[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Opinberir sjóðir eru ekki aðeins reknir með hagsmuni núlifandi kynslóða í huga heldur einnig þeirra sem á eftir koma.

Anna Hrefna Ingimundardóttir

Stefán Ólafsson skrifaði nýlega grein í Morgunblaðið með titilinn „Rangfærslur um ríkisútgjöld“. Þar gerir hann tilraun til að færa rök fyrir því að opinber útgjöld á Íslandi séu ekki mikil í alþjóðlegum samanburði með því að gera hreinan samanburð á útgjöldunum milli landa. Staðreyndin er hins vegar sú að opinberir sjóðir fjármagna ólíka hluti í mismunandi löndum.

Hér er mikilvægt að hafa nokkur atriði í huga.

Fyrirkomulag lífeyrisgreiðslna er ekki hið sama milli landa. Stefán telur ekki tilefni til þess að „blanda óskyldum hlutum, eins og lífeyrisiðgjöldum, við tölur um skatta hins opinbera“. Þetta er alrangt. Sums staðar fara lífeyrisgreiðslur í gegnum ríkissjóð en annars staðar ekki.

Á Íslandi bárum við gæfu til þess að koma á fót sjóðssöfnunarkerfi sem horft er til með öfundaraugum. Lífeyrissjóðakerfið á Íslandi stendur þannig að mestu fyrir utan ríkissjóð, sem betur fer. Mörg önnur lönd styðjast aftur á móti við gegnumstreymiskerfi sem fara í gegnum ríkissjóð. Gegnumstreymiskerfin eru að miklu leyti ófjármögnuð, ólíkt íslenska lífeyrissjóðakerfinu, og munu verða stór áskorun fyrir aðrar þjóðir þegar fram líða stundir. Vandi þeirra verður ekki leystur án þess að hækka skatta, hækka eftirlaunaaldur eða skerða eftirlaun. Bersýnilega þarf að leiðrétta fyrir þessum kerfislæga mismun þegar opinber útgjöld á Íslandi eru borin saman við önnur lönd.

Útgjöld til varnarmála eru ólík eftir löndum en fá lönd eru með minni slík útgjöld, sem hlutfall af landsframleiðslu en Ísland.

Sé einungis leiðrétt fyrir þessum tveimur mikilvægu þáttum má sjá að opinber útgjöld á Íslandi eru með þeim mestu innan OECD, sjá línurit yfir opinber útgjöld.

Fleira kemur til. Aldurssamsetning þjóða hefur talsverða þýðingu þegar kemur að opinberum útgjöldum enda aukast heilbrigðisútgjöld eftir því sem þjóðir eldast á sama tíma og hlutfallslega færri vinnandi hendur standa undir samneyslunni. Kostnaður við heilbrigðisþjónustu 65 ára og eldri er margfalt meiri en fyrir þá sem yngri eru. Aldurssamsetning Íslendinga er hagfelld að þessu leyti en fyrirséð er að þróunin muni breytast eftir því sem stórir árgangar eldast. Útgjöld til heilbrigðismála eru nú þegar nokkuð mikil hér á landi miðað við hin Norðurlandaríkin, sé leiðrétt fyrir aldurssamsetningu.

Samkvæmt skýrslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins um langtímahorfur í efnahagsmálum og opinberum fjármálum er áætlað að útgjöld vegna öldrunar þjóðarinnar muni aukast um rúmar þrjár prósentur af landsframleiðslu til ársins 2050. Slíkar áætlanir gefa ríkt tilefni til að viðhalda svigrúmi í ríkisrekstri til að takast á við þessar áskoranir eftir því sem þær raungerast.

Talsmenn aukinna ríkisútgjalda, með tilheyrandi skattahækkunum, þurfa að huga betur að sjálfbærni opinberra fjármála. Opinberir sjóðir eru ekki aðeins reknir með hagsmuni núlifandi kynslóða í huga heldur einnig þeirra sem á eftir koma. Það er því ekki einungis vanhugsað heldur óábyrgt að kalla eftir auknum ríkisútgjöldum án þess að áhrif þeirra á komandi kynslóðir séu metin.

Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri og forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

Höf.: Anna Hrefna Ingimundardóttir