Ólafur Magnússon fæddist að Kirkjubóli í Staðardal við Steingrímsfjörð 30. apríl 1928. Hann lést að heimili sínu Sléttunni hinn 8. nóvember 2024.

Foreldrar hans voru Magnús Guðmundur Sveinsson bóndi frá Kirkjubóli í Staðardal, f. 1890, d. 1964, og Þorbjörg Árnadóttir húsfreyja frá Fitjum í Steingrímsfirði, f. 1889, d. 1980.

Hinn 25. maí 1957 giftist Ólafur Sóleyju Þórarinsdóttur frá Suðureyri við Tálknafjörð, f. 22. febrúar 1937, d. 24. nóvember 2005. Foreldrar hennar voru Þórarinn Jónsson sjómaður frá Suðureyri við Tálknafjörð og Pálína Guðrún Einarsdóttir húsfreyja frá Mið-Tungu í Tálknafirði.

Börn Ólafs og Sóleyjar eru: 1. Hjördís Guðrún leikskólakennari, f. 1958, gift Guðbergi Péturssyni sjómanni, f. 1953. Börn þeirra eru Sóley Ruth, f. 1980, Pétur Valgarð, f. 1984, Maríanna, f. 1988 og Eyrún, f. 1990. 2. Gerður Sjöfn táknmálstúlkur, f. 1963, gift Þresti Kamban Sveinbjörnssyni vélfræðingi, f. 1959. Börn þeirra eru Þorleifur Kamban, f. 1981, Sindri Kamban, f. 1988, og Eyþór Kamban, f. 1991. 3. Magnús sölumaður, f. 1966, giftur Ingibjörgu Systu Jónsdóttur kennara, f. 1966. Börn þeirra Jón Ólafur, f. 1995, og Erna Margrét, f. 2000. Fyrir átti Magnús Lovísu Karítas, f. 1985. 4. Þórarinn tölvunarfræðingur, f. 1970, giftur Dagmar Viðarsdóttur viðskiptafræðingi, f. 1970. Börn þeirra Viðar, f. 1996, Dagur Þórarinsson, f. 1998, og Sóley, f. 2003. Barnabarnabörn Ólafs eru 17 talsins.

Systkini Ólafs voru Lýður Ingimar, f. 22.1. 1924, d. 18.1. 2014, Guðmundur, f. 9.6. 1925, d. 22.2. 2018, Guðlaug, f. 5. desember 1926, d. 9. ágúst 2016, og Katrín Ingiríður, f. 30.6. 1932.

Ólafur ólst upp að Kirkjubóli í Staðardal í Steingrímsfirði. Hann gekk í barnaskóla að Víðidalsá og að Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Ólafur stundaði nám við bændaskólann á Hvanneyri í tvo vetur. 24 ára tók hann námskeið í fiskverkstjórnun í Reykjavík og að því loknu var hann verkstjóri á Skagaströnd í eitt ár en þá lá leið hans vestur á Tálknafjörð þar sem hann starfaði sem verkstjóri í hraðfrystihúsi Tálknafjarðar og við önnur störf tengdum hraðfrystihúsinu til ársins 1988. Ólafur starfaði um árabil sem hreppstjóri Tálknafjarðarhrepps ásamt því að þau hjónin, Ólafur og Sóley, ráku bókaverslun í Tálknafirði. Ólafur og Sóley bjuggu í Tálknafirði til ársins 1993 er þau fluttu í Kópavog og bjuggu þar til ársins 1999 er þau fluttu í Rituhóla í Reykjavík þar sem þau bjuggu í tvíbýli með Gerði dóttur sinni og fjölskyldu. Ólafur flutti í Seljahlíð 2009 og bjó þar, þar til í maí 2024 er hann flutti á Sléttuna í Reykjavík.

Ólafur stundaði félagsstörf í Blindrafélaginu eftir að hann flutti suður og tók þátt í félagstarfi eldri borgara í Fella- og Hólakirkju.

Útför Ólafs fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 21. nóvember 2024, klukkan 13.

Elsku pabbi, nú er lífshlaup þitt á enda og margs er að minnast á langri ævi. Við börnin þín, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn erum innilega þakklát fyrir að hafa fengið að njóta þess að hafa þig með okkur til þessa dags. En nú er kallið komið og við trúum því að nú hafir þú það gott og sameinist mömmu á ný eins og þú trúðir sjálfur.

Við erum öll ríkari fyrir allar sögurnar sem þú sagðir okkur og fyrir hlýjuna og umhyggjuna sem þú sýndir okkur öllum afkomendum þínum. Þú gleymdir heldur aldrei að láta okkur vita að þú bæðir fyrir okkur öllum og værir svo stoltur af okkur, það er gott veganesti sem við höfum í bakpokanum til framtíðar.

Einn af þínum uppáhaldsstöðum var Staðardalur þar sem þú ólst upp, þar naust þú seinna að dvelja með fjölskyldunni og við veiðar á árum áður. Við sendum því með þér stemningsljóð úr Staðardal samið á afmælisdegi þínum 2011.

Morgunn í dal.

Þar sem ég stend í morgunsvalanum heyri ég fossinn vakna í leysingum vorsins.

Sé mófuglana flögra um í leit að ákjósanlegum hreiðurstað.

Í morgunúðanum berst hálmgulur mórinn við að vakna af vetrardvala.

Niður árinnar spilar sitt síbyljulag við undirspil fossa og lækja.

Þessi stund í morgunsvalanum fyllir vitund mína.

Ég loka augunum og þakka fyrir líf mitt.

(Hjördís Ólafsdóttir)

Elsku pabbi, tengdapabbi, afi og langafi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Við munum ætíð minnast þín með ástúð og hlýju. Vertu Guði falinn.

Börn, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn,

Hjördís Guðrún
Ólafsdóttir.

Elskulegur mágur minn, Ólafur Magnússon, er látinn og mig langar til að minnast hans og þakka honum á þessum tímamótum. Hann kom til Tálknafjarðar í byrjun árs 1956 sem verkstjóri í Hraðfrystihúsinu. Hann hafði aðsetur hjá fóstursystur pabba míns, henni elsku Steinu okkar á Eyrarhúsum, og varð þeim vel til vina. Þennan vetur var ég í skóla á Núpi í Dýrafirði og hefði átt að fara þangað strax upp úr áramótum, en þá geisaði mænuveiki svo ég fór því í skólann í janúarlok. Ég fékk vinnu í frystihúsinu og voru það mín fyrstu kynni af Ólafi. Í janúar var haldinn dansleikur. Ég og Sóley, eldri systir mín, fórum á þennan dansleik og það gerði Ólafur líka. Hann sagði mér síðar að hann hefði tekið strax eftir Sóleyju og hugsað „þessa stúlku vil ég fá fyrir konu“. Og það skyldi engan undra eins falleg og hún var. Og óskin hans rættist því um vorið voru þau heitbundin.

Þau giftust síðan og byrjuðu að búa. Um haustið 1959 voru þau og foreldrar mínir búin að byggja sér tveggja íbúða hús, Bjarmaland, og fluttu þar inn fyrir jólin það ár. Pabbi og Ólafur unnu vel saman og voru miklir mátar. Þetta varð sannkallað fjölskylduhús. Við systkinin vorum átta en Sóley var sú eina sem settist að í Tálknafirði. Við hin sóttum í að koma vestur í sumarfríum og ef það var orðið fullt hús hjá foreldrum okkar þá var bara leitað til Sóleyjar og Ólafs. Og þar var öllum vel tekið.

Eitt sumar var ég þar ein með börnin okkar Páls, en bæði hann og Ólafur voru reyndar Strandamenn og þekktust áður. Ég og eldri börnin okkar, Þorgeir og Kristbjörg, fengum vinnu í frystihúsinu og a.m.k. Kristbjörg vann þar fleiri sumur. Guðrún Lára, sú yngsta, var bara heima hjá ömmu sinni og Sóleyju, sem tók henni ákaflega vel þar og æ síðan.

Árið 1973 dó faðir minn og fljótlega þar á eftir ákváðum við systkinin að byggja upp hús sem foreldrar okkar höfðu byggt á Suðureyri í Tálknafirði. Það var steinhús og lítið stóð eftir af því nema veggirnir. Allir hjálpuðust að og þá var oft mannmargt á Bjarmalandi. Árið 1979 gátum við farið að gista í húsinu og dvelja. Þar var upphitunin lítill kyndiofn, og kynt með bæði kolum og eldivið. Ólafur lét ekki sitt eftir liggja, sagaði og hjó eldiviðinn og bar inn í húsið. Á seinni árum vorum við oft fjögur þar saman, þau Sóley og við Páll, og áttum þar margar ánægjustundir.

Svo vildi til að við fluttum öll í Hólahverfi hér í Reykjavík, við í Kríuhóla og þau í Rituhóla ásamt Gerði dóttur sinni og hennar fjölskyldu. Þar voru því líka tvö heimili sem voru nánast eins og eitt og þangað var gaman að koma.

Því miður þurfti Sóley að hverfa frá okkur allt of fljótt og ég veit að Ólafur var sáttur við að fara nú líka og hitta hana aftur en bæði höfðu þau sterka trú hvað það varðar.

Elsku þið öll, Hjördís, Gerður, Magnús, Þórarinn og fjölskyldur. Innilega vottum við ykkur samúð, söknuðurinn er alltaf sár þótt tíminn sé kominn.

Elsku Ólafur minn, bestu þakkir mínar og fjölskyldu minnar fyrir allt gott og samveru alla gegnum árin. Vertu kært kvaddur og Guði falinn.

Þín mágkona,

Kristín Lára
Þórarinsdóttir.