum allar þarna í filippseyskri hönnun, drullustressaðar. Síðan var okkur sagt að það væri fyrsta, annað og þriðja sæti og síðan væru fjórir sigurvegarar. Ég hugsaði bara: Áfram gakk! Var ekki að búast við neinu frá litla Íslandi. Síðan er ég kölluð þarna upp og ég bara: Ókei. Það var ekki fyrr en pabbi minn útskýrði fyrir mér hvað þetta væri – því ég heyrði ekki neitt,“ lýsti Hrafnhildur.
Heillandi umhverfisáhersla
Hrafnhildur segir að það hafi verið áhersla Miss Earth á umhverfismál sem hafi heillað hana sérstaklega.
„Það sem heillaði mig mest við þessa keppni er að þau eru mjög föst á því að fylgja þessu. Ekki að þau séu bara með aðila sem stendur þarna, sæt og fín, heldur að þeir séu að gefa eitthvað til baka. Mig langaði rosa mikið að vera í einhverju sem ég fengi eitthvað út úr og að ég væri í alvöru að gera eitthvað gott.
Við erum að safna peningum, gróðursetja tré og vekja athygli á málefnum fyrir jörðina okkar.“
Aðspurð sagði hún að fyrirsætustörf heilluðu hana líka en að fegurðarsamkeppnir hefðu þó alltaf heillað mest, þar sem hún fær að nota röddina sína og gefa af sér.