Í Hörpu Hallveig fyrir æfingu í Hörpu nú í vikunni þar sem hún mun halda tónleika í röðinni Sígildir sunnudagar.
Í Hörpu Hallveig fyrir æfingu í Hörpu nú í vikunni þar sem hún mun halda tónleika í röðinni Sígildir sunnudagar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hallveig Rúnarsdóttir sópransöngkona heldur upp á fimmtugsafmæli sitt með tónleikum í Norðurljósasal Hörpu á sunnudaginn, 24. nóvember, kl. 16. Á tónleikunum mun Hallveig koma fram með vinum, fjölskyldu og nánasta samstarfsfólki sínu á söngferlinum…

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Hallveig Rúnarsdóttir sópransöngkona heldur upp á fimmtugsafmæli sitt með tónleikum í Norðurljósasal Hörpu á sunnudaginn, 24. nóvember, kl. 16. Á tónleikunum mun Hallveig koma fram með vinum, fjölskyldu og nánasta samstarfsfólki sínu á söngferlinum sem spannar nú 33 ár og eru þeir hluti af tónleikaröðinni Sígildir sunnudagar.

Góðir gestir munu stíga á svið með Hallveigu, m.a. Hildigunnur Einarsdóttir mezzósópran, Oddur Arnþór Jónsson barítón, Eyjólfur Eyjólfsson tenór, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzósópran, Margrét Hrafnsdóttir sópran og sönghópurinn Cantoque Ensemble en þann hóp stofnaði Hallveig ásamt fleirum árið 2017. Á píanó leika svo Hrönn Þráinsdóttir, Matthildur Anna Gísladóttir og Steingrímur Þórhallsson.

Heldur alltaf upp á afmælið

„Ég kalla þetta hátíðartónleika í tilefni af stórafmæli. Mér finnst voðalega gaman að halda upp á alls konar skemmtilegt og fannst þetta tilvalið tækifæri til þess að hóa í fólk og gera eitthvað úr þessu frekar en að vera bara með veislu,“ segir Hallveig. Hún er í framhaldi spurð að því hvort hún nýti öll tækifæri sem gefast til veisluhalda. „Já, mikið til, ég er ein af þessum sem halda alltaf upp á afmælið sitt,“ segir hún. Þegar hún eigi stórafmæli, líkt og í ár, þurfi svo að gera eitthvað meira en venjulega.

Þú ert að fara að halda upp á bæði fimmtugsafmæli og 33 ára söngferil, ekki satt?

„Jú, ég var 17 ára þegar ég fór að láta eitthvað að mér kveða sem einsöngvari. „Ég syng fyrir peninga“ svara ég stundum í gamni þegar fólk spyr hvað ég geri,“ svarar Hallveig kímin.

Það koma margir fram með henni á afmælistónleikunum á sunnudag og segist hún hafa fengið í lið með sér ýmsa vini og ættingja til að sýna gestum að enginn sé eyland í þessum bransa. Auk fyrrnendra söngvara munu koma fram systkini Hallveigar og dóttir.

Hallveig segir fjölskyldu sína meira eða minna sísyngjandi. „Ég er búin að syngja frá því ég var smábarn. Mamma mín var með kór, Skólakór Garðabæjar, sem ég byrjaði að syngja með strax fimm ára gömul. Þetta er búið að vera mitt líf í gegnum tíðina.“

Fjölbreyttur ferill

Hvað stendur upp úr á ferli þínum?

„Það er nú ýmislegt. Ég tók þá ákvörðun, þegar ég var í námi í London í Guildhall School of Music and Drama og dóttir mín fór að láta á sér kræla, að skapa mér feril á Íslandi. Það er frekar óvenjulegt, flestir reyna nú fyrir sér erlendis en það var ekki mitt aðaláhugasvið að vera á óperusviði, mig langaði að vera með fjölbreyttan feril og geta líka sungið nýja tónlist, ljóð, óratoríur og annað. Þannig að ég hef verið á Íslandi en hef líka sungið mikið erlendis. En það er svona seinni tíma mál og meira bundið við verkefni,“ segir Hallveig frá.

Hún nefnir ýmis óperuhlutverk á ferlinum og að einna eftirminnilegast hafi verið að syngja Sinfóníu nr. 3 eftir Góreckí með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2016. Hún nefnir líka óperu sem systir hennar, Hildigunnur Rúnarsdóttir, hafi samið og hún frumflutt bæði á Íslandi og í Ástralíu.

Hefur stækkað og þroskast

Finnst þér söngröddin hafa breyst mikið með árunum?

„Hún hefur stækkað mjög mikið og þroskast og opnast fyrir nýjum hlutum með tímanum. Ég sýni það svolítið vel á tónleikunum þar sem ég er farin að syngja meira Wagner og stærri hluti. Hér áður fyrr var ég meira að syngja Mozart og Puccini og þá er ég að tala um óperupartinn af þessu,“ segir Hallveig.

Nú spyr ég af hreinni fávisku en hversu lengi endast sópransöngkonur í starfi, svona almennt séð?

„Þær geta enst ansi lengi ef þær passa upp á tæknina,“ svarar Hallveig og bendir á Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, Diddú, sem gott dæmi. Þar fari sópran með afar góða tækni, hafi sinnt fjölbreyttum verkefnum og þá ekki eingöngu á óperusviðinu. „Það er mögulega eitthvað tengt því, þá er auðveldara að vernda röddina svo hún stækki ekki of hratt,“ bætir Hallveig við.

Mikil fjölbreytni

Hvað á að syngja á tónleikunum? Hvaða verk verða á efnisskránni?

„Það er rosalega fjölbreytt. Ég verð með einhverjar óperuaríur og dúetta úr óperum með öllum þessum vinum mínum. Svo erum við að syngja svolítið af nýrri tónlist, verk eftir Hildigunni systur, við systkinin bæði og við Eyvi [Eyjólfur Eyjólfsson, innsk.blm.] ætlum að syngja eitt lag eftir hana, grínlag sem við erum búin að syngja saman lengi. Svo er Steingrímur Þórhallsson, organisti og vinur minn til margra ára, búinn að semja tvö ný lög handa mér í afmælisgjöf sem verða frumflutt á tónleikunum,“ svarar Hallveig.

„Svo ætlum við Ragnheiður, dóttir mín, að syngja eitt lag úr Wicked sem er náttúrlega það vinsælasta í dag. Þannig að þetta verður mjög fjölbreytt og skemmtilegt,“ bætir Hallveig við en fyrir þá sem ekki vita er Wicked söngleikur sem nú hefur verið kvikmyndaður og verður kvikmyndin frumsýnd hér á landi í dag.

Alæta á tónlist

Hallveig er spurð að því hvort hún eigi sér uppáhaldslag og þá bæði af þeim sem hún syngur á tónleikunum og almennt. „Ég held að ég geti ekki svarað þessu. Ég er svolítið mikil alæta, finnst gaman að syngja allt,“ segir hún og nefnir sem dæmi djass, hádramatískar óperuaríur og kórsöng. „Ég get ekki svarað þessari spurningu með hreinni samvisku,“ bætir Hallveig við kímin.

Hún segist, að endingu, hafa ákveðið að stilla miðaverði í hóf og láta tekjur af miðasölu mæta kostnaði. Ágóði af sölunni mun svo renna til Bergsins Headspace sem veitir fría sálfræðiþjónustu ungmennum á aldrinum 12 til 25 ára. Starfsemi Bergsins má kynna sér á vefsíðu þess, bergid.is.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson