Hröð vaxtalækkun er hafin og nú þarf að forðast kollsteypur

Í gærmorgun bárust frá Seðlabankanum „gríðarlega jákvæðar fréttir“, eins og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, orðaði það í samtali við mbl.is. Hann sagði að núna væri „stýrilækkunarferlið hafið af fullum krafti“ eins og spálíkön í tengslum við kjarasamningana í vor hefðu gert ráð fyrir.

Vilhjálmur benti á að verðbólgan væri að ganga hratt niður um þessar mundir, þegar skrifað hefði verið undir kjarasamninga hefði hún verið 6,6% en væri nú komin niður í 5,1%.

Seðlabankinn er í eðli sínu varkár og Vilhjálmur og fleiri hafa áður gagnrýnt hann fyrir að fara sér of hægt í vaxtalækkanir, en nú er tónninn breyttur enda augljóst að árangur er að nást í baráttunni við verðbólguna og vextir farnir að lækka myndarlega. Ekki er ólíklegt að þeir hefðu lækkað enn meira ef ekki væru kosningar fram undan og ef ekki væri óvissa í tengslum við kjaraviðræður við tiltekna hópa, þó að seðlabankastjóri hafi sagt að hann gerði ráð fyrir að þeir hópar myndu fylgja þeim hækkunum sem samið hefur verið um. Að kosningum loknum og kjarasamningum undirrituðum má því búast við áframhaldandi og jafnvel enn kröftugri vaxtalækkunum snemma á næsta ári.

Eins og fram kom í máli seðlabankastjóra í gær skipti máli að fjárlögin voru samþykkt án mikilla breytinga frá því sem ríkisstjórnin lagði upp með. Þetta hefur því hjálpað við vaxtalækkunina í gær og miklu skiptir að ekki verði kollsteypa að kosningum loknum, eins og seðlabankastjóri benti einnig á.

Í samtali við forsætisráðherra í fyrradag var gefinn svipaður tónn þar sem hann benti á að hættan væri ekki liðin hjá og að ef ríkisútgjöld yrðu stóraukin, eins og sumir flokkar hafa boðað, ásamt skattahækkunum, auk „óvissu með vangaveltum um aðildarumsókn að Evrópusambandinu þá er auðvitað verið að setja þjóðfélagið allt upp á rönd – á sama tíma og við erum að sigla þessu heim í höfn og fá mjúka lendingu“.

Kosningarnar eftir rúma viku geta haft gríðarleg áhrif á það hvernig lífskjör verða hér á næsta ári og næstu árum. Tónninn hefur verið gefinn um hraða lækkun vaxta, stöðugleika á atvinnumarkaði, hóflega verðbólgu og mjúka lendingu með áframhaldandi hagvexti innan skamms tíma. Lífskjör hafa batnað hratt hér á landi á liðnum árum og geta gert það áfram, en aðeins ef kjósendur forðast kollsteypur.