Dýrleif Ólafsdóttir fæddist á Akranesi 2. ágúst 1968. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar 7. nóvember 2024.

Faðir hennar er Ólafur Örn Gunnarsson, f. 19.8. 1944. Móðir hennar var Sigrún Halldórsdóttir, f. 18.1. 1947, d. 6.4. 1994. Stjúpmóðir hennar er Erla María Erlendsdóttir, f. 13.9. 1947.

Alsystur eru Linda Björk, f. 6.1. 1972, og Helga Dóra, f. 5.9. 1977, og á hún fjögur börn. Bróðir sammæðra Ægir Þór Frímannsson, f. 29.3. 2024. Systir samfeðra Vilhelmína Ósk, f. 9.12. 1986, og á hún þrjú börn. Stjúpbræður Erlendur Eiríksson, f. 31.10. 1969, og á hann þrjú börn, Kristófer Matthew Challender, f. 26.11. 1976, d. 9.12. 2002.

Hinn 17. júní 2000 giftist Dýrleif Gunnari Inga Guðmundssyni, f. 21.2. 1970, og eiga þau þrjú börn: Róbert Aron, f. 1.12. 1995, Ólaf Örn, f. 29.6. 1999, og Heklu Lind, f. 5.7. 2001. Fyrir átti Dýrleif soninn Birki Frey Hákonarson, f. 18.4. 1989. Unnusta hans er Sunna Ruth Stefánsdóttir og eiga þau dótturina Lilju Rós. Fyrir átti Gunnar soninn Hlyn Hørland Gunnarsson Dichmann, sem er kvæntur Simone Rie Hørland Dichmann, og eiga þau tvo syni, Felix og Filip.

Dýrleif ólst upp á Akranesi fyrstu átta árin en flutti þaðan til Sandgerðis í tvö ár. Eftir það hefur hún búið í Hafnarfirði fyrir utan stuttan tíma sem hún flutti til Reykjavíkur um tvítugt.

Dýrleif stundaði nám í Flensborg um tíma en eftir barneignir lauk hún námi í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og útskrifaðist sem sjúkraliði 2012. Hún starfaði í fiskvinnslu og við hin ýmsu verslunarstörf á sínum yngri árum.

Um 10 ára skeið starfaði hún á sambýli fyrir fatlað fólk í Hafnarfirði og var lengst af á Smárahvammi. Eftir útskrift starfaði hún á B6, heila- og taugadeild á Landspítalanum Fossvogi.

Útför Dýrleifar verður frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 21. nóvember 2024, og hefst athöfnin klukkan 13. Streymi á slóð: https://mbl.is/go/smqm9

Það er skrýtið, erfitt og mjög óraunverulegt að sitja hér í stofunni þar sem þú kvaddir okkur og setja þessi orð á blað. Elskan mín, við áttum eftir að gera svo margt saman en það mun frestast eitthvað. Við gerðum mjög margt og það ber að þakka fyrir það. Við hittumst fyrst í Sjallanum fyrir norðan, þar var fyrsti kossinn og fyrsti dansinn. Við komum 3 börnum í heiminn, áttum sitt hvorn drenginn fyrir og fáum 4 Helgubörn til okkar reglulega. Barnabörnin orðin 3 og svo öll tengdabörnin. Þetta var og verður ríkidæmi okkar sem þú hugsaðir svo vel um en hafðir stundum áhyggjur af. Ég mun gera mitt besta til að annast þau öll elskan mín.

Við höfðum gaman af að ferðast og fórum með börnin á hverju sumri í einhverja ferð og það var enginn betri í að skipuleggja ferðirnar en þú. Fyrstu árin til Spánar og svo byrjuðu ferðirnar til Bandaríkjanna. Alltaf var farið víða og mikið skoðað. Þú vildir hafa nóg að gera frá morgni til kvölds. Og þannig var það eiginlega allt þitt líf, alltaf að skipuleggja eitthvað til að gleðja aðra. Ef þú fórst í einhverja veislu, fermingu, giftingu, afmæli eða hvað það nú var, varstu alltaf að hjálpa til og fórst út með ruslinu þegar allt var frágengið.

Þú ræktaðir kattategund sem erfitt er að standast. Fluttir inn hana Bíbí frá Póllandi og fékkst fleiri ketti til að rækta undan. Og það sem þú hefur glatt marga með þessum köttum, allir svo þakklátir og svo sagðir þú við alla sem fengu kött hjá þér að ef þeir yrðu í vandræðum með pössun fyrir köttinn þá gætir þú passað kisa ef þess þyrfti. Þú ræktaðir fleira en ketti, garðurinn okkar og blómin í gróðurhúsinu hjá þér uxu endalaust og fengu ættingjar og vinir að njóta þess. Einn nágranni okkar er þegar búinn að spyrja hver eigi að sjá um sumarblómin næsta sumar. Myndirnar sem þú málaðir og prýða heimilið okkar eru núna ómetanlegar, minna okkur á hversu ótrúlega listræn þú varst. Það lék allt í höndunum á þér. Og þegar þú veiktist 2020 byrjaðir þú að gera hvítmáluð hjörtu í svörtum ramma og gefa vinum og vandamönnum, svona varst þú alltaf að gleðja aðra.

Halloween-partíin sem þú skipulagðir eru ógleymanleg þeim sem í þau komu, þar var allt upp á 10, alveg ótrúlegur metnaður. Það er eftirminnilegt að fyrir 3 árum kom ég heim og spurði hvort þú hefðir virkilega boðið 168 manns í halloween-partí, þá sagðir þú vertu rólegur, það koma ekki alltaf allir.

Þú varst mikið jólabarn og skreytingarnar eftir því. Og að sjálfsögðu settirðu markið hátt og fékkst viðurkenningu fyrir best skreytta hús Hafnarfjarðar um síðustu jól. Elsku Didda mín, þrátt fyrir erfiða æsku tókst þér að njóta lífsins og varst sannkallaður gleðigjafi fyrir mjög marga á þinni lífsleið.

Elskan mín, lífið verður aldrei eins án þín en við ætlum að gera okkar besta til að halda áfram. Eins og þú sagðir alltaf: Þetta reddast. Lífið er núna og áfram gakk.

Elsku ástin mín, hér sit ég og græt með henni Fíu okkar sem saknar þín mjög mikið eins og ég.

Takk fyrir allt elskan mín, við sjáumst síðar.

Gunnar Ingi Guðmundsson.

Elsku fallega mamma mín. Þú kvaddir þennan heim allt of snemma, og eins og þú sagðir oft þá áttirðu eftir að gera svo mikið. Það er ósanngjarnt hvernig lífið er, að þú hafir ekki fengið að lifa því til fulls. Eftir sitja hlýjar og góðar minningar af yndislegri móður sem allt vildi gera fyrir okkur krakkana. Mamma var einstök manneskja, hjartahlý, ákveðin, hugrökk, trygg, svo ótrúlega hugmyndarík og flink. Hún var alltaf svo gjafmild, ekki bara við aðra heldur líka okkur börnin þó svo að ekkert tilefni væri fyrir því. Hugsaði alltaf um aðra á undan sjálfri sér og var reiðubúin að hjálpa fólkinu sínu, sama hvað. Mamma var alltaf, og þá meina ég alltaf, með myndavél á sér til þess að fanga minningarnar. Þakklætið er mikið fyrir það þó að okkur krökkunum hafi fundist það afskaplega pirrandi stundum en það er okkur mikils virði í dag.

Mamma kenndi mér svo margt sem mun nýtast mér alla mína ævi. Eins og hvernig á að baka bestu kökurnar, elda góðan mat, halda flottustu veislurnar og að reyna mitt allra besta þó að á móti blási. En sama hvað þú reyndir náðir þú aldrei að gefa mér þína grænu fingur en ég reyni mitt besta til að halda öllum óteljandi plöntunum þínum á lífi. En fyrst og fremst kenndir þú mér að lifa lífinu í gleðinni og jákvæðninni því við eigum bara eitt líf og lífið er núna.

Takk fyrir ástina, umhyggjuna, gleðina og allt sem þú kenndir mér á þeim tíma sem við áttum saman. Lífið verður tómlegt og skrítið án þín, elsku mamma. Ég elska þig alltaf og mun ég varðveita allar okkar minningar og ævintýri saman. Að eilífu litla stelpan hennar mömmu.

Hekla Lind Gunnarsdóttir.

