Sjálfboðaliðar Sælla er að gefa en þiggja eru kjörorð Völu Rósar Ingvarsdóttur og Unnar Hrefnu Jóhannsdóttur sem njóta þess að baka fyrir jólabasarinn hjá Kvennadeild RKÍ.
Sjálfboðaliðar Sælla er að gefa en þiggja eru kjörorð Völu Rósar Ingvarsdóttur og Unnar Hrefnu Jóhannsdóttur sem njóta þess að baka fyrir jólabasarinn hjá Kvennadeild RKÍ. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú styttist í jólin og allt það sem þeim fylgir. Meðal þess fallega sem fylgir jólunum eru mannúðarstörfin sem sjálfboðaliðar sinna, margir í hljóði, til styrktar góðum málefnum. Kvennadeild Reykjavíkurdeildar RKÍ heldur árlegan jólabasar sinn á laugardaginn, 23

Sjöfn Þórðardóttir

sjofn@mbl.is

Nú styttist í jólin og allt það sem þeim fylgir. Meðal þess fallega sem fylgir jólunum eru mannúðarstörfin sem sjálfboðaliðar sinna, margir í hljóði, til styrktar góðum málefnum. Kvennadeild Reykjavíkurdeildar RKÍ heldur árlegan jólabasar sinn á laugardaginn, 23. nóvember, og fjölmargir leggja hönd á plóginn. Hlaðborðin svigna undan hnallþórum og smákökum, sultum og brauðmeti og öðru hnossgæti, jafnvel einhverju ósætu og síðast en ekki síst fallegu handverki og prjónlesi. Það er sem sagt eitthvað fyrir alla.

Flottar í pálínuboðið eða sem eftirréttur í matarboðinu

Eins og fram hefur komið hafa Vala Rós Ingvarsdóttir og Unnur Hrefna Jóhannsdóttir verið iðnar við að leggja sitt af mörkum hjá kvennadeildinni og líður þeim afar vel með það. Vala Rós situr einnig í stjórn deildarinnar og hefur verið í félagsmálanefndinni en öflugt félagsstarf er innan deildarinnar. Í tilefni af jólabasarnum verða heimalagaðar hnallþórur í stóru hlutverki, sumar í anda níunda áratugar síðustu aldar, þegar kökurnar voru bakaðar af húsmæðrum Íslands og nutu gríðarlegra vinsælda á veisluborðum landsmanna.

Í tilefni basarsins skelltu þær Vala Rós og Unnur Hrefna í eina hnallþóru, Dísudraum, og verður hún til sölu á jólabasarnum. „Allar kökurnar þar eru bakaðar af sjálfboðaliðum og margar sóma sér vel á hátíðarstundum, í flottu kaffiboði, nú eða sem eftirréttur í matarboði. Fleiri kökur verða til sölu á basarnum sem hægt er að kaupa, nú eða að gefa, en kræsingunum er pakkað inn í fallegar umbúðir,“ segir Vala Rós og brosir.

Viðmótið alltaf svo glaðlegt

Kvennadeildin var stofnuð árið 1966 og er því komin vel á sextugsaldur. Tilgangur deildarinnar er að safna peningum sem svo eru gefnir áfram til góðra verka og er deildin öflug. Jólabasarinn hefur verið hluti af starfinu í mörg ár en er ekki eina fjáröflun kvennadeildar því alla daga ársins rekur hún tvær sölubúðir, annars vegar á Landspítalanum við Hringbraut og svo Landspítalanum í Fossvogi. „Það er afskaplega gaman að starfa í búðunum, viðmót viðskiptavina er alltaf svo glaðlegt, bæði starfsmanna og sjúklinga, og þeir kunna svo sannarlega að meta þessa þjónustu,“ segir Unnur Hrefna.

Hún bætir því við að sjálfboðaliðarnir séu á öllum aldri, frá því að vera innan við tvítugt og til níræðisaldurs. „Sú sem er næstum níræð hefur ákaflega gaman af starfinu enda hefur hún verið með frá upphafi en síðustu ár hafa nokkrir strákar bæst í hópinn í búðunum. Þetta er mjög gjöfult starf, góður hópur og félagslyndur og við auglýsum reyndar hér með eftir fleiri sjálfboðaliðum, okkur vantar alltaf fleiri hendur á dekk.“

Prjónandi sjálfboðaliðar

Vala Rós segir að innan kvennadeildarinnar starfi einnig prjónahópur sem er að allt árið. „Afrakstur vinnu þeirra er einnig til sölu á basarnum en framlag þeirra til basarsins er ekki síður mikilvægt.“

Í ár verður jólabasarinn haldinn í safnaðarheimili Óháða safnaðarins að Háteigsvegi í Reykjavík, laugardaginn 23. nóvember eins og áður sagði, og verður opið frá klukkan 13 til 16.

Ljúffengur og lokkandi draumur

Þessi glæsilega hnallþóra sem stöllurnar bökuðu hefur í gegnum árin verið ofarlega á vinsældalista hjá mörgum fjölskyldum. Hún hefur gengið undir ýmsum nöfnum, er stundum kennd við Bessastaði en oftast kölluð Dísudraumur eða draumterta, enda auðvelt að láta sig dreyma um að borða hana. Hún sómir sér vel í hvaða veislu sem er en er líka frábær sem eftirréttur eftir góða máltíð.

Dísudraumur

Botn

2 egg (meðalstór)

70 g sykur

30 g hveiti

30 g kartöflumjöl

1 tsk. vanilluessens (eða vanilludropar)

Hitið ofninn í 200°C (190°C á blæstri). Þeytið saman egg og sykur þar til ljóst og loftkennt. Mælið hveiti og kartöflumjöl í skál og bætið í eggjahræruna ásamt vanilludropum. Blandið saman með sleikju. Setjið bökunarpappír á botninn á 22 cm formi og berið olíu innan á barmana á forminu. Hellið deiginu í formið og jafnið út. Bakið í 5 mínútur við 200°C en lækkið síðan hitann í 180°C (170°C á blæstri) og bakið í 10 mínútur í viðbót. Látið kökuna kólna aðeins og losið síðan varlega úr forminu.

Marens

3 eggjahvítur

140 g sykur (gott að nota bökunarsykur, „caster baking sugar“)

Hitið ofninn í 120°C, notið ekki blástur. Setjið eggjahvítur og sykur í tandurhreina hrærivélarskál og þeytið vel saman þar til stíft og fallegt. Þetta tekur um 5 mínútur. Setjið bökunarpappír á botninn á 22 cm formi og berið olíu innan á barmana á forminu. Jafnið marensblöndunni í formið og bakið í miðjum ofni í 1½ klukkustund. Látið marensinn kólna aðeins og losið síðan varlega úr forminu. Marensinn má gera með nokkurra daga fyrirvara en ef þið ætlið að baka kökuna og bera fram sama dag er best að baka marensinn fyrst því hann er lengi í ofninum. Kakan er best daginn eftir að hún er sett saman því þá hefur blotnað í botnunum og hún er meira djúsí.

Krem

½ l rjómi

60 g 70% súkkulaði

4 eggjarauður

4 msk. flórsykur

Þeytið rjómann og setjið í skál. Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði við vægan hita. Hrærið eggjarauður og flórsykur mjög vel saman eða þar til ljóst og kremkennt. Bætið súkkulaði út í og síðan helmingnum af rjómanum saman við.

Samsetning

Setjið svampbotninn á tertudisk og smyrjið lagi af rjóma á hann. Smyrjið helmingnum af kreminu á rjómann. Setjið marensbotn ofan á og endurtakið síðan, rjóma og krem.

Höf.: Sjöfn Þórðardóttir