— Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þingmenn hafa fáa jákvæða hvata til þess að taka þátt í alþjóðastarfi Alþingis jafnvel þótt alþjóðastarfið feli í sér sum af þeim verkefnum sem skipta framtíð landsins hvað mestu máli. Þá er enn sterk sú ímynd að alþjóðastarfið feli í sér einhvers…

Viðtal

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Þingmenn hafa fáa jákvæða hvata til þess að taka þátt í alþjóðastarfi Alþingis jafnvel þótt alþjóðastarfið feli í sér sum af þeim verkefnum sem skipta framtíð landsins hvað mestu máli. Þá er enn sterk sú ímynd að alþjóðastarfið feli í sér einhvers konar hlunnindi fyrir viðkomandi þingmenn og að utanlandsferðir vegna þess séu frekar skemmtiferðir en vinnuferðir.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í frumniðurstöðum doktorsrannsóknar sem stjórnmálafræðingurinn Vilborg Ása Guðjónsdóttir er nú að vinna. Vilborg, sem starfaði m.a. við alþjóðastarf Alþingis á árunum 2012-2018, mun þar bera saman viðhorf þingmanna á Íslandi, Noregi og á Spáni til alþjóðastarfsins og hvernig þingmenn nýta sér það til að hafa áhrif á stefnumótun heima fyrir. Þá kannar hún um leið hvernig alþjóðastarfið er tengt öðrum störfum þjóðþinga þessara ríkja.

„Margt af því sem er gert í alþjóðastarfinu snýr í raun og veru að innanlandsmálunum, þannig að það er mikil þekking og innsýn sem þingmenn geta fengið með því að sinna því,“ segir Vilborg og bætir við að það hjálpi þingmönnum einnig við að mynda tengsl við kollega sína erlendis. Allt þetta geti svo nýst heima fyrir til þess að bæta lagasetningu og stefnumótun og efla utanríkisstefnuna.

Vilborg segir að ákveðnir þættir komi í veg fyrir að þingmenn nýti möguleika alþjóðastarfsins til fulls, og þær hindranir felist að einhverju leyti í því hversu lítið alþjóðastarf Alþingis er samþætt þingstörfunum heima fyrir.

„Svo bætist við að framkvæmdavaldið hefur frekar neikvætt viðhorf gagnvart því að þingmenn nýti alþjóðastarfið til að hafa áhrif á stefnumótun hér heima við. Þá má nefna að sérstakt áhugaleysi fjölmiðla á utanríkismálum hefur einnig ákveðin áhrif og einnig neikvætt viðhorf almennings gagnvart alþjóðastarfinu,“ segir Vilborg.

Allir þessir þættir spila að hennar sögn saman og gera það að verkum að þingmenn upplifa það sjaldan að það sé þeim til framdráttar út á við að sinna alþjóðastarfinu. „Þannig að það er í rauninni þörf á ákveðinni viðhorfsbreytingu hjá öllum þessum aðilum sem ég nefni og að við öll áttum okkur á því hversu mikilvæg utanríkismál eru. Alþjóðleg þróun hefur mikil áhrif á okkur hérna heima og við þurfum að vera meðvituð um það og nýta sóknarfærin sem þar eru til staðar.“

Vilborg segir, aðspurð hvort utanríkismál hafi færst neðar í virðingarstiganum, að tilfinning þeirra sem muni lengra aftur í tímann sé sú að það hafi verið lögð meiri áhersla á utanríkismál hér á landi og meiri umræða tíðkast um þau mál hér áður fyrr, og þá kannski sérstaklega á tímum kalda stríðsins. Hún bætir við að lok kalda stríðsins haft mögulega haft þau áhrif að fólk hafi talið að nú yrðu bara rólegir og góðir tímar og því væri ekki lengur þörf á þessari sérstöku áherslu á utanríkismál sem var á árum áður.

Þurfum að auka stuðninginn

Vilborg tekur fram að margir þingmenn hafi í gegnum tíðina nýtt sér alþjóðastarfið vel í störfum sínum heima fyrir. „En þeir gera það í raun og veru þrátt fyrir að þessar hindranir séu til staðar,“ segir Vilborg.

„Þeir sinna þessu starfi þrátt fyrir að það sé ekki vinsælt í kjördæminu, þrátt fyrir að það sé ekki mikill áhugi frá framkvæmdavaldinu, þrátt fyrir að fjölmiðlar séu ekki að fjalla um það og þrátt fyrir að það sé ekki samofið þingstörfunum heima. Það er samt hægt að fullnýta alþjóðastarfið, en það eru mun minni líkur á því þegar aðstæður er svona,“ segir Vilborg.

Hún bætir við að ein leiðin til þess að breyta þessu viðhorfi sé að fá umræðu um utanríkismál fram og að það séu ekki bara nokkrir aðilar sem þekki til sem ræði um þau sín á milli á sama tíma og almenningur telji að alþjóðastarfið felist bara í einhverjum kampavínsheimsóknum til útlanda. „Við þurfum að átta okkur á því hversu mikilvæg þessi mál eru þannig að þingmenn fái frekar stuðning til þess að sinna þessu starfi og fjölmiðlar fari að veita þessu athygli,“ segir Vilborg.

En er mögulega að myndast einhvers konar embættismannavæðing í þessu alþjóðastarfi á kostnað kjörinna fulltrúa?

„Það er náttúrulega hætta á því að ef þingmenn sjá lítinn hag í því að verja orku sinni í þetta starf fari embættismenn í of stórt hlutverk bara til þess að halda hlutunum gangandi,“ segir Vilborg og bætir við að alþjóðastarf þingsins sé ekki hugsað þannig. „En það er hættan, sér í lagi ef það eru fáir jákvæðir hvatar til þess að þingmenn nýti sér starfið.“

Hún bætir við að embættismenn á vegum þingsins vilji gjarnan að þingmenn sinni þessu hlutverki sínu af fullum krafti, en það sé ekki alltaf raunin, þar sem þingmenn mæti misvel undirbúnir til starfsins, og hafi mismunandi áhuga og þekkingu á því sem það krefst.

Það sé meðal annars afleiðing af því hvernig skipað er í nefndir þingsins með samkomulagi stjórnarflokkanna, þar sem formennska í fastanefndum verði að gulrót fyrir þá sem ekki verða ráðherrar, og ef það næst ekki þá kemur formennska í alþjóðanefnd í staðinn.

Vilborg segir aðspurð að þetta geti leitt til þess að fólk skipist í nefndir í málaflokkum sem það hafði ekki mikinn áhuga á, þar sem samkomulag flokkanna um skipan í nefndir verði að ráða. „En það er mælst til þess innan þingsins að það sé hugað að þessum atriðum þegar skipað sé í nefndir, en þegar á hólminn er komið eru þetta flóknar samningaviðræður innan þingflokkanna.“

Fara í felur með starf sitt

Tal okkar berst að áliti almennings á alþjóðastarfi þingsins, en í könnun Vilborgar kemur fram að kjósendur hafa oft frekar neikvætt álit á alþjóðastarfinu og þá kannski ekki síst þeim vinnuferðum sem því tengjast.

„Ég velti fyrir mér hvort þetta eigi rætur að rekja til þess tíma þegar það var erfitt og mjög dýrt að fara í utanlandsferðir og fólk fór ekki nærri því eins oft til útlanda og það gerir í dag. Þar af leiðandi sé tilfinningin sú að ef þú sért að fara af landi brott, þá sé það í langþrátt frí og jafnvel einhvers konar lúxus,“ segir Vilborg og bætir við að þetta viðhorf sé ekki að finna í jafnríkum mæli í öðrum ríkjum Evrópu, sem megi mögulega rekja til þess að það er erfiðara að ferðast héðan til annarra ríkja en t.d. á meginlandi Evrópu.

„En svo er það að allt sem þingmenn gera er yfirleitt gagnrýnt nokkuð harðlega, það fylgir þeirri stöðu sem þeir gegna,“ segir Vilborg og nefnir að í viðtölum sínum við þingmenn hafi komið fram að sumir þeirra fari jafnvel í felur með þátttöku sína í alþjóðastarfi vegna þessa viðmóts.

Einstaka þingmenn sögðu hins vegar að þeir litu á það sem hlutverk sitt að breyta almenningsálitinu. „En það er kannski líka eitt af hlutverkum þingmanna, að breyta almenningsálitinu til samræmis við þeirra eigin sannfæringu.“

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson