Út er komin áhugaverð bók eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, Conservative Liberalism, North and South: Grundtvig, Einaudi and Their Relevance Today. Útgefandi er íhalds- og umbótaflokkarnir í Evrópu, en dreifingu annast Almenna bókafélagið. Bókin er 240 bls. og skiptist í fjóra kafla.
Fyrsti kaflinn er um frjálshyggjurnar sem Hannes telur jafnmargar frjálshyggjumönnunum. Einn fyrsti brautryðjandinn var Snorri Sturluson en í ritum hans má finna tvær helstu hugmyndir þeirrar frjálshyggju sem John Locke batt síðan í kerfi, að konungar sæki völd sín til þjóðarinnar og að setja megi þá af ef þeir brjóta lögin og níðast á þegnunum. Hannes heldur því fram að með frönsku stjórnarbyltingunni 1789 hafi frjálshyggjan klofnað í tvo meginstrauma, íhaldssama frjálshyggju þeirra Edmunds Burke, Alexis de Tocqueville og Friedrichs Hayek og félagslega frjálshyggju Tómasar Paine, Johns Stuart Mill og Johns Maynard Keynes.
Grundtvig og Einaudi
Í öðrum kaflanum ræðir hann um kunnan íhaldssaman frjálshyggjumann á Norðurlöndum, danska sálmaskáldið og prédikarann N.F.S. Grundtvig, sem hafði á nítjándu öld mikil áhrif á að móta danska þjóðarsál. Hann var stuðningsmaður öflugs þjóðríkis sem stæði vörð um innlenda menningu. Grundtvig þýddi rit Snorra Sturlusonar á dönsku.
Í þriðja kaflanum ræðir Hannes um Luigi Einaudi sem var einn virtasti hagfræðingur Ítalíu á tuttugustu öld og forseti Ítalíu 1984-1955. Hann var einn af stofnendum Mont Pelerin-samtakanna, alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra fræðimanna, en Hannes sat í stjórn þeirra 1998-2004. Einaudi er talinn einn af feðrum Evrópusambandsins og eindreginn stuðningsmaður öflugs ríkjasambands þeirra og frjálsra alþjóðaviðskipta.
Í fjórða kaflanum ber Hannes saman hugmynd Grundtvigs um öflugt þjóðríki og hugmynd Einaudis um öflugt ríkjasamband og leiðir rök að því að Evrópusambandið ætti frekar að sækja sér fyrirmynd í norræna samvinnu en Bandaríki Norður-Ameríku sem hafi frá upphafi verið miklu samleitari en hin sundurleita og margbrotna Evrópa. Hann lýsir því sem hann kallar norræna leið í alþjóðamálum og nefnir ýmsar tillögur til umbóta í Evrópusambandinu, ekki síst að efla nálægðarregluna svonefndu (subsidiarity principle) um að taka ákvarðanir sem næst þeim sem þær hafa áhrif á. Evrópa eigi að vera opinn markaður, ekki lokað ríki. Það eigi að vera ríkjasamband, ekki sambandsríki. Þar eigi að vera valddreifing, jafnvægi gagnkvæmrar og sjálfsprottinnar aðlögunar, ekki miðstýring, tilskipanir að ofan.