Stórfjölskyldan Samankomin á Tenerife í janúar 2023.
Stórfjölskyldan Samankomin á Tenerife í janúar 2023.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
María Guðmundsdóttir fæddist 21. nóvember á Akureyri og ólst þar upp til fimm ára aldurs en hefur síðan búið á höfuðborgarsvæðinu. „Ég gekk í Ísaksskóla og Æfingadeild Kennaraskólans þar sem Guðmundur I

María Guðmundsdóttir fæddist 21. nóvember á Akureyri og ólst þar upp til fimm ára aldurs en hefur síðan búið á höfuðborgarsvæðinu.

„Ég gekk í Ísaksskóla og Æfingadeild Kennaraskólans þar sem Guðmundur I. Guðjónsson, kennarinn okkar, ákvað síðan að senda allan bekkinn í Hagaskóla eftir 12 ára bekk. Fyrir vikið tók ég leið 16 og 17 úr Hlíðunum þar sem ég ólst upp, vestur í bæ í skólann og sótti allt félagslíf þar í þrjú ár.“

María lauk landsprófi frá Hagaskóla 1969, stúdentsprófi frá MH 1974 og stundaði nám við Université d’Avignon í Frakklandi í frönskum bókmenntum 1974-75. „Ég hef ekki alltaf valið mér auðveldustu leiðirnar í lífinu en ég fór beint í frönskunám með Frökkum við háskólann sem var heilmikil áskorun. Mikið var um verkföll í Frakklandi á þessum árum, námslánin sein að berast vegna endalausra póstverkfalla, en ég náði fyrsta ári sem ég fékk svo metið til frekara náms í Bretlandi. Þar stundaði ég nám við University of Warwick 1975-78 og lauk þar BA-prófi í frönskum bókmenntum og ensku. Tók leiðsögupróf í frönsku og ensku 1982 og lokapróf í uppeldis- og kennslufræði við HÍ 1982-83. Helsti skóli minn hefur þó verið þátttaka í atvinnulífinu á margþættum starfsferli.“

María var flugfreyja að sumarlagi á námsárunum, hefur verið fararstjóri erlendis og leiðsögumaður innanlands.

María var kennari í frönsku og ensku við MS 1978-80, kennari í ensku við Æfingadeild KHÍ 1978, kennari hjá Alliance Francaise í Reykjavík 1978 og 1979 innkaupastjóri hjá Hagkaupum 1980-82, kennari í frönsku og ensku við MS 1983-86, þýðandi og blaðafulltrúi við franska sendiráðið í Reykjavík 1986-87, starfaði hjá Upplýsingamiðstöð ferðamála frá 1988 og var þar forstöðumaður frá 1990-1995. María kom á starfsemi og var framkvæmdastjóri The Change Group og Western Union 1990-1995 þar til Landsbankinn yfirtók þá starfsemi en María gegndi stöðu útibússtjóra Landsbankans í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í framhaldi af því í eitt ár. María var ritstjóri ferðaútgáfu hjá útgáfufélaginu Heimi 2000-2005.

„Lengst af starfaði ég þó hjá Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF), 2006-2020, fyrst sem upplýsinga- og fræðslufulltrúi samtakanna og síðar sem fræðslustjóri. Stoltust er ég af aðkomu minni að undirbúningi og stofnun Hæfniseturs ferðaþjónustunnar þar sem ég var jafnframt stjórnarformaður frá 2017-2021. Sömuleiðis af Degi menntunar í ferðaþjónustu sem síðar þróaðist í Menntadag atvinnulífsins sem nú hefur fest sig kirfilega í sessi.“

Íslensk málnefnd veitti Hæfnisetri ferðaþjónustunnar og Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF) viðurkenningu fyrir fagorðalista ferðaþjónustunnar, stafrænt verkfæri á heimasíðu Hæfnisetursins. Fagorðalistanum er ætlað að auðvelda samskipti á vinnustað og auka íslenskan orðaforða starfsfólks. María hefur átt sæti í hinum ýmsu ráðum og stjórnum í þágu ferðaþjónustu, m.a. Ferðamálaráði, stýrihóp Hæfnisetursins, var formaður starfsgreinaráðs matvæla-, veitinga- og ferðaþjónustugreina, sat í stjórn fræðslusjóðs Starfsafls og stjórn Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins til margra ára. María tók þátt í ýmsu norrænu fræðslustarfi (NVL) sem og öðru alþjóðlegu samstarfi á sviði fræðslumála.

„Ég er afar þakklát fyrir að hafa tekið þátt í öflugu uppbyggingar- og frumkvöðlastarfi á vegum ferðaþjónustunnar á ótrúlega spennandi tímum þar sem skin og skúrir hafa skipst á í þessari mikilvægu atvinnugrein. Hæfni starfsfólks og gæði greinarinnar eru mér hugleiknust og það er ómetanlegt að hafa unnið með vönduðu og kraftmiklu fólki í spennandi verkefnum í gegnum tíðina.“

Áhugamál Maríu eru margvísleg. „Ég er heilluð af landinu mínu og náttúru þess og hef ferðast mikið innanlands með hinum ýmsu gönguhópum. Áhuginn kviknaði með góðum gönguhóp á Vestfjörðunum, svokölluðum Weber-gönguhópi, því við þvældum þessum ágætis Weber-grillum með í allar ferðir. Við hjónin fórum í ákaflega margar skemmtilegar gönguferðir með vinnufélögum mannsins míns hjá RB og nú síðastliðin ár hef ég verið í gönguhópi hressra kvenna sem kalla sig Dalalæðurnar. Ég hef ferðast víða erlendis og nýt þess sérstaklega nú þegar ég hef nægan tíma.

Við hjónin höfum stundað fluguveiði í gegnum tíðina, ýmist ein eða í góðra vina hópi, en uppáhaldsveiðistaðurinn er Laxá í Mývatnssveit. Ég hef áhuga á matreiðslu og er í matarklúbbi með vinkonum sem kalla sig Gúrmandísurnar. Ég les mikið, hef gaman af tungumálanámi og þá er samvera með fjölskyldu og vinum mér afar kær.“

Fjölskylda

Eiginmaður Maríu er Kjartan Jóhannesson, f. 7.5. 1955, fyrrverandi forstöðumaður hjá Reiknistofu bankanna. Þau gengu í hjónaband í Garðakirkju 22.5. 1982 og eru búsett á Kársnesinu í Kópavogi. Foreldrar Kjartans voru hjónin Jóhannes Jóhannesson, f. 27.5. 1921, d. 12.10. 1998, listmálari og silfursmiður, og Álfheiður Kjartansdóttir, f. 8.10. 1925, d. 28.1. 1997, þýðandi.

Börn Maríu og Kjartans eru Jóhannes ljósmyndari, búsettur í Osló, f. 9.1. 1983, sambýliskona: Anna Rydland Nærum; Guðmundur, upptökustjóri hjá Slippnum Akureyri, f. 6.7. 1986, sambýliskona: Aðalheiður Ýr Gestsdóttir; Álfheiður Marta kvikmyndaleikstjóri, Reykjavík, f. 3.4. 1993, sambýlismaður: Kolbeinn Jara Hamíðsson.

Barnabörnin eru fimm, Guðbjörg María, Álfheiður Nína og Jófríður Katla í Osló, Kjartan Gestur á Akureyri og Kría í Reykjavík.

Systkini Maríu: Sigurður Guðmundsson, f. 13.12. 1940, d. 27.5. 1999, stýrimaður í Reykjavík; Ævar Guðmundsson, f. 6.1. 1945, vélstjóri í Reykjavík; Sveinn Guðmundsson, f. 14.3. 1951, fisktæknir í Reykjavík; Jörundur Guðmundsson, f. 17.10. 1957, MA í heimspeki og fyrrverandi forstöðumaður Háskólaútgáfunnar.

Foreldrar Maríu voru hjónin Guðmundur Jörundsson, f. 3.11. 1912, d. 14.5. 1990, útgerðarmaður á Akureyri og síðar í Reykjavík, og Marta Sveinsdóttir, f. 11.11. 1915, d. 3.4. 2008, húsmóðir.

María og Kjartan fagna afmælinu með börnum, tengdabörnum og barnabörnum í Noregi í dag og hitta nýjasta barnabarnið, Kötlu, þar í fyrsta sinn.