Júlíana Guðrún Gottskálksdóttir fæddist í Reykjavík 26. júlí 1947. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 9. nóvember 2024.
Foreldrar hennar voru Gottskálk Þ. Gíslason húsgagnasmíðameistari, f. 25. desember 1912, d. 12. febrúar 1991 og Þórheiður Sigþórsdóttir húsmóðir, f. 26. júní 1915, d. 12. janúar 2005.
Systir Júlíönu var Bergþóra, uppeldisfræðingur, f. 28.2. 1945, d. 20. febrúar 2023. Bróðir sammæðra var Birgir Karlsson, lektor í rússnesku við Árósaháskóla, f. 28. apríl 1937, d. 16. júlí 1995. Hann var kvæntur Larissu Eskinu Karlsson, f. 1938. Börn þeirra eru Erik Ivan Karlsson, f. 1967 og Katja Karlsson, f. 1968, sem er látin.
Júlíana lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1967. Hún stundaði nám í listfræði, bókmenntum, leikhús- og kvikmyndafræðum við Háskólann í Lundi í Svíþjóð og lauk fil. kand.-prófi árið 1973. Stundaði framhaldsnám í listfræði við Parísarháskóla veturinn 1973-74 og síðar við Háskólann í Lundi. Árið 1980 hóf hún nám við Arkitektaskóla Konunglega danska listaháskólans, með norræna byggingarlistasögu og mælingu húsa sem sérgrein og lauk lokaprófi sem arkitekt árið 1986. Júlíana starfaði við skráningu listaverkaeignar Reykjavíkurborgar árið 1974 og sem safnvörður í Árbæjarsafni árin 1975 til 1978. Hún varð deildarstjóri við Listasafn Íslands frá 1988 og hafði þá umsjón með safni Ásgríms Jónssonar og var forstöðumaður safnsviðs Listasafn Íslands frá 1998. Hún gegndi starfi deildarstjóra húsverndardeildar Þjóðminjasafns Íslands 1991-1992. Skipuð forstöðumaður Listasafns Einars Jónssonar árið 2000 og gegndi því til ársins 2013. Júlíana var mikilvirkur fræðimaður á sviði byggingarlistasögu og myndlistar og er höfundur fjölmargra rita og greina í bókum, sýningarskrám og tímaritum. Í Árbæjarsafni sinnti hún rannsóknum á byggingarsögu Reykjavíkur og er einn höfunda ritsins Grjótaþorp 1976. Í lokaverkefni sínu frá Arkitektaskólanum fjallaði hún þróun byggðar í Reykjavík á tímabilinu 1840 til 1890, byggt á rannsóknum á heimildum og uppmælingum nokkurra elstu húsa í miðbæ Reykjavíkur. Rannsóknir hennar á íslenskri myndlist spanna vítt svið og birtust í sýningum Listasafnsins og sýningarskrám og í erindum sem hún hélt á ráðstefnum hérlendis og erlendis. Hún er einn höfunda Íslenskrar listasögu, ritaði um myndlist í upphafi 20. aldar og frumherjana Þórarin B. Þorláksson og Ásgrím Jónsson og einnig um veggmyndir Kjarvals í Landsbanka Íslands. Hún ritaði um allmargar kirkjur í ritröðinni Kirkjur Íslands og má sérstaklega nefna kirkjur Rögnvaldar Ólafssonar, fyrsta íslenska arkitektsins. Hún var fulltrúi Arkitektafélags Íslands í húsafriðunarnefnd 2014-2017.
Útför fer fram í Fossvogskapellu í dag, 21. nóvember 2024, klukkan 13.
Árið 1975 var allt í háalofti vegna þess að borgaryfirvöld höfðu ráðið tvo sérfræðinga til að meta Grjótaþorp sem þá var í mikilli niðurníðslu. Þeir töldu að hugsanlega mættu tvö hús standa, allt annað ætti að hverfa. Strax eftir að þetta fréttist var boðað til borgarafundar og margir voru í miklu uppnámi. Nanna Hermanson var þá borgarminjavörður og mætti á fundinn og fór fram á það að húsin yrðu könnuð rækilega og sömuleiðis saga þeirra og þau mæld upp. Það hafðist og fólk Nönnu hófst handa og 1976 kom út svonefnd Grjótaþorpsskýrsla. Grjótaþorpi var að mestu bjargað, þetta var stórsigur í sögu húsverndunar hér á landi.
Einn safnvarðanna í hópi Nönnu var Júlíana G. Gottskálksdóttir sem við kveðjum í dag. Á þessum tíma starfaði ég hjá Sögufélagi í Grjótaþorpi og átti hópurinn alltaf innhlaup hjá okkur. Þar kynntist ég fyrst Júlíönu. Hún var þá nýkomin til landsins eftir mikið og langt nám í Svíþjóð. Við náðum strax saman og það leið ekki á löngu þar til Júlíana spurði mig hvort ég hefði ekki áhuga á kvikmyndum. Það var að hefjast frönsk kvikmyndhátíð og reyndist Júlíana m.a. hafa lært kvikmyndafræði í Svíþjóð og svo talaði hún líka frönsku enda dvalist í París í eitt ár. Við höfðum þann háttinn á að við fórum á kaffihús og Júlíana sagði mér allt um leikstjóra myndarinnar sem við ætluðum að sjá og hvers ég mætti vænta. Eftir bíóferðina fórum við aftur á kaffihús og ræddum um myndina. Því næst hóf Júlíana að undirbúa mig undir næstu mynd því við sáum venjulega tvær myndir sama daginn. Ég held að okkur hafi tekist að sjá um 16 myndir. Þetta var ótrúlega skemmtilegt og Júlíana var alveg einstakur fræðari.
Svo leið tíminn og tveir vina minna tóku upp á því að fara til Kaupmannahafnar á sama tíma. Það var annars vegar Ríkharður H. Hördal (Rikki) sem ætlaði að nema forvörslu og hins vegar Júlíana sem fór til náms í arkitektúr. Rikki og Júlíana hófu fljótlega að reka áróður fyrir því að ég kæmi í heimsókn og auðvitað fór ég við fyrsta tækifæri. Rikki og Júlíana höfðu þá þegar fengið vinnu við að skúra banka um nætur, þ.e.a.s. fóru í skúringarnar um kl. 6 og mættu svo og vöktu mig um kl. 9 heima hjá Júlíönu á Peder Skramsgötu með ilmandi bakkelsi. Þvílíkir vinir. Stundum fengum við okkur smá Gammel Dansk þarna strax um morguninn því þetta átti að vera svo mikill sælutími hjá mér. Nú eru þessir eðalvinir mínir bæði horfin og ég get ekki lýst nógsamlega þakklætinu yfir að hafa átt þau að.
Elsku Júlíana mín var í Sóltúni og leit ég nokkuð oft til hennar, venjulega með fleyg af Gammel Dansk og við skáluðum. Það er stutt síðan við skáluðum saman síðast, hún var mjög veik en þáði staup og brosti til mín. Þessu brosi mun ég seint gleyma.
Ragnheiður Kristjana Þorláksdóttir.
Nú þegar sú háttprúða sómakona Júlíana Gottskálksdóttir er látin verður svo berlega ljóst að við hefðum átt að gera ótal margt öðruvísi en raun varð á. Við vorum samferða Júlíönu í gegnum gagnfræðaskóla og menntaskóla án þess þó að kynnast henni neitt að ráði.
Leiðir okkar lágu síðar saman árið 1976 þegar Júlíana hafði lokið listfræðinámi frá Lundi og var starfsmaður Árbæjarsafns. Við unnum þá saman að viðamikilli húsakönnun í Grjótaþorpi undir stjórn borgarminjavarðar. Það starf krafðist einbeitingar og hefur líklega verið merkilegt skref í þróun húsverndar í Reykjavík, því í kjölfarið var unnið svokallað verndarskipulag fyrir byggðina í Grjótaþorpi, hið fyrsta sinnar tegundar.
Júlíana hélt áfram að afla sér menntunar á ýmsum sviðum en lét ekki mikið á því bera. Þegar hún lauk námi í byggingarlist frá Konunglega danska listaháskólanum árið 1986 með rannsóknarverkefni um þróun byggðar í Reykjavík á árunum 1840-1890 á grundvelli húsamælinga og byggingarsögulegra kannana, kom það okkur félögum á óvart því þótt við hefðum nokkuð fengist við skyld verkefni höfðum við litla sem enga nasasjón af námi Júlíönu fyrr en því var lokið. Þetta lýsir meira en mörg orð hæversku og hlédrægni Júlíönu, en ekki er laust við að lesa megi úr þessu eitthvað um skeytingarleysi okkar – að við skyldum ekki opna henni faðminn sem samverkamanni og hvetja til samskipta.
Hún hélt áfram rannsóknum sínum á byggingarsögu Reykjavíkur sem styrkþegi Vísindasjóðs og síðar hóf hún svo vinnu að doktorsverkefni sem fjallaði um brautryðjendastarf arkitektanna Rögnvaldar Ólafssonar og Guðjóns Samúelssonar á fyrstu áratugum 20. aldar. Á meðan Júlíana dvaldi við nám í Kaupmannahöfn viðaði hún að sér upplýsingum úr skjalasöfnum um þá Íslendinga sem dvalið höfðu við nám í iðngreinum á 19. öldinni, sem hún ætlaði að gera okkur sem áhuga höfum á byggingarsögu aðgengilegar og nýta sér líka sjálf í rannsóknum sínum.
Mögulegir snertifletir milli hennar og okkar voru ótal margir vegna sameiginlegra áhugamála og starfsvettvangs, en hlédrægni hennar og sinnuleysi okkar olli því að minna varð úr en æskilegt hefði verið og því fylgir auðvitað eftirsjá og vottur af skömm.
Starfsvettvangur Júlíönu varð að mestu leyti á vegum listasafna landsins en byggingarsagan var þó alla tíð með í för.
Júlíana er minnisstæð persóna vegna þekkingar sinnar og fagmennsku, vegna hógværðar sinnar og lítillætis en einnig sem spengileg kona á gamaldags reiðhjóli á ferð sinni um götur Reykjavíkur.
Veikindi hennar hin síðari ár líktust því einna helst sem hæverskan og hlédrægnin hefðu náð yfirtökunum, hún hvarf inn í sjálfa sig og um leið hvarf hún okkur og samferðamönnum sínum, en minningin mun lifa áfram í verkum hennar og gagnast byggingarlistasögunni – sem var hennar hjartans mál.
Hjörleifur Stefánsson, Stefán Örn Stefánsson.
Hvernig lýsir maður jafn fjölhæfri og vandaðri konu og Júlíönu í fáum orðum? Hún var einstakur fagmaður, ritverkin það vönduð að ekki þurfti að sannreyna þau. Hún var listræn og málaði málverk og hafði einstaklega fallega rithönd. Hún hafði sterka réttlætiskennd, seiglu og ró, var viðkvæm og trygg. Hún bar ekki tilfinningar sínar á torg en átti fjölda vina og kunningja. Hún hafði mörg áhugamál, sótti listsýningar, tónleika, leikhús og kvikmyndir. Hún fór allra sinna ferða fótgangandi og mætti í Vesturbæjarlaugina eldsnemma á morgnana í skemmtilegan sundhóp. Júlíana var þekkt sem listfræðingur og arkitekt en hafði víðtæka menntun. Í Svíþjóð nam hún listfræði, bókmenntir, leikhús- og kvikmyndafræði, í París nútímamyndlist og listfræði í Róm. Hún hreifst af menningu Suður-Evrópu og ferðaðist á þær slóðir þegar tækifæri gafst. Árbæjarsafn tengir okkur allar saman. Nanna minnist með hlýju og þakklæti góðra stunda í safninu, en hún réð Júlíönu til starfa þar í ársbyrjun 1975. Júlíana sýndi mikla þolinmæði þegar nýfæddur drengur bættist við á skrifstofunni, ró hennar haggaðist ekki við þessa viðbót né bleyjur sem þornuðu á ofnum meðan safna- og fræðastörf voru unnin. Þær voru bara tvær, verkin margskonar og stærsta verkefnið sem Júlíana vann að var rannsókn á byggingarsögu Grjótaþorps, þegar þar stóð til stórfellt niðurrif húsa. Niðurstöður birtust í skýrslunni Grjótaþorp 1976 og styrkti hún baráttuna fyrir varðveislu byggðarinnar. Áhugi Júlíönu á húsvernd og byggingarlistasögu leiddi hana síðan til náms í arkitektúr við Konunglega danska Listaháskólann í Kaupmannahöfn, með norræna byggingarlistasögu og uppmælingu húsa sem sérsvið. Lokaverkefni hennar um þróun byggðar í Reykjavík á 19. öld er grundvallarrannsókn á byggingarsögu miðbæjarins. Guðný sem tók við starfi hennar í Árbæjarsafni kynntist henni fyrst gegnum verkin sem þar lágu eftir hana. Framúrskarandi vinna hennar og gögn í Árbæjarsafni eru enn mikilvæg við rannsóknir á byggingarsögu