Aðstæður á höfuðborgarsvæðinu árdegis í dag gætu leitt til mikillar loftmengunar af völdum svifryks. Spáð er hægum vindi og þar sem úrkomulaust hefur verið á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga er ekki ósennilegt að loftmengunar verði vart

Aðstæður á höfuðborgarsvæðinu árdegis í dag gætu leitt til mikillar loftmengunar af völdum svifryks. Spáð er hægum vindi og þar sem úrkomulaust hefur verið á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga er ekki ósennilegt að loftmengunar verði vart.

Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftmengun hjá Umhverfisstofnun, segir að vindurinn undanfarna daga hafi hjálpað til við að halda menguninni í skefjum en þar sem spáð er hægum vindi í dag gæti loftgæðunum hrakað.

„Samkvæmt veðurspánni á vindurinn að vera 2-3 m/s. Ef hann fer niður fyrir 2 m/s í áttleysu þá byggist upp loftmengun af völdum svifryks. En um leið og vindurinn er kominn í 2-3 m/s þá er rykið að færast hægt og rólega í burtu,“ segir Þorsteinn.

Vara þurfi við loftmengun

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur vakti athygli á veðurspánni í gær og sagði að vara þyrfti við loftmengun. Afar líklegt og nær öruggt mætti telja að loftgæði færu yfir heilsuverndarmörk eins og þau eru skilgreind. Raunar gæti dagurinn orðið verri en þeir verstu síðasta vetur, að mati Einars.

Þorsteinn bendir á að um tvenns konar mengun sé að ræða. Annars vegar mengun frá púströrum ökutækja sem er óháð veðri og hins vegar svifryk frá götunum. „Reykjavíkurborg í samvinnu við Vegagerðina er alltaf að ná betri tökum á rykbindingu og hefur farið í að sprauta rykbindandi efni á helstu umferðaræðar. Það er hins vegar skammtímalausn en getur hjálpað til í tvo daga eða svo,“ segir Þorsteinn.

Nagladekk eru oftar en ekki orsök mikils svifryks á höfuðborgarsvæðinu. Hlutfall nagladekkja í Reykjavík er svipað og í fyrra samkvæmt talningu sem gerð var um miðjan nóvember.

Tæplega þriðjungur reyndist vera á nöglum en Reykjavíkurborg mælir með góðum vetrardekkjum til að draga úr mengun, hávaða og sliti á götum.