Erla Harðardóttir fæddist 24. ágúst 1948 á Reykjalundi í Mosfellsbæ. Hún lést 7. nóvember 2024 á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Hörður faðir hennar starfaði við berklaspítalann sem var rekinn á þessum árum á Reykjalundi, en þau hjónin fengu úthlutað litlu húsi þar. Hörður starfaði sem bílstjóri og Friðbjörg var meira og minna heimavinnandi.

Erla átti eina eldri systur, Huldu Harðardóttur, sem nú er látin. Hún eignaðist að auki uppeldissystur, Jónu Maríu Eiríksdóttur, en foreldrar Erlu tóku hana að sér þar sem foreldrar hennar voru með berkla.

Erla fór í framhaldsskóla fyrir austan fjall hjá aðventistum í Hlíðardalsskóla í Ölfusi, en þar dvaldi hún á heimavist meðan á náminu stóð. Þegar hún sneri svo aftur til Reykjavíkur að námi loknu réð hún sig til starfa í Búnaðarbankanum og síðar hjá Reiknistofu bankanna.

Erla kynntist maka sínum, Þórði Walter Segura, gegnum sameiginlega kunningja. Þau eignuðust sitt fyrsta barn, soninn Hörð, árið 1968. Þann 31. maí 1969 giftu þau sig í Háteigskirkju í Reykjavík. Síðar sama ár fæddist Arnar. Fyrsta dóttirin, Svava Björg, fæddist árið 1975 og yngsta barnið, dóttirin Anna Rós, fæddist árið 1983.

Fyrstu árin bjó fjölskyldan í Mosfellsbænum eða fram til ársins 1989. Þá lá leiðin til Tulsa í Oklahoma þar sem Þórður fór í flugvirkjanám og Erla starfaði meðal annars hjá kreditkortafyrirtæki. Í Ameríku fann Þórður föður sinn og 11 hálfsystkini. Þau bjuggu í Ameríku í 12 ár þar sem Þórður starfaði sem flugvirki að námi loknu.

Árið 2001 fluttist fjölskyldan til Noregs. Arnar sonur þeirra starfaði hjá SAS, þar sem Þórður fékk einnig vinnu, sem flugvirki. Erla starfaði meðal annars á Gardermoen-flugvellinum.

Eftir áratugadvöl erlendis sneru Þórður og Erla aftur til Íslands árið 2013 og fluttu inn í raðhús á Melavegi.

Erla og Þórður eignuðust sjö barnabörn og tvö barnabarnabörn sem búa bæði á Íslandi og í Noregi.

Síðasta árið fór heilsu Erlu ört hrakandi og þrátt fyrir þrautseigju og styrk hennar hafði krabbameinið betur í seinna skiptið.

Útför Erlu fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 21. nóvember 2024, klukkan 13.

Elsku Erla. Við viljum kveðja þig með örfáum orðum og þakka þér fyrir vináttuna og samfylgdina sem við höfum átt í meira en hálfa öld.

Það er erfitt að festa orðin á blað, minningarnar eru svo margar, allt frá okkar fyrstu kynnum þegar við vorum 18 ára og unnum saman í Búnaðarbankanum. Síðar þegar Valla kom í hópinn og stofnaður var saumaklúbbur sem starfaði í mörg ár, en hlé var á þegar þið Doddi fluttuð til Bandaríkjanna og síðar til Noregs. Samband okkar á þeim árum voru falleg jólakort frá þér og hlýjar kveðjur. Þegar þið fluttuð svo aftur heim til Íslands tókum við upp þráðinn aftur og eigum margar skemmtilegar minningar frá ferðalögum og skemmtilegum „hittingum“. Þú varst alltaf svo glöð og jákvæð, alveg sama hvað á bjátaði. Þegar þú veiktist og barðist við sjúkdóm þinn í mörg ár kom í ljós hvað þú varst sterk og jákvæð. Í veikindum þínum naust þú stuðnings og góðrar umhyggju Dodda og barnanna ykkar. Þessi ár hafa verið ykkur erfið en þú gafst ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Nú er þessari baráttu lokið og þú hefur fengið hvíldina. Elsku Erla, við söknum þín. Ekki verður hringt í okkur og sagt glaðværri röddu: „Hæ – hvað segirðu?“

Við biðjum góðan Guð að styrkja Dodda, börnin ykkar og barnabörn í þeirra mikla missi. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Blessuð sé minning Erlu Harðardóttur.

Þínar vinkonur,

Guðbjörg Friðriksdóttir (Budda), Valgerður Marinósdóttir (Valla).