Ágúst Valfells kjarnorkuverkfræðingur lést á Landspítalanum 15. nóvember síðastliðinn, níræður að aldri. Ágúst fæddist í Reykjavík 24. mars 1934. Foreldrar hans voru Sveinn Bjarnþórsson Valfells og Helga Bjarnason Valfells

Ágúst Valfells kjarnorkuverkfræðingur lést á Landspítalanum 15. nóvember síðastliðinn, níræður að aldri.

Ágúst fæddist í Reykjavík 24. mars 1934. Foreldrar hans voru Sveinn Bjarnþórsson Valfells og Helga Bjarnason Valfells.

Ágúst bjó með foreldrum sínum og systkinum í New York árin 1944 til 1946. Hann lauk stúdentsprófi frá MR árið 1953 og hélt þá til náms við McGill-háskóla í Kanada þar sem hann lauk prófi í efnaverkfræði árið 1957. Hann lauk MSc-gráðu í efnaverkfræði frá Massachusetts Institute of Technology árið 1959 og fór svo í doktorsnám í kjarnorkuverkfræði við Iowa State University þaðan sem hann útskrifaðist vorið 1962.

Að námi loknu flutti hann aftur til Íslands þar sem hann varð fyrsti forstöðumaður Almannavarna 1962-1964. Árin 1964-1981 vann hann hvort tveggja við rannsóknir og kennslu við Iowa State University og við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Á árunum 1981-2016 fékkst hann við atvinnurekstur, var ráðgefandi verkfræðingur, jafnframt því að vera ráðunautur og stjórnarmaður í mörgum fyrirtækjum, opinberum og alþjóðlegum nefndum og félagasamtökum. Hann var meðal annars formaður Verkfræðingafélags Íslands 1984-1986.

Eftir Ágúst liggur fjöldi greina og rannsóknarskýrslna í innlendum og erlendum fagtímaritum, einnig fyrirlestrar á ráðstefnum í Bandaríkjunum og víðar.

Hann var sæmdur frönsku orðunni Ordre National du Mérite árið 1964.

Eftirlifandi eiginkona Ágústar er Matthildur Ólafsdóttur Valfells hjúkrunarfræðingur. Börn þeirra eru Jón, Helga og Ágúst.

Útför Ágústar fer fram í Fossvogskirkju á morgun, 22. nóvember, klukkan 11.