Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Heitt vatn hefur fundist á Kjalarnesi og á Geldinganesi. Þetta markar tímamót því tvö ný lághitasvæði bætast þá við innan höfuðborgarsvæðisins ef allt gengur að óskum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum, dótturfyrirtæki Orkuveitunnar.
Eins og fram kom í viðtali við Þráin Friðriksson, auðlindaleiðtoga hitaveitu hjá Orkuveitunni, í Morgunblaðinu 3. október sl. stóð þá fyrir dyrum leit að heitu vatni á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu, annars vegar á Brimnesi á Kjalarnesi og hins vegar á Geldinganesi.
Á dögunum urðu sannkölluð tímamót þegar heitt vatn fannst á báðum stöðum, segir í tilkynningu Veitna.
Nýtt jarðhitakerfi fannst
Allt bendir til þess að þarna sé búið að finna nýtt jarðhitakerfi á Brimnesi sem hægt er að nýta fyrir höfuðborgarsvæðið.
Á Kjalarnesi hafa fundist 40 sekúndulítrar af u.þ.b. 100°C heitu vatni. Fyrsta ágiskun er að unnt verði að vinna allt að 200 l/s af heitu vatni sem gæti annað 10.000 manna hverfi. Á Geldinganesi hafa fundist 20 l/s af 90°C heitu vatni. Nánari rannsóknir eru fram undan.
Veitur segja að með þessum fundi fjölgi lághitasvæðum úr fjórum í fimm og mögulega í sex fyrir hitaveitu höfuðborgarsvæðisins. Öryggi fyrir íbúa höfuðborgarsvæðis vex þar sem vinnslusvæðin (með tveimur háhitasvæðum, Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun) vaxa í alls átta svæði.
Eftirspurn eftir heitu vatni hefur aukist ört með stækkandi samfélagi og Veitur þurfa að vaxa með til að mæta aukinni orkuþörf, segja Veitur. Viðmið Veitna eru að hámarkseftirspurn eftir heitu vatni til húshitunar aukist að jafnaði um 120 l/s á ári hverju.
Jarðhitarannsóknir Veitna eru unnar af sérfræðingum Orkuveitunnar í samvinnu við jarðfræðinga Íslenskra orkurannsókna. Ræktunarsamband Flóa og Skeiða borar 800 metra holurnar en Bergborun bróðurpartinn af hitastigulsholum. Unnið er í góðu samráði við landeigendur.