Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Jón Ármann Steinsson, útgefandi nýrrar bókar um Geirfinnsmálið, er undrandi á því hversu erfitt reynist að koma gögnum með nýjum upplýsingum í málinu til yfirvalda.
Embætti ríkissaksóknara telur að rétt sé að vísbendingar eða nýjar upplýsingar í sakamálum eigi heimi í lögregluumdæminu þar sem rannsóknin hófst. Þá er það embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum en rannsóknin á hvarfi Geirfinns hófst hjá lögreglunni í Keflavík, eins og embættið hét þá, í nóvember árið 1974.
Líst ekki á blikuna
Í bókinni sem ber heitið Leitin að Geirfinni er sett fram hörð gagnrýni á vinnubrögð lögreglunnar í Keflavík á fyrstu stigum rannsóknarinnar og Jóni Ármanni líst illa á að þar verði farið yfir upplýsingarnar sem hann hefur safnað saman ásamt Sigurði Björgvini Sigurðssyni og Soffíu Sigurðardóttur. „Sem betur fer var ég ekki í akstri þegar ég heyrði af þessari ráðleggingu því ég gat ekki annað en hlegið. Þetta eitraða höggormsfræ sem grasserað hefur í fimmtíu ár byrjaði í Keflavík og mér finnst því ekki góð hugmynd að fara með gögnin þangað,“ segir Jón.
„Lögreglan hefur ekki gott orðspor þegar kemur að því að rannsaka sjálfa sig og hvað þá þegar mál kemur heim í hérað þar sem vitleysan hófst. Út frá sögunni skil ég ekki þessa ráðleggingu jafnvel þótt allir séu hættir sem unnu í þessu árið 1974. Við erum með viðkvæmasta sakamál Íslands og ásýndin yrði svo ljót. Ég tek skýrt fram að ef yfirvöld taka þessum nýju upplýsingum með opnum huga þá tel ég að það yrði gott fyrir ímynd lögregluyfirvalda. Í þessu felst því visst tækifæri hvað það varðar.“
Jón Ármann hefur enga trú á að rannsakendurnir í hvarfi Geirfinns hafi verið á réttri leið, hvorki í Keflavík né í Reykjavík á síðari stigum enda segist hann vera með upplýsingar sem sýni annað.
„Maður veltir því fyrir sér hvort allt lögreglukerfið sé vanhæft ef lögreglan tók þátt í því á sínum tíma að búa til glæpinn. Glæp gegn þeim sem voru lokuð inni í einangrun vegna þessa mannshvarfs. Þau urðu fyrir barðinu á glæpamönnum sem eru lögreglan, fangaverðir og hluti af dómskerfinu. Hvítt vil ég kalla hvítt og svart vil ég kalla svart. Ég vil ekki vera með fagurgala um að mistök hafi verið gerð með fiðlutónlist í bakgrunni. Segjum bara satt og rétt frá. Lygin er lúmsk og er búin að smeygja sér inn í alls kyns afsakanir og útskýringar á því hvernig fór. Þetta eru tvö mál. Annars vegar mannshvarfið og hins vegar vinnubrögð lögreglunnar þegar fólk var sakað um morð að ástæðulausu.“
Eftirspurnin til staðar
Bókin kom út 19. nóvember þegar hálf öld var liðin frá hvarfi Geirfinns í Keflavík og smám saman er verið að prenta meira til að anna eftirspurn.
„Bókin selst og prentarinn hefur ekki við að prenta. Við vissum hins vegar ekkert um hvernig þessu yrði tekið og við settum einnig pressu á okkur með því að stefna að útgáfu 19. nóvember. Við unnum bókina þar til fjórir dagar voru þar til hún kom út. Það tókst en fyrir vikið fékk prentarinn ekki að prenta með þeim fyrirvara sem hann hefði kosið. Nú er verið að prenta fyrir þær bókanir sem hafa borist í gegnum vefsíðuna okkar og fólk sækir hana í Háskólaprentun þar sem bókin er prentuð. Við höfum ekki náð að prenta upplag til að koma til Bóksölu stúdenta. Við áttum von á að selja um 500 eintök en höfum nú þegar selt um 150 án þess að dreifa bókinni.“
Nýjar upplýsingar
Að sögn Jóns Ármanns taldi hann að tekið yrði á móti gögnunum annaðhvort hjá embætti ríkissaksóknara eða í dómsmálaráðuneytinu.
Þaðan yrði þeim þá komið til lögreglunnar með skilaboðum um að taka gögnin til skoðunar.
Svo fór ekki og er nú bent á embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum.