Undirritun Bergþóra Þorkelsdóttir, Sigurður Ingi og Þorvaldur Gissurarson í ÞG Verk skrifuðu undir samninginn.
Undirritun Bergþóra Þorkelsdóttir, Sigurður Ingi og Þorvaldur Gissurarson í ÞG Verk skrifuðu undir samninginn. — Morgunblaið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég fagna þessum degi gríðarlega. Það er ekki vafi að þessi framkvæmd er stór áfangi í samgöngusögu Íslands. Hún mun fækka slysum, stytta ferðatíma þeirra fjölmörgu sem fara um þetta svæði á degi hverjum

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

„Ég fagna þessum degi gríðarlega. Það er ekki vafi að þessi framkvæmd er stór áfangi í samgöngusögu Íslands. Hún mun fækka slysum, stytta ferðatíma þeirra fjölmörgu sem fara um þetta svæði á degi hverjum. Hún mun draga úr mengun í þéttbýlinu og gefa sveitarfélaginu möguleika á að þróa byggðina við Austurveg. Þetta mun stuðla að framförum og aukinni velsæld um ókomin ár,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála-, efnahags- og innviðaráðherra, eftir að verksamningur vegna byggingar brúar yfir Ölfusá var undirritaður.

Má líkja við Hvalfjarðargöngin

Eftir undirritunina í gær var gengið að brúarstæðinu þar sem Sigurður Ingi tók fyrstu skóflustunguna á stórvirkri gröfu.

„Verkið er af samskonar stofni og Hvalfjarðargöngin þar sem verktakinn framkvæmir verkið og síðan er innheimt gjald af umferðinni eftir að verkinu lýkur til þess að borga niður fjárfestinguna. Með því að setja hönnunina með í verkið erum við að stíga nýtt skref inn á spennandi braut,“ segir Sigurður Ingi.

Hann segir að uppleggið sé að framkvæmdin standi algjörlega undir sér.

„Ég ætla að spá því að umferðin haldi áfram að vaxa og að vextir í framtíðinni, í sífellt stöðugra efnahagslega sterkara Íslandi, verði lægri þannig að það muni aldrei reyna á þessa ríkisábyrgð. Hún er hins vegar fyrir hendi og grundvöllur þess að ég sem fjármálaráðherra get staðfest þessa framkvæmd.“

Verktaki tekur áhættuna af útfærslu og fjármögnun

Undirbúningsframkvæmdir hefjast á staðnum fljótlega og jarðtæknirannsóknir á forræði verktakans eru hafnar. ÞG Verk hefur ráðið til sín hönnuði til að fullhanna verkið. Alþjóðlega hönnunar- og ráðgjafarfyrirtækið Ramboll mun hanna brúna, verkfræðistofan Verkís annast hönnun vega og jarðtækni auk annarra brúa og undirganga. VSL, sem er alþjóðlegt fyrirtæki með sérþekkingu í hönnun og byggingu kapalbrúa, mun starfa með ÞG að verkinu. Vegagerðin sinnir umsjón og eftirliti með hönnun og framkvæmdum.

Verkefnið tekur mið af samvinnuverkefnum þar sem einkaaðili tekur á sig áhættu er varðar útfærslu og fjármögnun tiltekinnar framkvæmdar. Markmiðið með samvinnu stjórnvalda og einkaaðila er að flýta þjóðhagslega mikilvægum samgönguframkvæmdum.

Gert er ráð fyrir að umferð verði hleypt á brúna á árinu 2028.