Birgir Loftsson
Birgir Loftsson
Þekkingarleysi stjórnmálaelítunnar á varnarmálum er mikið, þó síst hjá Sjálfstæðisflokknum.

Birgir Loftsson

Varðberg – samtök um vestræna samvinnu héldu pallborðsfund 14. nóvember síðastliðinn sem bar heitið „Utanríkisstefna á umbrotatímum. Öryggi, varnir og alþjóðasamskipti í viðsjárverðum heimi“. Rætt var við fulltrúa allra flokka sem bjóða sig fram til Alþingis í kosningum sem verða í mánuðinum.

Umræðan um utanríkis- og varnarmál er nauðsynleg öllum stundum, ekki bara rétt fyrir kosningar. Það er því þakkarvert að einhver skuli spyrja fulltrúa flokkanna um afstöðu þeirra til þessa málaflokks.

Því miður var fundurinn hálfmisheppnaður. Fundarstjórarnir spurðu mjög almennt og oft ekki réttu spurninganna.

Fyrst var spurt hver afstaða stjórnmálaflokkanna níu væri til varnarmála almennt. Þarna kom strax í ljós hversu illa undirbúnir þessir fulltrúar voru fyrir pallborðsumræðuna og fyrir svona grundvallarspurningu. Svörin voru út um allt og óljós. Þó tókst að ná út úr þeim að allir flokkarnir væru fylgjandi NATO nema VG.

Næst var spurt um hvaða ógnanir steðjuðu að Íslandi. Þátttakendur fóru þá að tala um alla aðra hluti en varnarmál, svo sem loftslagsvá o.s.frv.

Svo var spurt um framlag Íslands til varnarmála í ljósi kosningar Trumps. Enn óðu viðmælendur úr einu í annað, til dæmis um SÞ. Spurningin var um Trump og krafan um 2% framlag til varnarmála. Aðeins fulltrúi Sjálfstæðisflokksins kom með gott svar en það var að Ísland eyddi 0,1% af vergri landsframleiðslu í varnarmál en aðrar NATO-þjóðir um 2-3% og það væri of lítið.

Svo var það spurningin hvort Norðurlöndin ættu að tengjast vörnum Íslands. Þátttakendur voru því fylgjandi án þess að koma með rökstuðning eða dæmi. Fundurinn endaði á umræðu um mál sem koma vörnum Íslands ekkert við.

Spurningarnar sem ég hefði spurt væru þessar: Á að endurreisa Varnarmálastofnun Íslands? Ríkir ekki í dag stjórnsýslulegt öngþveiti í málaflokknum með því að deila varnarverkefnum milli ríkislögreglustjóra, LHG og varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins? Á Ísland að auka fjármagn sem fer í varnir landsins úr 0,1% í 2%? Af hverju fór frumvarpið um rannsóknarsetur öryggis- og varnarmála ekki í gegn á síðasta þingi? Er til innlend sérfræðiþekking á varnarmálum? Á Ísland að koma sjálft að eigin vörnum, t.d. með stofnun heimavarnarliðs eða jafnvel smáhers? Geta Íslendingar tekið yfir fleiri varnarþætti en bara ratsjárstöðvarnar, t.d. sinnt kafbátaeftirliti úr lofti? Hvað með hryðjuverka- eða sérsveitaárásir? Eru áherslur núverandi þjóðaröryggisstefnu Íslands réttar?

Að lokum. Niðurstaðan af fundi Varðbergs er að þekkingarleysi stjórnmálaelítunnar á málaflokknum er mikið, þó síst hjá Sjálfstæðisflokknum. Kannski er niðurstaðan að eini flokkurinn sem virkilega hefur áhuga og þekkingu á málaflokknum sé Sjálfstæðisflokkurinn.

Höfundur er sagnfræðingur.

Höf.: Birgir Loftsson