Myndlist
Hlynur
Helgason
Í Hafnarhúsi stendur nú yfir sýning á verkum Hreins Friðfinnssonar sem byggist á verkum úr safneign. Safnið á áhugavert úrval verka eftir Hrein frá síðustu áratugum sem njóta sín vel á sýningunni. Uppsetningin er skemmtileg, einföld og skýr sem hentar myndlist Hreins vel.
Hreinn, sem lést í fyrra, hóf fyrst að setja mark sitt á listheiminn árið 1965 og ferill hans spannaði hartnær sextíu ár. Hann fór ungur til Hollands þar sem hann byggði upp alþjóðlegan feril. Þátttaka hans í íslensku listalífi hefur einnig verið öflug og má greina áhrif hans í verkum margra kynslóða seinni tíma listamanna. Verk has þykja í senn hugmyndarík og ljóðræn og hafa átt sinn þátt í að móta íslenska hugmyndalist á heimssviðinu.
Sýningin er í þremur sölum sunnan megin á annarri hæð Hafnarhússins. Í stærsta salnum, þeim austasta, eru fimm verk alls. Á endaveggnum vestan megin er verkið „22 málverk“ frá 2001, formræn uppsetning fundinna málningar-hræri-prika. Á norðurveggnum má sjá verkið „Endrum og sinnum“ frá 1979, eitt af lykilverkum Hreins. Verkið byggist á þremur ljósmyndum, tveimur af mannsformi huldu laki sem speglast beggja vegna myndar af eldingu. Undir eru textareitir sem á er ritað „From time“, „–“ og „To time“. Verkið tekst á ljóðrænan hátt við tengsl náttúruafla, myndrænna mannsforma og tilvistarlegra textaskilaboða. Aðeins lengra inni í salnum er verk sem heitir einfaldlega „Hurð“ og er frá 2016. Verkið er annars vegar tvær ljósmyndir af hurð frá fyrstu sýningu Hreins árið 1965 og hins vegar fundin hurð fest á vegg salarins. Út um skráargatið á henni lýsir skært ljós sem gefur þessum hversdagslega hlut töfrablæ upplýsingarinnar. Verkið „Til ljóss, skugga og ryks“ frá 1994 þekur allan suðurvegginn. Hér er ljósi frá kösturum varpað á útklippt pappírsform sem sitja á glerhillum. Niðurstaðan er spegil- og skuggamynstur sem minna á vængjaslátt og fela í sér guðlega kennd.
Miðsalurinn er einskorðaður við skondna og kankvísa röð vídeóverka eftir Hrein, „Mynd af myndhöggvara sem höggmynd I–V“ frá 2014. Hér nýtur Hreinn aðstoðar eins af okkar þekktustu myndhöggvurum, Kristins Hrafnssonar, sem hann lætur fremja leikræna gjörninga við fjölbreyttar aðstæður; hér er virðulegur myndhöggvarinn sjálfur þar með orðinn hreyfanleg stytta sem leikur sér á sviði kvikmyndarinnar. Í einu verkinu situr Kristinn og prjónar, í öðru skautar hann af leikni á Tjörninni í Reykjavík, hann hoppar á trampólíni, hann leikur sér með jójó á ströndinni og að lokum rólar hann sér og stekkur af rólu á leikvelli. Verkið er lifandi og einfalt í hugsun en birtir okkur jafnframt vel skilgreindan og hófstilltan myndheim, nokkuð sem sver sig vel í ætt við önnur verk Hreins.
Í vestasta salnum ber fyrir augu „Lófalínur“ frá 1974, röð fimmtán pennateikninga á gler sem sýna lófalínur listamannsins eins og lífræn abstrakt form. Verkið er í senn persónulegt og á í samtali við viðkvæma teikningu auk þess að vera fallega formrænt í endurtekningu sinni. Gegnt þessu verki er „Án titils (Litróf)“ frá 1998-9. Verkið er einfalt að gerð og hugsun; stór ljósmynd sem sýnir Hrein sjálfan reyna að höndla í lófa sér litróf sem skín úr prisma sem sólarljósið hefur brotnað á. Hér er hugmyndin einföld og skýr; listamaðurinn að reyna að ná tökum á kraftaverki litanna sem birtast í lifandi sólarljósinu.
Lungi verkanna á sýningunni er frá árunum 1994 til 2016 og er því tímabili á ferli Hreins vel sinnt. Tvö verk eru eldri, frá 1974 og 1979. Bæði verkin gefa góða innsýn í verk Hreins fyrr á árum. Ekkert verk er frá níunda áratugnum og þar er sýnileg gloppa í safneigninni. Það ræðst trúlega af því að skipuleg söfnun hófst ekki hjá Listasafni Reykjavíkur fyrr en á tíunda áratugnum. Nú til dags er erfitt að fylla upp í skarðið þótt nú sé hafin viðleitni í þá veru.
Sýningin er skemmtileg og virkar vel á þeim forsendum sem hún er byggð á. Hún túlkar vel feril Hreins síðustu áratugina á ævi hans og viðbótin frá áttunda áratugnum er kærkomin. Eitt af nýrri verkunum, „Mynd af myndhöggvara sem höggmynd“, er glettin og skemmtileg, óvenjuleg nýbreytni á lokastigum á ferli þessa fjölhæfa listamanns. Skerpa hennar sýnir glöggt vald hans á ólíkum miðlum og gildi þess að koma einföldum hugmyndum til skila á frumlegan hátt.