Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson
Ef við höldum áfram á réttri leið er vaxtalækkunin í gær aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal á nýju ári.

Bjarni Benediktsson

Vextir héldu áfram að lækka í gær. Vaxtalækkun upp á 0,5% þýðir 190 þúsund krónum minni greiðslubyrði á ári fyrir heimili með 40 milljóna króna lán. Forgangsmál Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn hefur verið að stuðla að lækkun verðbólgu svo Seðlabankinn geti lækkað vexti. Það er að ganga eftir. Verðbólgan er nánast í frjálsu falli og Seðlabankinn gerir nú ráð fyrir mun minni verðbólgu á næstunni en áður var talið.

Ef við höldum áfram á réttri leið er vaxtalækkunin í gær aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal á nýju ári. Það skiptir okkur öll miklu máli.

Miðað við dæmið hér að ofan myndi 1,5% lækkun til viðbótar minnka greiðslubyrðina um 560 þúsund, en með 2,5% lækkun minnkar hún um fast að milljón og svo koll af kolli.

Þetta er að takast samhliða litlu atvinnuleysi og ágætum efnahagshorfum, annað en á evrusvæðinu þar sem evrópski seðlabankinn varar við litlum hagvexti og yfirvofandi skuldakreppu.

Greining Seðlabankans sýnir að efnahagsbatinn á Íslandi eftir heimsfaraldur hefur verið í algjörum sérflokki. Við höfum endurheimt framleiðslutapið meðan aðrir sitja eftir. Við höfum góða viðspyrnu og ef rétt er á spilunum haldið getum við verið bjartsýn um að kaupmáttur haldi áfram að vaxa á komandi misserum.

Hér eru engar tilviljanir. Ríkisfjármálin hafa verið aðhaldssöm frá 2022. Við studdum dyggilega við hófsama kjarasamninga á almennum vinnumarkaði sem hafa án vafa stuðlað að hjöðnun verðbólgunnar. Halda þarf fast um taumana til að fylgja árangri síðustu missera eftir.

Þetta eru stóru málin. Það er langmikilvægasta hagsmunamál heimila og fyrirtækja að þessi þróun haldi áfram. Umræður um róttæka rökhyggju, mennska skynsemishyggju, aðlögunarviðræður við ESB eða hvaða nafni sem lausnirnar eru kallaðar – þetta eru allt aukaleikarar í stóru myndinni.

Höfundur er forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Bjarni Benediktsson