borgarinnar. Júlíana var örlát á að miðla þekkingu sinni og veitti þeim sem til hennar leituðu ráð og tilsögn. Kristín kynntist Júlíönu þegar þær voru við nám í Kaupmannahöfn en þar bjó Júlíana í ævintýralegri íbúð við Peder Skrams Gade. Þær unnu um tíma við hreingerningu í Den Danske Bank á Brimarhólmi og varð oft hugsað til íslenskra forvera sinna þar. Júlíana kynnti Kristínu fyrir ýmsu í danskri menningu og saman sóttu þær baráttufund Grænlendinga þar sem Povl Dissing skemmti. Eftir heimkomu hélst vináttan og áttu þær samstarf á Þjóðminjasafni og Minjastofnun. Stólpinn í lífi Júlíönu var Bergþóra systir hennar sem lést í febrúar 2023. Þær voru alla tíð mjög samrýmdar og hittust við öll tækifæri sem gáfust og ferðuðust mikið saman. Síðustu árin voru Júlíönu erfið en hún hlaut góða umönnun í Sóltúni. Við vottum ættingjum hennar í Danmörku og Gísla og Önnu Díu, sem önnuðust þær systur í veikindum þeirra, innilega samúð.
Nanna Hermansson,
Guðný Gerður
Gunnarsdóttir, Kristín Huld Sigurðardóttir.
Júlíana Gottskálksdóttir var mikilsvirtur fræðimaður og menningarstjórnandi. Hún veitti Listasafni Einars Jónssonar forstöðu um árabil og setti tóninn hvað varðar faglegt starf safnsins. Hún bar arfleifð Einars Jónssonar og Önnu konu hans sterklega fyrir brjósti og sinnti sínu starfi af alúð. Í hennar starfstíð var safnið tilnefnt til íslensku safnaverðlaunanna árið 2012 fyrir öflugt miðlunarstarf með tilkomu nýrrar vefsíðu safnsins. Hún vann ötullega að því að bæta aðstöðu safnsins með undirbúningi og hönnun þjónustubyggingar. Byggingar sem mun nú rísa á komandi árum. Hún lifir það því miður ekki að sjá hana verða að veruleika, en það eru örlög safnamannsins; að vinna að verkefnum sem eru komandi kynslóðum til heilla. Júlíana var svo sannarlega safnamaður fram í fingurgóma og var menningararfleifð þjóðarinnar ávallt í fyrirrúmi. Fyrir hönd stjórnar Listasafns Einars Jónssonar færi ég aðstandendum, samstarfsfólki og vinum hennar hugheilar samúðarkveðjur. Júlíönu er þakkað gjöfult starf hjá safninu.
Mig langar líka að skrifa nokkur orð á persónulegum nótum. Ég minnist Júlíönu Gottskálksdóttur með hlýju og þakklæti. Árið 2008 hóf ég störf hjá Listasafni Einars Jónssonar sem gæslumaður. Það gerði ég samhliða námi í sagnfræði. Júlíana tók mér afar vel og með tímanum varð það svo að hún treysti mér fyrir ýmsum verkefnum í skráningu og miðlun. Þar á meðal var að ganga frá skráningu á bréfasafni Einar og Önnu. Hún veitti mér góða innsýn í starf safnamannsins og varð örlagavaldur í mínu lífi þar sem ég starfa enn innan safnageirans nú 16 árum síðar. Nákvæmni, natni og forvitni lærði ég á mínum samstarfsárum með Júlíönu. Hún var ávallt hvetjandi og tók vel í hugmyndir og verkefni. Ég á henni Júlíönu mikið að þakka og ef mér sem safnamanni tekst að skila bara broti af því sem Júlíana skilaði á sinni starfsævi til komandi kynslóða þá get ég litið stoltur yfir farinn veg. Þakka þér fyrir tækifærin Júlíana og hvíl í friði.
Sigurður Trausti
Traustason, stjórnarformaður Listasafns Einars Jónssonar.
Júlíana Gottskálksdóttir var listfræðingur og arkitekt að mennt. Mig langar hér í örfáum orðum að minnast framlags hennar til íslenskrar listasögu og listfræði. Starfsvettvangur Júlíönu var öðru fremur við menningar- og listasöfn og starfaði hún um árabil við Árbæjarsafn, Þjóðminjasafnið, Listasafn Íslands og var safnstjóri Listasafns Einars Jónssonar í rúman áratug.
Júlíana lauk prófi í listasögu frá Háskólanum í Lundi árið 1975. Á níunda áratugnum stundaði hún doktorsnám við Lundarháskóla þar sem rannsókn hennar beindist að frumherjastarfi íslenskra arkitekta í upphafi 20. aldar, einkum að starfi Rögnvalds Ólafssonar og Guðjóns Samúelssonar. Júlíana var afkastamikill fræðimaður og eftir hana liggja bækur og ritgerðir um myndlist, arkitektúr og hönnun. Rannsóknir Júlíönu marka í mörgum tilvikum mikilvæg tímamót í ritun íslenskrar listasögu. Má þar nefna Tilraunin ótímabæra … sem hún birti árið 1993 – og byggðist á lokaritgerð hennar við Háskólann í Lundi árið 1975 – um verk Finns Jónssonar á þriðja áratug tuttugustu aldar. Þar fjallaði hún fyrst fræðimanna ítarlega um framlag Finns til módernismans á Íslandi og þær móttökur sem abstrakt list hans fékk á sínum tíma. Hún var höfundur bóka um Ásgrím Jónsson – var sérfræðingur við Safn Ásgríms um árabil – og um aðra frumherja í upphafi aldarinnar í norrænu samhengi eins og Þórarin B. Þorláksson og Guðmund Thorsteinsson. Júlíana var einn höfunda bókarinnar Í Deiglunni, sem Listasafn Íslands gaf út árið 1994 og var mikilvæg rannsókn á íslenskri menningarsögu á fjórða og fimmta áratugnum. Þá ber að nefna ritgerðir Júlíönu um abstrakt listina eða módernismann á sjötta áratugnum sem birtust m.a. í bókinni Draumurinn um hreint form, sem Listasafn Íslands gaf út árið 1998. Júlíana var annar höfundur 1. bindis íslenskrar listasögu; Landslag, Rómantík og Symbólismi sem kom árið 2011 og tók hún mjög virkan þátt í undirbúningi þess rannsóknarverkefnis á vegum Listasafns Íslands. Þegar Júlíana var safnstjóri Listasafns Einars Jónssonar setti hún saman vandaða heimasíðu um safnið og markaði upphafið að miðlun og aðgengi að safninu í netheimum.
Eins og sjá má af þessari takmörkuðu umfjöllun um framlag Júlíönu til íslenskrar listasögu var hún fjölhæfur fræðimaður sem stundaði rannsóknir sínar af mikilli vandvirkni og metnaði. Ég vil minnast Júlíönu með þakklæti og virðingu og sérstaklega vil ég minnast gefandi samstarfs á liðnum áratugum. Blessuð sé minning Júlíönu.
Ólafur Kvaran.
Það var lán fyrir Listasafn Íslands að fá Júlíönu Gottskálksdóttur listfræðing til starfa árið 1987 og vann hún við safnið í ein þrettán ár. Hún varð þá safnstjóri í Hnitbjörgum, Safni Einars Jónssonar. Júlíana skrifaði fjölda greina um íslenska myndlist, í bækur og sýningarskrár, og framlag hennar í Íslenska listasögu sem kom út árið 2011 var til að mynda ríkulegt.
Ég kynntist Júlíönu þegar ég vann á safninu á árunum 1995 til 1998. Mér fannst Júlíana alltaf glæsileg tilsýndar og það var eins og hún bæri með sér fágaðan andblæ að utan. Og hún skar sig úr þar sem hún fór, oft á milli menningarviðburða, há og grönn, í minningunni gjarnan í dökkum og síðum yfirhöfnum, með franska alpahúfu og oft á hjóli. Við höfðum báðar mikinn áhuga á kvikmyndum og ég man eftir löngum og skemmtilegum samræðum, iðulega í tengslum við kvikmyndahátíðir. Júlíana fylgdist grannt með öllum sýningum og hafði áhugaverðar skoðanir á listinni sem hún lá ekki á. Hún gaf sér tíma til að spjalla og gaf samstarfsfólki sínu og störfum þess gaum, og tók eftir því sem vel var gert.
Á Listasafninu minnumst við starfsfólkið okkar góðu fyrrverandi samstarfskonu með hlýhug og þakklæti.
Fyrir hönd Listasafns Íslands,
Ingibjörg Jóhannsdóttir safnstjóri.