Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Fátt bendir til þess að sérstök sátt náist á Alþingi um fiskveiðistjórnunina milli þeirra flokka sem munu koma fólki á þing að loknum kosningum 30. nóvember miðað við niðurstöður síðustu skoðanakönnunar Prósents og Morgunblaðsins. Munar þó nokkuð á aðferðum þeirra sem virðast ætla að verða stærstu þingflokkarnir, Samfylkingin og Viðreisn.
Flokkarnir eru flestir bundnir við ýmis óljós hugtök eins og „sanngjörn“ veiðigjöld, en hvað telst sanngjarnt virðist teygjanlegt hugtak. Þó ber nokkuð á milli í ýmsum þáttum og gengur Sósíalistaflokkurinn lengst og vill innkalla allan kvóta og endurúthluta á grundvelli byggðastefnu.
Stórfelld hækkun gjalda
Samfylkingin boðar engar byltingar í sjávarútvegsmálum í yfirlýstri stefnu sinni en segir að „í fyrstu verði tekin upp skynsamleg og réttlát auðlindagjöld. […] Almenn auðlindagjöld eru lykilatriði og tekjum af þeim ætti að skipta á milli sveitarfélaga og ríkissjóðs – til að stilla saman hagsmuni nærsamfélags og þjóðar.“
Hyggst Samfylkingin hækka veiðigjöld en ekki liggur fyrir um hve mikið, en nefnt er að „auðlindarenta“ sem myndist í íslenskum sjávarútvegi geti verið yfir 50 milljörðum króna og að hlutur af þessari rentu eigi að vera meiri en þeir 7-10 milljarðar sem innheimtir séu í gegum veiðigjald í dag, en ekkert liggur fyrir hve mikil gjöld flokkurinn hyggst leggja á greinina. Séu efri mörk þess 50 milljarðar króna getur greinin átt yfir höfði sér stórfellda skattahækkun.
Jafnframt er boðað þrepaskipt veiðigjald til að hlífa smærri útgerðum og sporna við samþjöppun.
Flokkurinn segist vilja leita leiða til að tryggja að 5,3% aflaheimilda sem falla í hlut ríkisins nýtist betur í þágu byggðasjónarmiða en nú, en ekki hvernig.
Heimildir til hæstbjóðanda
Viðreisn heldur fast í hugmyndir sínar um árlega fyrningu hluta aflahlutdeilda og uppboð þeirra sem tímabundinna nýtingarsamninga til 20 ára. Á móti vill flokkurinn leggja af veiðigjöld. „Með því yrði pólitískri óvissu eytt og fyrirsjáanleiki greinarinnar þar með meiri auk þess sem eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni væri staðfest,“ segir á vef flokksins. Telur Viðreisn að með þessari lausn fáist „sanngjarnt markaðsverð sem ræðst hverju sinni af framboði og eftirspurn innan greinarinnar, og umgjörð sjávarútvegs verður skýr, gagnsæ og stöðug til frambúðar.“
Ætla má að þegar kvóti fer til hæstbjóðanda safnist hann á færri hendur, aðallega þeirra sem hafa mesta aðgengið að fjármunum. Viðreisn hyggst þó halda í einhvers konar kvótaþak og því ekki alveg augljóst hvort verð fáist sem taki aðeins mið af framboði og eftirspurn. Hyggst flokkurinn mæta afleiðingum fyrir sjávarbyggðir þaðan sem smærri aðilar róa með því að sjá til þess „að hluti markaðsgjaldsins renni til sjávarútvegsbyggða til að styrkja innviði á þeim svæðum.“
Standa vörð um burðarás
„Íslenskur sjávarútvegur, sem er burðarás í atvinnulífi um land allt, er leiðandi í heiminum hvað varðar sjálfbærni, þróun og arðsemi,“ segir í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins. Bendir flokkurinn á að greinin er í samkeppni við ríkisstyrktar útgerðir erlendis og því sé mikilvægt að gjöld séu hófleg til að tryggja samkeppnishæfni. Telur flokkurinn hækkun veiðigjalda „lenda þyngst á minni sjávarútvegsfyrirtækjum.“
Sjálfstæðisflokkurinn segir mikilvægt að tryggja „stöðugleika í rekstrarumhverfi íslensks sjávarútvegs sem byggir á núgildandi aflamarkskerfi svo að greinin haldi áfram að vaxa á grundvelli sjálfbærrar nýtingar fiskistofna.“ Auk þess er sagt að grundvöllur arðsemi sjávarútvegs sé „samþætting veiða, vinnslu og markaðar.“
Sanngjarnt gjald
Framsóknarflokkurinn kveðst einnig styðja hlutdeildarkerfi í sjávarútvegi „þannig að fiskveiðum sé stýrt í kvótum eins og gert er í dag enda hefur slíkt fyrirkomulag skapað mikil verðmæti fyrir þjóðarbúið.“ Telur flokkurinn „eðlilegt […] að sjávarútvegurinn greiði sanngjarnt veiðigjald fyrir nýtingu á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.“ Ekki er þó tekið fram hvort núverandi gjöld séu „sanngjörn“ að mati flokksins.
Framsókn telur nauðsynlegt að viðhalda „byggðaúrræði fiskveiðistjórnunarkerfisins“ og að atvinnu- og byggðakvóti verði nýttur markvisst til að tryggja byggðafestu, en ekki er því lýst hvernig því markmiði skal náð. Flokkurinn leggur jafnframt til að svæðisskipting strandveiðanna verði tekin upp að nýju til að auka jafnræði milli landsvæða.
Ákvæði í stjórnarskrá
Miðflokkurinn segist styðja stjórn fiskveiða með aflamarkskerfi og að „kveðið sé á um sameiginlega eign þjóðarinnar á auðlindum landsins í stjórnarskrá, þar með talið sjávarauðlindinni.“ Hvort það hafi nokkur teljandi áhrif á fiskveiðistjórnunina er hins vegar óljóst.
Þá segir í yfirliti stefnumála flokksins að hann vilji að „komið sé í veg fyrir fákeppni í sjávarútvegi með lögum. Litið verði þar til hámarksaflahlutdeildar einstakra útgerða og tengdra aðila í því samhengi.“ Hver þessi hámarkshlutdeild eigi að vera eða hvernig flokkurinn vill skilgreina „tengda aðila“ er þó ekki lýst. Þá vill Miðflokkurinn að „veiðigjöld séu gagnsæ, einföld og að við útreikning þeirra sé gætt jafnræðis.“ Ekki eru þó lagðar til neinar skýrar tillögur að breytingum í þeim efnum.
Einnig telur flokkurinn strandveiðar mikilvægar og kveðst vilja tryggja aukna sanngirni milli veiðisvæða. Hvernig því markmiði skal náð er ekki lýst.
Stórauknar handfæraveiðar
Flokkur fólksins tekur undir sjónarmið um að þörf sé á auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Segist flokkurinn vilja að greitt sé „fullt verð“ fyrir aðgang að auðlindum landsins, en ekki er því lýst hvað felst í „fullu verði“.
Þá er lagt til að handfæraveiðar verði gefnar frjálsar án þess að þær verði, miðað við málflutning þingmanna flokksins á Alþingi, bundnar við veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Auk þess eigi að tryggja strandveiðibátum 48 veiðidaga auk þess sem bæta á við sóknardögum á vorin og haustin. Flokkurinn segir íbúa sjávarbyggða eiga að „njóta aukins réttar til að nýta sjávarauðlindina með jákvæðum áhrifum á sjávarplássin víðs vegar um landið.“
Ekki er útskýrt hvernig þessu eigi að vera háttað án þess að sneiða alfarið hjá núverandi fiskveiðistjórnun sem byggist á ráðgjöf vísindamanna um forsvaranlegan hámarksafla. Flokkur fólksins leggur þó til að aðferðir Hafrannsóknastofnunar við fiskveiðiráðgjöf verði endurskoðaðar. Aðferðirnar eru meðal annars byggðar á aðferðafræði sem samþykkt er á vettvangi Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) og hafa íslenskar afurðir hlotið t.d. sjálfbærnisvottun á grundvelli þess, sem hefur skilað hærra verði á erlendum mörkuðum. Óljóst er hvaða afleiðingar það hafi að víkja frá alþjóðlega viðurkenndri aðferðafræði.
Flokkur fólksins vill setja í lög um að allur afli eigi að vera seldur á fiskmörkuðum til að tryggja sanngjarnt uppgjör við sjómenn. Þannig verður slitin samþætt virðiskeðja þeirra útgerða sem stunda bæði veiðar og reka vinnslu.
Greinin verði byggðaúrræði
Sósíalistaflokkurinn boðar umturnun núverandi kerfis og vill flokkurinn að ríkið innkalli allar útgefnar veiðiheimildir og að þeim verði endurúthlutað á grundvelli byggðastefnu í samstarfi við sveitarfélög og byggðarlög.
Þá er lagt til að „leyfi til fiskveiða og nýtingar sjávarnytja innan íslenskrar lögsögu séu veitt tímabundið, til hóflegs tíma í senn, gegn gjaldi svo þjóðinni sé tryggt sanngjarnt verð fyrir auðlindina“ og að „auðlindanýting fiskveiða og annarra sjávarnytja sé háð leyfum sem skulu vera skilyrt staðbundið til að viðhalda byggð um landið og þau ekki framseljanleg.“