Elsku systir. Það er þyngra en tárum taki að þurfa að kveðja þig í blóma lífsins. Tilfinningin að við séum að missa svo mikilvæga manneskju úr lífi okkar er yfirþyrmandi. Tilhugsunin um að þú sért ekki í fallega húsinu þínu á Blómvöllunum er óraunveruleg. Það er erfitt að verða ekki sár og reiður út í lífið þegar lífsglaða þú ert hrifin á brott frá öllum sem þú elskaðir og frá öllum sem elskuðu þig.

Það er svo margt sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um hver þú varst. Ég þekki fáa sem elska jafn mikið að vera til og hafa fólk í kringum sig og þú gerðir. Því til vitnis voru meðal annars öll matarboðin, veislurnar og partíin sem voru ævintýri líkust því alltaf var farið alla leið og aðeins lengra þegar kom að skreytingum og veitingum. Þú gast töfrað fram þvílík veisluborð með annarri hendi. Það var líka heillandi hversu listræn og skapandi þú varst, það hreinlega lék allt í höndunum á þér.

Þú varst með eindæmum gjafmild og hjálpsöm. Þú máttir ekkert aumt sjá eða vita af vandræðum hjá fólkinu í kringum þig, þá varstu rokin af stað til þess að rétta fram hjálparhönd, alltaf til staðar af heilum hug. Ekkert vandamál var óyfirstíganlegt enda voru jákvæðni og bjartsýni þín helstu vopn. Eiginleikar sem þú nýttir þér svo um munaði í þessari löngu og ströngu baráttu sem þú háðir við krabbamein. Þá kom líka enn frekar í ljós hversu sterk og ákveðin þú varst. Þú tókst á við veikindin á aðdáunarverðan hátt, lagðir líf og sál í baráttuna en á sama tíma gleymdirðu ekki að njóta lífsins og hélst áfram að gera hluti sem veittu þér gleði. Þú ætlaðir aldeilis ekki að láta þetta stoppa þig. Þessi endalok eru svo ósanngjörn því ég veit að þú vildir ekki fara og við vorum ekki tilbúin að missa þig.

En fyrst og fremst minnist ég og sakna hlýjunnar og þéttu faðmlaganna, fallega brossins og dillandi hlátursins. Það var alltaf mikið hlegið enda þú sjálf og allir í yndislegu fjölskyldunni þinni með skemmtilegt skopskyn – það var alltaf stutt í grínið. Það er erfitt að trúa því að við munum ekki heyra þig hlæja einu sinni enn.

Aríana syrgir þig sárt og Bergrós spyr mikið um skemmtilegu og góðu frænku sína. Ég er svo miður mín að þær muni ekki njóta góðs af því í framtíðinni að hafa þig í lífi sínu. En við erum þakklát fyrir þann tíma sem við þó fengum með þér. Við reynum að ylja okkur við minningarnar, því þær eru ljúfar, allar með tölu. Hugur okkar er hjá Gunna og börnunum ykkar á þessum erfiðu tímum, missir þeirra er sárastur.

Hvíldu í friði, elsku systir, og takk fyrir allt. Minning þín er ljós í lífi okkar.

Þín systir,

Vilhelmína (Helma)
og fjölskylda.

Stundum eru engin orð til að segja eins og mamma orðaði það þegar ég færði henni fréttirnar af andláti elsta barnabarns hennar og nöfnu. Samt ætla ég að reyna að skrifa nokkur orð um frænku mína hana Dýrleifu eða Diddu eins og hún var alltaf kölluð. Það eru nokkur orð og tengingar sem spretta fram þegar hugsað er til Diddu.

Gjafmildi. Ef boðið var í mat kom hún með fangið fullt af gjöfum og gleymdi auðvitað ekki Jökli hundinum okkar sem fékk alltaf eitthvert sérlega gómsætt nammi. Það gagnaðist aldrei að segja henni að koma ekki með neitt því ég ætti allt, hún var ekkert að hlusta á það.

Þrjóska. Didda var þrjósk, og í þeim veikindum sem hún þurfti að fást við kom það sér vel. Hún gafst aldrei upp. Það kom sér líka vel í lífi hennar því stundum var mótvindur.

Lífsvilji. Hann var mikill, hún hafði svo margt að lifa fyrir, Gunna manninn sinn sem fylgdi henni alltaf í öllu sem hún tók upp á með stöku jafnaðargeði og stundum með pínu glotti. Börnin sín sem hún átti svo gott samband við, börn systra sinna, sum sem hún tók undir sinn verndarvæng og í huga annarra var hún uppáhaldsfrænkan. Hún var með stóran faðm og fallegt hjartalag.

Dýravinur. Í þessum faðmi voru ansi oft hundar eða kisur því Didda var sannur dýravinur. Hún laðaði að sér alla villikettina hvar sem hún var á ferðalagi og þá tæmdust hillurnar í dýrabúðunum og kannski líka vasarnir hennar, en henni var slétt sama um það. Þetta byrjaði snemma, því þegar hún var agnarlítil í vagni tók hundurinn okkar fjölskyldunnar upp á því að passa hana þar sem hún svaf í vagninum. Það hafði enginn sagt honum að gera það en eftir á að hyggja þá er svo eðlilegt að hann hafi gert það. Vinátta. Didda átti fjöldann allan af vinum og hvert sem hún fór þá eignaðist hún nýja. Hún var opin, einlæg, skemmtileg og hreinskiptin en þetta eru eiginleikar sem toga fólk til sín. Hún var alltaf til í samveru og það er ekki sjálfgefið að eiga frænku að vini og þessi vinátta var mér dýrmæt.

Einu sinni sem oftar kom Didda færandi hendi í sumarhúsið með fullt fang af fjölærum blómum. Það kemur aftur vor og þá mun ég horfa á þau vaxa og blómstra og hugsa til hennar og alls þess fallega sem hún náði að dreifa í kringum sig.

Halldóra Dýrleifar Gunnarsdóttir.

Elsku Didda æskuvinkona mín.

Það eru svo margar minningar sem koma upp í huga mér þegar ég hugsa til þín.

Við kynntumst þegar við vorum börn í Sandgerði og síðan þá höfum við upplifað mörg ævintýri saman.

Þegar þú fluttir í Hafnarfjörðinn fagra vorum við duglegar að hittast þegar tækifæri gafst og það voru ófáar ferðirnar okkar í Æskó, D 14 og fleiri álíka skemmtistaði. Á þessum tíma var aðaltískan hárbönd, legghlífar og grifflur sem við klæddumst að sjálfsögðu eins og hinir unglingarnir.

Ekki má gleyma útilegunum, þær voru oft fjörugar og gott að ylja sér við skemmtilegar minningarnar.

Þú varst ung þegar þú eignaðist frumburðinn þinn, hann Birki Frey, og bjuggum við saman um stund þegar hann var lítill drengur.

Það var mikil gæfa þegar þú kynntist honum Gunna þínum og eignaðist með honum dásamlegu börnin ykkar. Þú umvafðir þitt fólk miklum kærleik alla tíð.

Þegar ég bjó á Völlunum tókum við oft skjálftavaktina saman og vorum duglegar að láta hvor aðra vita ef við fundum minnsta titring hvort heldur var að degi eða nóttu.

Elsku gullið mitt, þú varst alltaf hrókur alls fagnaðar og gaman að vera í kringum þig enda sérstaklega jákvæð og góð vinkona. Það var aldrei lognmolla í kringum þig, þú varst dugleg að halda veislur og voru þær hver annarri flottari. Hrekkjavökupartíin voru þar engin undantekning.

Við hittumst oft við hin ýmsu tækifæri, horfðum t.d. saman á leiki þegar Ísland var að keppa.

Haustið 2022 fórum við þrettán saman til Liverpool. Þar varð vinahópurinn okkar til sem við höfum frá þeim tíma kallað Liverpool-hópinn. Það var dásamlegt að finna hvað varð mikill kærleikur til í þessari ferð og hvað þessi hópur tengdist strax frá fyrstu stundu og höfum við gert marga skemmtilega hluti saman síðan þá sem þú elsku vinkona tókst þátt í alveg þar til heilsan leyfði ekki meira.

Það er með mikilli sorg í hjarta sem ég kveð þig elsku gullið mitt.

Elsku Gunni og fjölskylda, megi góður guð styrkja ykkur í ykkar miklu sorg.

Þín vinkona,

Guðný.