Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Mannréttindadagur barna er alla jafna í heiðri hafður á leikskólum landsins,“ segir María Ólafsdóttir, móðir á Seltjarnarnesi, en í gær stóðu foreldrar á Seltjarnarnesi fyrir hátíðarhöldum á Eiðistorgi með skemmtidagskrá fyrir börnin. „Þar sem daginn bar upp þegar verkfall er yfirstandandi fannst okkur foreldrum barna tilvalið að grípa tækifærið og gera okkur glaðan dag.“
Hún segir skemmtunina í gær hafa fyrst og fremst snúist um börnin og að gefa foreldrum tækifæri til að hittast og gleðjast með börnum sínum. „En um leið viljum við vekja athygli á stöðunni og minna á að mannréttindi allra barna skuli virt,“ segir hún og bætir við að það sé hlutverk þeirra fullorðnu að setja börnin ætíð í fyrsta sætið.
Heilmikið púsl og langir dagar
Þegar María er spurð hvernig dagarnir líti út hjá fjölskyldunni í þessu verkfalli segir hún þá geta orðið æði langa.
„Þetta er búið að vera heilmikið púsl hjá okkur eins og hjá mörgum, og þó erum við í betri stöðu en margir. Bæði vinnum við á sama vinnustað hjónin og höfum mætt miklum skilningi vegna þessarar stöðu auk þess að hafa gott bakland. Ömmuskóli er t.d. orðinn fastur liður í deginum. En ég hef heyrt af fólki sem hefur einfaldlega misst vinnuna og margir hafa orðið fyrir miklu tekjutapi því þeir hafa þurft að vinna minna á þessum tíma. Þá er sorglegt að heyra að börn sem eiga rétt á sérúrræðum hafa ekki notið þeirra í verkfallinu,“ segir María.
„Við hjónin reynum að skiptast sem mest á og maður byrjar snemma á morgnana að reyna að vinna aðeins og er þá jafnan að því undir ljúfum blokkflautuleik á meðan maður púslar eða leirar í og með. Dagarnir verða því svolítið tætingslegir þar sem ómögulegt er að taka lengri vinnutörn með lítil börn yfir sér og oft er verið að ljúka við vinnuverkefni seint á kvöldin.“
Eru 3% barna þrýstiafl?
María segir að þetta ástand minni hana á ástandið í covid, en hún segir að foreldrar leikskólabarnanna reyni að hittast til að láta börnin leika sér saman og fá stuðning. „Það sem er allra verst er að vita ekki hvenær þetta ástand endar,“ segir hún. „Það er ekkert launungarmál að aðferðafræði verkfallsins hefur verið nokkurt hitamál bæði hér á Seltjarnarnesi og meðal foreldra í fleiri leikskólum. Okkur finnst erfitt að sjá hvernig 3% foreldra leikskólabarna eigi að geta verið þrýstiafl fyrir kjarabaráttu heillar stéttar á meðan 97% finna ekkert fyrir skerðingu á þjónustu,“ segir hún, ljóst sé að foreldrar telji börnum sínum mismunað og undir það hefur m.a. umboðsmaður barna tekið og fleiri í samfélaginu, þ. á m. fólk innan menntakerfisins.
Engar skýringar gefnar
„Einna helst höfum við saknað þess að fá ekki skýringu á því hvers vegna verkfall í leikskólum sé ótímabundið. Okkur finnst það skjóta skökku við og ekki gefa rétt skilaboð um það gríðarlega mikilvæga og faglega starf sem fram fer innan leikskólanna. Seltjarnarnes hefur staðið sig frábærlega í því að fá til sín og halda í fagmenntað og gott fólk sem leggur hug og hjarta í starfið.“
María segist vonast til að viðræður séu nú loks að þokast í rétta átt enda sé starfsfólks leikskólans sárlega saknað. „Við vonumst til þess að góðir samningar náist sem fyrst í þessari deilu.“