Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Við vonumst til að verða búnir fyrir jól,“ segir Sigurjón Karlsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni. Hann er meðal stjórnenda í þeim 16 manna flokki smiða og verkamanna sem nú vinna að endurbótum á Höfðabakkabrú yfir Elliðaárnar í Reykjavík. Nú er verið að endurnýja þensluraufar í brúargólfinu sem jafnframt er endurnýjað. Þá er steyptur nýr hliðarkantur. Þetta er á austurhlið brúar, það er þeim hluta hennar þar sem umferð kemur úr Breiðholti. Áður hafði fyrir nokkrum árum verið gert við suðurhlutann.
„Þetta er viðamikið og talsvert snúið verkefni. Raunar eru brýr í eðli sínu talsvert flókin mannvirki,“ segir Sigurjón. „Verkið hófst í vor þegar bitar og legur undir brúnni voru færð til; stykki sem eiga að taka högg af brúnni svo sem í jarðskjálftum eða þegar mikill þungi leggst á.“
Hlé var gert á verki frá 20. júní til 1. september, það er meðan veiðitímabilið í Elliðaánum stóð yfir. Svo var aftur hafist handa og meðan á framkvæmdum stendur er umferð yfir brúna beint í tvo mjóa stokka sem liggja hvor til sinnar áttar. Umferð gengur snurðulaust fyrir sig og hámarkshraði nú er 30 km/klst. „Þetta er vandræðalaust þó að við séum að vinna alveg við akbrautina. Einstaka ökumenn gætu reyndar gert betur, en almennt er þetta í góðu,“ segir Sigurjón.