Fyrir alla fjölskylduna Ung stúlka verður forvitin um hinn dularfulla jólaanda og leggur því upp í leit að honum.
Fyrir alla fjölskylduna Ung stúlka verður forvitin um hinn dularfulla jólaanda og leggur því upp í leit að honum. — Ljósmynd/Sunna Ben
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta er annað barnaverkið mitt en ég gerði Dagdrauma fyrir nokkrum árum og í kjölfarið skrifaði ég bók en Dagdraumar áttu alltaf upphaflega að vera barnabók. Handritið er til en það hefur ekki enn litið dagsins ljós,“ segir Inga Maren…

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Þetta er annað barnaverkið mitt en ég gerði Dagdrauma fyrir nokkrum árum og í kjölfarið skrifaði ég bók en Dagdraumar áttu alltaf upphaflega að vera barnabók. Handritið er til en það hefur ekki enn litið dagsins ljós,“ segir Inga Maren Rúnarsdóttir, höfundur og danshöfundur barnasýningarinnar Jóladrauma, sem Íslenski dansflokkurinn frumsýnir á sunnudaginn, þann 24. nóvember, á Nýja sviði Borgarleikhússins.

„Erna Ómarsdóttir, sem þá var listrænn stjórnandi, var með pælingar um jólasýningu fyrir börn svo þessi hugmynd mín að Jóladraumum þróaðist út frá því að okkur fannst vanta eitthvað tengt jólunum fyrir börnin,“ segir hún og bætir við að hún sé búin að vera að hlusta á jólalög síðan þarsíðasta sumar svo sýningin sé búin að vera í undirbúningi í töluverðan tíma. „Ég er einnig búin að vera með nefið á kafi í jólabókum en á Borgarbókasafninu í Grófinni opnuðu starfsmennirnir fyrir mig hólf yfir sumartímann þar sem allar jólabækurnar eru geymdar.“

Gjafir skammgóður vermir

Þá segist Inga Maren hafa byrjað á að skrifa sögu og í framhaldinu hafi handritið öðlast eigið líf.

„Sagan og handritið eru ekki með sama þráðinn en byggjast á sömu grunnhugmyndinni. Í Dagdraumum var ég svolítið að vinna með það að manneskjan er best þegar hún er hún sjálf því við getum ekki verið einhver annar en við erum. Í því verki langaði stúlkuna til dæmis að verða liðug eins og slangan en þar var ég að heimfæra hugmyndina um þennan eilífa samanburð sem við könnumst öll við. Mig langaði því að fá börnin til að horfa inn á við og sjá hvað þau eru frábær eins og þau eru. Ég endurnýti því margt úr Dagdraumum í Jóladraumum, efnivið, sviðsmynd og fleira,“ útskýrir hún innt eftir því hverju áhorfendur megi búast við á sýningunni.

„Í þessari sýningu leitar stúlkan að jólaandanum. Ég fór því að hugsa um allar jólagjafirnar sem eru í efnislegu formi. Það er alveg gaman að fá gjafir en þær eru í raun skammgóður vermir og veita okkur ekki hina raunverulegu hamingju innra með okkur. Þegar börn heyra um jólaandann skilja þau hann heldur ekki alveg. Er hann eitthvað sem ég get snert og hvar finn ég hann? Mig langaði því að koma því til skila að maður þarf að líta inn á við því hver og einn finnur jólaandann í hjartanu sínu. Þar eru þessar fallegu tilfinningar sem skapast í gegnum vináttu, hjálpsemi og samkennd og þessi grunngildi sem vekja hjá manni þessa alvöru hamingju. Þegar maður hugsar um jólaandann og gjafirnar þá er svo fallegt að velta því fyrir sér hvað vinur manns myndi vilja fá í pakkann. Í því liggur fegurðin í kringum jólin, að sitja saman, gleðja aðra og hafa gaman,“ segir hún.

