Opnað hefur verið fyrir gjaldfrjáls afnot af gagnagrunni nýja víðernakortsins af óbyggðum Íslands. Um er að ræða Shapefile- og GeoTIFF-skrár fyrir sérfræðinga í umhverfis- og skipulagsmálum. Gagnagrunnurinn er aðgengilegur á vefsíðunni vidernakort.is.
Hins vegar þarf ekki sérfræðiþekkingu til að skoða kortið á netinu á vefsja.is undir „Landslag og víðerni“ og á map.is undir „Ýmis kortagögn“.
Nýja víðernakortið mætir mikilli þörf fyrir nákvæmar og uppfærðar upplýsingar um hvar óbyggð víðerni er að finna því eldri kortlagning þeirra stenst ekki tæknilegar kröfur eða gildandi lög. Um gerð víðernakortsins sá Wildland Research Institute (WRI) við landfræðideild háskólans í Leeds, í samvinnu við staðkunnuga hér á landi.
Kortlagning víðernanna byggist á greiningu á stafrænum þrívíðum landupplýsingagögnum sem eru m.a. notuð til að greina með mikilli nákvæmni sýnileika mannvirkja sem geta haft áhrif á víðernaupplifun. Kortlagningin fer eftir þeirri alþjóðlega viðurkenndu og stöðluðu aðferðafræði sem tilgreind er í náttúruverndarlögum.