Könnun Outcome gerði könnunina 17.-30. okt. Svarhlutfall var 30%.
Könnun Outcome gerði könnunina 17.-30. okt. Svarhlutfall var 30%. — Morgunblaðið/Eggert
Aukinn fyrirsjáanleiki í opinberum framkvæmdum gæti sparað ríki og sveitarfélögum tugi milljarða króna, er niðurstaða nýrrar könnunar sem gerð var meðal félagsmanna Samtaka iðnaðarins sem taka þátt í útboðum af þessu tagi

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Aukinn fyrirsjáanleiki í opinberum framkvæmdum gæti sparað ríki og sveitarfélögum tugi milljarða króna, er niðurstaða nýrrar könnunar sem gerð var meðal félagsmanna Samtaka iðnaðarins sem taka þátt í útboðum af þessu tagi.

Í könnuninni segir 91% stjórnenda verktakafyrirtækja að ófyrirsjáanleiki í opinberum framkvæmdum skili auknum kostnaði, þ.e. hærri tilboðum í útboðum hins opinbera. Þar kemur fram að með meiri stöðugleika, minni sveiflum á umsvifum hins opinbera milli ára og skilgreindari undirbúningstíma væri hægt að minnka kostnað umtalsvert.

Óvissan hækkar verð

Í ár eru heildarfjárfestingar í innviðum hins opinbera áætlaðar 175 milljarðar króna. Í könnuninni kemur fram að stjórnendur verktakafyrirtækjanna segja að hægt væri að bjóða nær 11% lægra í opinberar framkvæmdir ef meiri fyrirsjáanleiki væri fyrir hendi. Það myndi þýða að opinberir aðilar gætu sparað nærri 19 milljarða á þessu ári.

Áform standast ekki

Þá telja 88% stjórnenda verktakafyrirtækja að of stuttur undirbúningstími valdi auknum kostnaði við verklegar framkvæmdir á vegum hins opinbera, en 9% eru ósammála því. Einnig verða sveiflur og óstöðugleiki til þess að verð hækkar og þegar stjórnendur fyrirtækja voru spurðir um traust til áforma stjórnvalda um innviða- og húsnæðisuppbyggingu sagðist 71% bera lítið traust til áforma þeirra, en aðeins 3% bera mikið traust til áforma opinberra aðila.

Á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins árið 2023 voru kynnt áform níu opinberra aðila um fyrirhuguð útboð fyrir 173 milljarða króna, en í lok ársins var aðeins búið að bjóða út verkefni fyrir 88 milljarða. Það eru 49% færri verkefni en lagt var upp með, sem skýrir að verktakafyrirtæki taki útboðum með fyrirvara.

Þá er einnig algengt að lagt sé upp með metnaðarfull áform sem síðan er hætt við eða dregið mikið úr, og má þar nefna húsnæðisuppbyggingu, jarðgangagerð og samgöngusáttmála.