Hátíð barnanna og ljóssins

Yfirleitt er talað um jólin sem hátíð barnanna og segir Inga Maren jólin svo sannarlega vera þeirra hátíð þó í raun megi kalla þau hátíð ljóssins líka. Jóladraumar séu einmitt sýning sem sé fyrst og fremst hugsuð fyrir alla fjölskylduna.

„Því það er fullt af fólki sem á kannski ekki börn og aðrir sem elska jólin svo ég er svolítið búin að vera að vitna í hátíð ljóssins. Harpa Arnardóttir, sem er með okkur í verkinu, talar einmitt svo fallega um hátíð ljóssins og vetrarsólstöðurnar og það hvernig ljósið birtist okkur aftur á þessum tíma því um jólin fer sólin að hækka á lofti á ný. Ég kem því aðeins inn á það og styðst við þessar hugmyndir. Ég reyni að láta þetta snúast um hjartað en ekki hugann. Hvernig nýtum við innsæið til að hjálpa okkur að taka ákvarðanir og hvernig getum við treyst þessu innsæi? En þetta er eitthvað sem margir eru að ströggla við,“ segir hún og nefnir að því hafi verið svo heillandi að vinna með þetta viðfangsefni, það er að þú eigir að treysta á sjálfan þig.

„Skólakerfið er til dæmis ekki byggt upp þannig að þú eigir að líta inn á við, það mætti alveg skoða það. Það þurfa ekki allar ákvarðanir að vera teknar út frá skynsemisrödd eða rökhugsun. Það má skoða hlutina út frá öðrum sjónarhornum því svörin eru oft allt um kring.“

Læri að líta inn á við

Spurð hvort hafa þurfi ákveðna hluti í huga þegar verk eru sett upp fyrir börn segir Inga Maren svo vera. „Það eru nokkrir hlutir. Tímasetningar eru gríðarlega mikilvægar, eins og hversu langar senurnar geta verið áður en eitthvað þarf að breytast, hvort sem það er lýsingin og tónlistin eða þá að nýr karakter þarf að koma inn. Einnig er rosalega mikilvægt að samræma hljóð og mynd en þar á ég við dansinn á sviðinu, tónlistina og lýsinguna.“ Tekur hún sérstaklega fram að hún sé einstaklega heppin með teymið í sýningunni. „Ég hef áður unnið mjög mikið með þeim flestum þannig að samtalið er djúpt og sterkt og traustið gífurlega gott. Ég er því alls ekki að gera þetta ein, langt í frá. Það eru margir sem koma að þessari sýningu.“

Þá segir Inga Maren sýningu sem þessa gríðarlega mikilvæga fyrir íslenska barnamenningu. „Mér finnst alltaf mjög mikilvægt að sinna barnamenningu og þess vegna geri ég þetta í bland við önnur störf. Ég dýrka að gera eitthvað af öllu afli fyrir börn. Mig langaði að setja upp verk þar sem börnin þurfa að líta aðeins inn á við og átta sig á hvað fer fram, að reyna að tendra ljós innra með þeim. Það sem er svo skemmtilegt við svona danssýningu er að við notum ekki orð svo túlkunin verður aðeins víðari. Börnin hafa þess vegna meira frelsi til að túlka verkið á sinn hátt sem er mjög skemmtilegt því þau hafa svo gríðarlega mikið ímyndunarafl fyrir. Maður er oft búinn að túlka hlutina fyrir fram fyrir þau en það er svo mikilvægt að þau fái líka að hafa sína sýn. Það má gefa þeirra rödd, þeirra hugmyndum og tilfinningum meira vægi,“ segir hún og bætir við að lokum að það sem sé svo dásamlegt við dansinn sé að allir geti notið hans þar sem tungumálið sé ekki fyrirstaða. „Þess vegna geta öll börn komið á sýninguna, ekki bara þau sem tala íslensku.“

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir