Kvikmyndir Fá allt efni sem býðst, segir Gunnar Tómas Kristófersson.
Kvikmyndir Fá allt efni sem býðst, segir Gunnar Tómas Kristófersson. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikilvægt er að gera ýmsar þær filmur frá fyrri tíð sem í dag eru varðveittar á Kvikmyndasafni Íslands aðgengilegar á netinu, þá í kjölfar skráningar og yfirferðar. Þetta segir Gunnar Tómas Kristófersson, sérfræðingur varðveislu og rannsókna hjá…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Mikilvægt er að gera ýmsar þær filmur frá fyrri tíð sem í dag eru varðveittar á Kvikmyndasafni Íslands aðgengilegar á netinu, þá í kjölfar skráningar og yfirferðar. Þetta segir Gunnar Tómas Kristófersson, sérfræðingur varðveislu og rannsókna hjá safninu, um verkefni sitt sem er að yfirfara safnkost sem er mikill að umfangi og stækkar stöðugt. Myndmálið er sterkt og nú er á safnið komið mikið af því efni sem frumherjar íslenskrar kvikmyndagerðar skildu eftir sig: allt ómetanlegar heimildir.

Ósvaldur bestur í eldgosum

Nýlega var á streymisvef Kvikmyndasafns Íslands, islandafilmu.is, sett mynd Ósvalds Knudsen, Eldur í Heimaey. Sú sýnir Eyjagosið árið 1973, fyrstu sólarhringa þess og alla framvindu. Einnig er brugðið upp myndum af björgunaraðgerðum sem voru kraftaverki líkar. Mynd þessi vakti á sínum tíma mikla athygli og þótti mikilvæg heimild fyrir erlenda fræðimenn sem vildu sýna eða segja frá ótrúlegu hamförunum. Af sama meiði er – og nú aðgengileg á netinu – Surtur fer sunnan; heimildarmynd um Surtseyjarelda sem stóðu frá haustinu 1963 og fram á sumarið 1967. Myndin sú þykir ekki síður merkileg svo og allt starf Ósvalds sem hóf kvikmyndagerð með eldgosinu í Heklu árið 1947.

Ósvaldur þótti hafa einstakt lag á kvikmyndagerð. Hann hóf í kjölfar Heklugossins að gera kvikmyndir um ýmislegt þjóðlegt efni og vöktu þær iðulega athygli. Eftir Surtseyjargosið árið 1963 helgaði hann sig eldgosamyndum. „Myndatökur af slíkum hamförum eru tvímælalaust það sem Ósvaldur gerði best,“ segir Gunnar Tómas.

Kjartan var fyrstur

Nýlega var sett í streymi efni eftir Kjartan Ó. Bjarnason sem hóf kvikmyndatökur árið 1936. Hann var þar frumherji og fyrstur Íslendinga til að gera kvikmyndagerð að aðalstarfi sínu. Hann tók meðal annarra að sér gerð mynda fyrir ýmsar stofnanir og félagasamtök sem réð miklu um efnistök hans. Raunar var Kjartan, sem var prentari að mennt, í grunninn ljósmyndari sem aftur vakti athygli hans á kvikmyndun, svo sem í íslenskri náttúru, af íþróttaviðburðum og fleiru slíku. Má í þessu sambandi nefna myndir fyrir ríkisprentsmiðjuna Gutenberg, Jafnaðarmannafélag Reykjavíkur, Íþróttasamband Íslands, Skógrækt ríkisins, Rauða krossinn, fræðslumálastjórn, þjóðhátíðarnefnd og Framsóknarflokkinn.

„Kjartan hafði sérstaklega góða tilfinningu fyrir mynduppbyggingu og spennandi hreyfingum innan rammans. Þetta gaf honum einstaka stöðu,“ tiltekur Gunnar Tómas.

Landkynningin væri til framdráttar

Vigfús Sigurgeirsson er annar frumherji og nú er hjá Kvikmyndasafni Íslands verið að yfirfara safn hans til birtingar. Væntingar standa til þess að efni hans, sem er tugir klukkustunda, verði komið á veitur netsins á næsta ári. Mikið af því efni er landkynningarmyndir, sem svo geta kallast, en myndefni sem útlendingar tóku hér þótti sumt hvert ekki vera landi og samfélagi beint til framdráttar eða álitsauka. Því var brugðist við og Vigfús gerði meðal annars kynningarmynd fyrir Íslands hönd sem sýnd var á heimssýningunni í New York árið 1939. Einnig gerði hann heimildarmynd um Samband íslenskra samvinnufélaga. Þá fylgdi hann tveimur fyrstu forsetum landsins eftir og filmaði þá í opinberum heimsóknum þeirra innanlands sem utanlands. Sömuleiðis filmaði hann hverfandi vinnubrögð í sveitum á Suðurlandi; þættina Í dagsins önn.

Allt er þetta efni sem hefur varðveist á Kvikmyndasafni Íslands þar sem efnið er yfirfarið og unnið samkvæmt ítrustu stöðlum. Tæknimenn safnsins hafa mikla reynslu af því að færa efni af filmum á stafrænt form, sinna litgreiningu og lagfæringum. Allt þarf þetta að gera eftir kúnstarinnar reglum.

Sýningar á efni auðvelda rannsóknir

Verkefni Kvikmyndasafnsins eru mörg og segir Gunnar að það sé í raun ótrúlegt hversu miklu fáir starfsmenn geta komið í verk. Allt byrjar með skráningu inn á safnið þar sem filmunum er komið fyrir í kæligeymslum sem lengir líftíma þeirra.

„Svo þegar á að stafvæða efnið eru filmurnar teknar fram, þær þvegnar og sendar í skönnun. Þar verða til gögn sem gera okkur kleift að deila efninu með almenningi. Stafræn gögn kalla á dýran tækjabúnað sem gerir varðveislu þeirra flókna en mikilvæga. Með stafrænar útgáfur af kvikmyndunum eru okkur svo allir vegir færir. Sýningar í Bíótekinu, vefurinn Ísland á filmu og sjónvarpsþættirnir Perlur Kvikmyndasafnsins á RÚV hafa komið efninu fyrir sjónir almennings og auðveldað rannsóknir á því,“ greinir Gunnar frá og segir að lokum:

Loka verður stafrænu svartholi

„Okkur hér í Kvikmyndasafni Íslands er mikilvægt að fá allt kvikmyndaefni sem býðst og forða því þannig frá glötun. Í dag er nánast allt myndefni tekið stafrænt og varðveislu þess þarf líka að sinna og tryggja öryggi gagna. Myndir sem fólk geymir heima hjá sér á hörðum diskum geta skemmst og efni frosið inni í tölvukerfum sem úreldast ótrúlega fljótt. Í þessu efni má satt að segja tala um risastórt stafrænt svarthol og slíkum er mikilvægt að loka vandlega, svo ekki fari illa.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson