Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Rafvirki á vegum Rarik heimsækir þessa dagana íbúa í Mývatnssveit sem urðu fyrir tjóni þegar mikil truflun varð á raforkukerfi landsins í byrjun október. Vinna við matið hófst í síðustu viku.
„Við höfum beðið róleg eftir að þetta góða bréf barst að kvöldi 31. október frá Rarik,“ segir Selma Dröfn Ásmundsdóttir, sem rekur gistiheimilið Stöng í Mývatnssveit. Morgunblaðið hefur fjallað um tjón sem Selma og fjölskylda hennar varð fyrir en það er talið nema minnst tíu milljónum króna.
Hún á von á rafvirkjanum til sín í dag og segist sýna því skilning að tíma taki að leggja mat á tjónið. Svo eigi eftir að koma í ljós hver útfærslan verður þegar matið er komið til TM. Í bréfi Rarik hafi verið talað um að raftæki yrðu bætt en ekki afleitt tjón. Óljóst sé á þessu stigi hvað teljist afleitt tjón.
Vísar Selma til að mynda til kostnaðar sem þau hafi sjálf borið af brýnum viðgerðum á tækjum og til þess að þau hafi þurft að senda þvott til Akureyrar vegna bilaðra þvottavéla.
Eins og kom fram í Morgunblaðinu hafa Selma og fleiri íbúar í Mývatnssveit leitað fulltingis lögfræðings til að gæta hagsmuna sinna vegna þessa.