Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Úkraínska utanríkisráðuneytið skoraði í gær á bandamenn sína að ýta ekki undir spennu í landinu að óþörfu. Tilkynning ráðuneytisins kom eftir að nokkur sendiráð vestrænna ríkja tilkynntu að þau myndu hafa lokað hjá sér um daginn vegna hættu á stórfelldri loftárás á Kænugarð.
Bandaríska sendiráðið tilkynnti fyrst að það myndi loka dyrum sínum og vísaði til þess að Bandaríkjamenn hefðu fengið sérstaka ábendingu um að möguleiki væri á að Rússar myndu gera risavaxna loftárás á höfuðborgina. Spænska, ítalska og gríska sendiráðið fylgdu svo í kjölfarið, en spænska sendiráðið var opnað á ný um eftirmiðdaginn.
Loftvarnaflautur í Kænugarði ýlfruðu um eittleytið að íslenskum tíma, en hættuástandinu var aflýst um stundarfjórðungi síðar án þess að árás hefði verið framkvæmd.
„Sálfræðihernaður“ Rússa
Hótunin um stórfellda loftárás barst í kjölfar þess að Úkraínumenn beittu bandarískum ATACMS-eldflaugum í fyrsta sinn á rússneskri grundu, en rússnesk stjórnvöld hafa lýst því yfir að litið yrði á slíkar árásir af hálfu Úkraínumanna sem árásir af hálfu þeirra vesturvelda sem afhentu þeim vopnin.
Í yfirlýsingu úkraínska utanríkisráðuneytisins sagði að hótanir um árásir af þessu tagi væru því miður daglegt brauð í Úkraínu og hefðu verið það í rúmlega þúsund daga. Þá benti flest til þess að einungis hefði verið um sálfræðihernað af hálfu Kremlverja að ræða.
Talsmaður ráðuneytisins, Heorhí Tíkhí, sagði að bandalagsþjóðir Úkraínu ættu að hegða sér eins á degi 1.001 frá upphafi innrásar og alla hina þúsund dagana án þess að vekja meiri ótta meðal Úkraínumanna. Þá ítrekaði hann að íbúar Úkraínu ættu alltaf að vera vel á verði, og fylgja leiðbeiningum þegar loftvarnaflautur landsins gella við.
Leyniþjónusta Úkraínuhers, HUR, sendi einnig frá sér yfirlýsingu vegna lokana sendiráðanna og sagði að „fölsk“ skilaboð gengju nú um samfélagsmiðla þar sem varað væri við stórri árás á Kænugarð. „Hryðjuverkaríki er að fremja stóra upplýsinga- og sálfræðiárás á Úkraínu,“ sagði í yfirlýsingu HUR.
Bresk vopn komin í búrið?
Óstaðfestar fregnir bárust svo um eftirmiðdaginn að Úkraínumenn hefðu beitt breskum Storm Shadow-eldflaugum innan landamæra Rússlands, en bresk stjórnvöld hafa varist allra fregna í vikunni um að þau myndu fylgja í fótspor Bandaríkjastjórnar.
Keir Starmer forsætisráðherra og John Healey varnarmálaráðherra neituðu báðir að tjá sig þinginu í gær um mögulegar árásir Úkraínumanna með breskum vopnum, og vísuðu báðir til þess að hernaðarlegt öryggi kallaði á að sem fæst orð yrðu höfð um það hvaða vopn Úkraínumenn hefðu og hvar þeir gætu beitt þeim.
Að sögn rússneskra herbloggara og annarra heimildarmanna skutu Úkraínumenn tólf Storm Shadow-eldflaugum á hernaðarleg skotmörk í Kúrsk-héraði, þar á meðal staði þar sem bæði rússneskir og norðurkóreskir hermenn voru staddir.
Bandaríkjastjórn greindi svo frá því í gærmorgun að Joe Biden Bandaríkjaforseti hefði heimilað að senda Úkraínumönnum jarðsprengjur, sem hannaðar eru til þess að eyða fótgönguliði.
Að sögn bandarískra embættismanna verður jarðsprengjunum einungis komið fyrir á landsvæði Úkraínu á stöðum þar sem enginn býr til þess að draga úr hættunni gagnvart óbreyttum borgurum. Þá eru jarðsprengjurnar hannaðar á þann veg að þær verða óvirkar eftir nokkurn tíma.
Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, sagði að ákvörðunin um jarðsprengjurnar sýndi að fráfarandi Bandaríkjastjórn vildi ýta undir stríðið með öllum ráðum.