Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Vegagerðin hefur boðið út hönnun fjögurra brúa á Axarvegi um Öxi ásamt gerð kostnaðaráætlunar og verklýsinga fyrir útboðsgögn.
Brýrnar eru um Innri-Yxnagilsá, Merkjalæk og á tveimur stöðum yfir Berufjarðará og verða þær hluti af fyrirhuguðum vegi frá vegamótum Skriðdals- og Breiðdalsvegar (95) að vegamótum hringvegar við Berufjarðarbrú.
Tilboðsfrestur er til 10. desember nk. Verkinu skal að fullu lokið í janúar 2026.
Veghönnun hefur verið í gangi um nokkurra ára skeið og er lokið, segir í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Morgunblaðsins. Vinna við veghönnunina var að mestu unnin af Mannviti (nú COWI). Vegagerðin hefur séð um öflun grunngagna, svo sem jarðtæknilegra, og lagt til sérþekkingu sína á svæðinu.
Með tilkomu Axarvegar (939) verður til heilsársvegur frá Djúpavogi til Egilsstaða og hringvegurinn styttist. Um er að ræða mikla samgöngubót fyrir Austfirðinga og í raun alla landsmenn.
Hinn nýi vegur verður 20 kílómetra langur, tveggja akreina og klæddur bundnu slitlagi. Hann kemur til með að liggja hæst í um 520 metra hæð yfir sjávarmáli, eins og núverandi vegur. Í dag er vegurinn hlykkjóttur malarvegur sem er ófær á vetrum vegna snjóa.
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er verkefnið Axarvegur á ósamþykktri samgönguáætlun. Það muni skýrast þegar ný samgönguáætlun verður samþykkt á Alþingi hvenær verkið verður boðið út.
Ekki tókst að afgreiða hana á yfirstandandi þingi þar sem þing var rofið og boðað til kosninga. Væntanlega kemur hún til afgreiðslu Alþingis á næsta ári.
Í byrjun árs 2022 tilkynnti Vegagerðin að til stæði að bjóða verkið út á árinu. Því útboði var slegið á frest.
Útboð Axarvegar verði nokkuð viðamikið þar sem gert er ráð fyrir að bjóða út verkhönnun, framkvæmd, fjármögnun og loks rekstur og viðhald til allt að 30 ára. Áætlaður framkvæmdatími er þrjú ár.
Samvinnuverkefni
Axarvegur telst til svokallaðra samvinnuverkefna. Þau eru skilgreind sem verkefni þar sem einkaaðili annast fjármögnun opinbers mannvirkis, í heild eða að hluta, eða tekur með öðrum hætti áhættu af gerð og rekstri þess, eftir atvikum með heimild til gjaldtöku fyrir notkun mannvirkisins á rekstrartíma.
Í lögum um samvinnuverkefni kemur fram að Vegagerðinni er heimilt, að undangengnu útboði, að gera samning við einkaaðila um ákveðin verkefni.
Þessi verkefni eru sex talsins; hringvegur um Hornafjörð, Axarvegur, hringvegur um Mýrdal, brú yfir Ölfusá, tvöföldun Hvalfjarðarganga og Sundabraut.