Ísland Sóknarleikur Íslands er spennandi en varnarleikurinn er stórt spurningarmerki.
Ísland Sóknarleikur Íslands er spennandi en varnarleikurinn er stórt spurningarmerki. — Ljósmynd/Alex Nicodim
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta hafnaði í þriðja sæti í fjórða riðli B-deildarinnar í Þjóðadeildinni. Það varð ljóst eftir skellinn í Cardiff á þriðjudagskvöld, 4:1. Fram undan er því umspil um að halda sætinu í B-deildinni í staðinn fyrir að fara í umspil um sæti í A-deild

Í Cardiff

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta hafnaði í þriðja sæti í fjórða riðli B-deildarinnar í Þjóðadeildinni. Það varð ljóst eftir skellinn í Cardiff á þriðjudagskvöld, 4:1. Fram undan er því umspil um að halda sætinu í B-deildinni í staðinn fyrir að fara í umspil um sæti í A-deild. Mögulegir andstæðingar Íslands eru Slóvakía, Kósovó, Búlgaría og Armenía. Dregið verður á morgun og fara leikirnir fram 20. og 23. mars.

Hér fyrir neðan verður farið yfir leiki Íslands í riðlinum og rýnt í stöðu íslenska liðsins.

Ísland 2:0 Svartfjallaland

Riðillinn hófst 6. september með heimaleik gegn Svartfjallalandi. Ísland vann sterkan heimasigur, 2:0, og gat loksins fagnað sínum fyrsta sigri í Þjóðadeildinni í 15. tilraun. Ísland gaf fá færi á sér og skoraði tvö mörk úr föstum leikatriðum en Orri Steinn Óskarsson og Jón Dagur Þorsteinsson voru á skotskónum. Frammistaðan minnti á gömlu góðu tímana; góður varnarleikur, föst leikatriði og heimasigur. Loksins kom sigur í Þjóðadeildinni og liðsmenn Íslands fóru í góðu skapi til Izmir í Tyrklandi, en Íslandi hefur í gegnum tíðina gengið merkilega vel á móti Tyrklandi.

Tyrkland 3:1 Ísland

Ísland gat ekki byrjað verr gegn Tyrklandi þremur dögum síðar því Kerem Aktürkoglu skoraði eftir aðeins tvær mínútur. Guðlaugur Victor Pálsson jafnaði með marki eftir horn en Aktürkoglu svaraði með tveimur mörkum í seinni hálfleik og innsiglaði verðskuldaðan tveggja marka sigur tyrkneska liðsins. Annan leikinn í röð byrjaði einn framherji og var Andri Lucas Guðjohnsen oft einmana í sóknarleiknum. Frammistaðan var ekki alslæm en tyrkneska liðið er gríðarlega erfitt heim að sækja í dag. Fyrir fram var búist við því að leikurinn yrði sá erfiðasti í riðlinum og það sást hvers vegna. Eins og oft áður gekk illa að spila tvo leiki í röð eftir að Åge Hareide tók við.

Ísland 2:2 Wales

Aftur byrjaði íslenska liðið mjög illa á köldu októberkvöldi og þeir Brennan Johnson og Harry Wilson sáu til þess að staðan var 2:0, Wales í vil, í hálfleik. Íslenska liðið svaraði með glæsilegum seinni hálfleik og jafnaði verðskuldað. Logi Tómasson, sem kom inn á í hálfleik, var stjarnan. Hann skoraði eitt mark sjálfur og átti risastóran þátt í jöfnunarmarkinu sem skráðist sem sjálfsmark á Danny Ward í marki Wales. Jón Dagur Þorsteinsson var svo hársbreidd frá því að tryggja Íslandi magnaðan endurkomusigur er hann skaut í stöng í lokin. Íslenska liðið lék gríðarlega vel í seinni hálfleik. Åge fór í 4-4-2 með Orra og Andra Lucas saman frammi og leikurinn gaf góð fyrirheit um framhaldið.

Ísland 2:4 Tyrkland

Byrjun leiksins var beint framhald á seinni hálfleiknum við Wales á öðru köldu kvöldi á Laugardalsvelli þremur dögum síðar. Orri Steinn skoraði eftir aðeins þrjár mínútur og var staðan í hálfleik 1:0. Tyrkneska liðið sótti hins vegar mikið í seinni hálfleik og fór með tveggja marka sigur af hólmi, jafnvel þótt Andri Lucas Guðjohnsen hefði jafnað í 2:2 á 83. mínútu. Íslenska liðið var of opið og gott lið eins og það tyrkneska refsar. Rétt eins og í fyrri leiknum gegn Tyrklandi voru fín augnablik en betra liðið vann að lokum. Enn á ný gekk erfiðlega að spila tvo góða leiki í röð. Íslenska liðið fékk á sig sjö mörk í leikjunum tveimur gegn Tyrklandi og það var of mikið.

Svartfjallaland 0:2 Ísland

Fyrri leikurinn í síðasta glugganum í nóvember. Völlurinn og aðstæður voru gríðarlega erfið. Ísland hefur oft spilað betri fótbolta en aðstæður buðu ekki upp á slíkt. Þess í stað varðist íslenska liðið ágætlega og gæðin á hinum endanum töldu að lokum. Orri Steinn og Ísak Bergmann Jóhannesson gerðu mörkin og samband Orra og Andra Lucasar saman frammi var orðið betra. Vængbrotin vörn gerði nóg gegn slökum sóknarmönnum Svartfjallalands. Meiðsli hjá Aroni Einari Gunnarssyni og bann hjá Loga Tómassyni skyggðu á annars flott kvöld í Niksic.

Wales 4:1 Ísland

Úrslitaleikur fyrir Ísland. Sigur þýddi annað sæti og umspil um sæti í A-deildinni en allt annað þýddi þriðja sæti og umspil um að halda sætinu í B-deildinni. Seinni hálfleikurinn gegn Wales á heimavelli var glæsilegur og fyrstu 20 mínúturnar í Cardiff voru ekki síðri. Andri Lucas Guðjohnsen skoraði á 7. mínútu eftir að Ward hafði varið frá Orra. Orri meiddist hins vegar um miðjan fyrri hálfleik og var íslenska liðið í vandræðum eftir það. Liðið skapaði sér sín færi en án Orra gekk verr að nýta þau. Hinum megin var enn vængbrotnari vörn í miklum vandræðum. Skellur í Cardiff varð niðurstaðan, þrátt fyrir byrjunina glæsilegu.

Ójafnvægi í hópnum

Sóknarleikurinn er virkilega spennandi og framherjaparið sem Orri Steinn og Andri Lucas skipa nær betur og betur saman. Þeir eru ungir og eiga bara eftir að verða betri. Þar fyrir aftan var miðjan of misjöfn í leikjunum sex. Á milli þess sem hún stýrði leikjum vel með baráttu, ró og gæðum þá missti hún stjórn. Það er alltaf ákveðin áhætta sem fylgir því að hafa tvo frammi og fækka á miðjunni um leið.

Íslenska liðið er ekki með mulningsvélina sem Aron Einar Gunnarsson var á miðjunni þegar Kolbeinn Sigþórsson og Jón Daði Böðvarsson skipuðu skemmtilegt framherjapar sem fór með íslenska liðið á lokamót EM og HM.

Vörnin er því ekki eins vel vernduð og fær Ísland á sig mun fleiri mörk en þegar liðið var upp á sitt allra besta. Þá hjálpuðu leikbönn og meiðsli varnarmanna í síðasta verkefninu ekki neitt. Það er skortur á miðvörðum sem geta komist í landsliðsklassa í dag. Nóg er af skemmtilegum miðju- og sóknarmönnum.

Åge Hareide var gagnrýndur eftir leikinn við Wales fyrir að hafa ekki náð að framkalla íslensku gildin sem komu liðinu á tvö stórmót. Hareide er með allt öðruvísi leikmannahóp. Aron Einar er ekki sami leikmaðurinn, og Ragnar Sigurðsson og Kári Árnason, sem voru ótrúlegir saman í vörninni, eru horfnir á brott.

Íslenska liðið á þá Albert Guðmundsson, Hákon Arnar Haraldsson, Arnór Sigurðsson og Kristian Nökkva Hlynsson inni en þeir léku nær ekkert í Þjóðadeildinni. Ef allir leikmenn Íslands eru klárir í slaginn líta sóknin og miðjan glæsilega út þar er og hver spennandi leikmaðurinn á fætur öðrum. Stóra spurningin er varnarleikurinn.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson