Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta segir félagið mundu geta byggt hraðar upp eignasafn sitt ef byggingarhæfar lóðir væru í boði á höfuðborgarsvæðinu.
Tilefnið er umræða um skort á hagkvæmum íbúðum en Búseti er þessa dagana að afhenda 42 nýjar íbúðir við Hallgerðargötu 24-26 á Kirkjusandi. Þá er félagið að reisa 46 íbúðir á Eirhöfða 3-5 í Reykjavík. Hvernig skyldi eftirspurnin vera þessa dagana?
„Fyrr í þessum mánuði úthlutuðum við 11 búseturéttum en fengum 312 umsóknir. Það sýnir hversu mikil þörf er fyrir fleiri íbúðir hjá Búseta,“ segir Bjarni Þór.
„Við bættum yfir 150 íbúðum í eignasafn okkar í fyrra með kaupum á 133 íbúðum frá [leigufélaginu] Heimstaden á Tangabryggju í [Bryggjuhverfinu í] Reykjavík og með eigin uppbyggingu við Maríugötu í Urriðaholti Garðabæjar. Á síðustu sex árum höfum við bætt við yfir 100 íbúðum á ári en gætum byggt enn meira ef nægt framboð væri á lóðum. Við eigum í viðræðum við ýmsa byggingaraðila varðandi frekari uppbyggingu. Því miður er ekki mikið að frétta hjá sveitarfélögum en þau mættu vera duglegri við að útvega félögum eins og Búseta byggingarhæfar lóðir.“
Hvernig fer saman hljóð og mynd í húsnæðismálum sveitarfélaganna? Húsnæðismálin eru kosningamál, eins og raunar undanfarin ár, og nú ætla allir að ganga fram fyrir skjöldu og tryggja framboð á íbúðum.
Ekki flókið mál
„Í mínum huga er þetta ekki mjög flókið mál. Búseta vantar lóðir sem eru byggingarhæfar til að byggja á. Auðvitað er fjármögnunarkostnaður einnig mikilvægur í þessu samhengi en við erum með öflugt félag sem stendur styrkum fótum og erum með mikilvæga samstarfsaðila sem eru boðnir og búnir til að vinna með okkur að hönnun og allri framþróun á húsakosti. En okkur vantar byggingarhæfa lóð til að geta hafist handa. Það er mjög einfalt svar við þessu,“ segir Bjarni Þór. Vel á fjórða þúsund manns búa nú í tæplega 1.500 íbúðum Búseta og eru félagsmenn tæplega sex þúsund. Um 70% íbúanna hafa búseturétt og greiða mánaðarlegt gjald til Búseta en um 30% íbúanna eru með hefðbundna húsaleigu hjá Leigufélagi Búseta.
„Búseturéttur er skilgreind eign búseturéttarhafa. Á Norðurlöndunum, þar sem þetta fyrirkomulag er algengt, talar fólk gjarnan um að kaupa íbúð þegar það kaupir búseturétt því búseturétturinn er ávallt bundinn sömu íbúðinni. Einungis eigandi búseturéttarins getur ákveðið að selja búseturéttinn,“ segir Bjarni Þór. Algengt verð á búseturétti sé nú um 10 milljónir.
Búseturétti er úthlutað eftir félagsnúmeri félagsmanna og eru handhafar elstu númeranna fremstir í röðinni við úthlutun. Að sögn Bjarna Þórs eru dæmi um að foreldrar skrái börn sín í félagið til að þau verði framarlega í röðinni þegar þar að kemur.
„Það er líka mikilvægt að ræða um fyrstu kaupendur sem eru svo heppnir að einhver skráði þá sem félagsmenn þegar þeir voru börn og eru nú að stofna fyrsta heimilið. Þetta unga fólk þarf þá ekki að kaupa íbúð fyrir 60 milljónir eða meira, sem er kannski óviðráðanlegt nema með hjálp nákominna, heldur getur keypt búseturétt hjá Búseta fyrir jafnvel 8 til 10 milljónir og er þá komið í góða íbúð með viðráðanlegu mánaðargjaldi,“ segir Bjarni Þór. Sem áður segir er Búseti að byggja 46 íbúðir við Eirhöfða.
„Áætlað er að sala íbúðanna hefjist í apríl 2025 og að þær verði tilbúnar til afhendingar í lok árs 2025. Byggingarfyrirtækið Sérverk sér um byggingu íbúðanna fyrir Búseta og það eru ASK arkitektar sem eiga heiðurinn af hönnuninni. Á byggingarreitnum sem um ræðir verða samtals byggðar 148 íbúðir í fjórum húsum. Hús Búseta er á sex hæðum með tveimur stigagöngum og með íbúðum af fjölbreyttri stærð og gerð. Hluti íbúðanna verður með stæði í bílageymslu en gert er ráð fyrir að íbúar geti nýtt bílastæði í grenndinni. Jafnframt er gert ráð fyrir bílastæðum fyrir hverfisbúa í nærliggjandi bílastæðahúsi. Hús Búseta verður klætt að utan með álklæðningu,“ útskýrir Bjarni Þór.
Sér um allt viðhald
Mörg fjölbýlishús ykkar eru vel staðsett. Hvað segir þessi eftirspurn raunverulega um markaðinn?
„Staðsetning fjölbýlishúsa er hluti af áhættustýringu hjá okkur en íbúðirnar eru vel staðsettar. Eftirspurnin sýnir í öllu falli að þörfin er til staðar hjá félaginu til að fjölga eignum enn frekar. Fólk sækir í þetta fyrirkomulag. Það er í sókn í Evrópu og Norður-Ameríku og þar fjölgar slíkum íbúðum ár frá ári. Það hefur marga kosti en m.a. lenda íbúar hjá Búseta aldrei í óvæntu utanhússviðhaldi því félagið sér um allt ytra viðhald,“ segir hann. Búseti sæki fjármagn á markað en almennt kaupi lífeyrissjóðir skuldabréf sem félagið gefur út. Vaxtalækkun Seðlabankans skipti miklu máli enda lækki hún fjármagnskostnað og styðji við uppbygginguna enda þótt félagið sé ekki mjög skuldsett.