Dagmál Hafsteinn Dan Kristjánsson lagaprófessor við HR og Sigurður Kári Kristjánsson hæstaréttarlögmaður.
Dagmál Hafsteinn Dan Kristjánsson lagaprófessor við HR og Sigurður Kári Kristjánsson hæstaréttarlögmaður. — Morgunblaðið/Kristófer Liljar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýfallinn dómur Héraðsdóms Reykjavíkur er lýtur að breytingu á búvörulögum, og sem í reynd ómerkir breytingu laganna, er til umræðu í Dagmálum í dag. Hafsteinn Dan Kristjánsson, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík, og Sigurður Kári Kristjánsson hæstaréttarlögmaður eru gestir þáttarins

Andrea Sigurðardóttir

andrea@mbl.is

Nýfallinn dómur Héraðsdóms Reykjavíkur er lýtur að breytingu á búvörulögum, og sem í reynd ómerkir breytingu laganna, er til umræðu í Dagmálum í dag. Hafsteinn Dan Kristjánsson, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík, og Sigurður Kári Kristjánsson hæstaréttarlögmaður eru gestir þáttarins.

Sú óvenjulega staða er uppi að ákvörðun um áfrýjun dómsins er ekki í höndum löggjafans, heldur Samkeppniseftirlitsins (SKE), sem við meðferð lagafrumvarpsins var mótfallið ýmsum breytingum sem samþykkt laganna hafði í för með sér. Ljóst má vera að niðurstaða málsins er fordæmisgefandi og spyr Andrea Sigurðardóttir þáttastjórnandi því að því hvort SKE væri stætt á því að áfrýja ekki.

„Það eru mörg sjónarmið sem eru tekin með í reikninginn þegar verið er að ákveða að áfrýja og meðal annars er þá mat Samkeppniseftirlitsins á því og hverjar líkurnar eru því að þau nái þá að hnekkja þessu á æðra stigi. Eitt af því sem þau gætu horft til er að þau þurfa núna í framhaldinu að fara að grípa til ýmissa aðgerða og þau gætu viljað fá fram niðurstöðu æðri dóms, þannig að það sé allt gulltryggt hvernig landið liggur áður en þau fara í þessar aðgerðir eða samhliða þeim sko, þannig að ég hugsa að það sé örugglega eitt sjónarmið sem þau þurfa að líta til í þessu samhengi,“ segir Hafsteinn.

Sigurður Kári bendir á að niðurstaðan skilji eftir spurningar um það hverjar heimildir þingsins og þingmanna séu til þess að gera breytingar á lagafrumvörpum sem komi til umfjöllunar og meðferðar í þinginu.

„Það er eitt af stóru álitaefnunum sem eru undir í þessu máli. Mér finnst að ábyrgt stjórnvald, eins og Samkeppniseftirlitið, verði bara að fá úr þessu skorið, hvað sem því finnst um þessa tilteknu löggjöf, fyrir áfrýjunardómstól,“ segir hann.

Þáttastjórnandi spyr Hafstein að því hvort ekki hefði farið betur á því að íslenskum stjórnvöldum hefði verið stefnt til varnar, samhliða SKE.

„Það er til nýlegt fordæmi frá Hæstarétti, það er dómur númer 9/2023, þar sem það er svona verið að velta fyrir sér hvort eigi að stefna íslenska ríkinu samhliða. Í því máli var það talið heppilegt en þó ekki þannig að það myndi leiða til frávísunar hefði það ekki verið gert. En svo má heldur ekki gleyma því að það hvort lög brjóta í bága stjórnarskrána varðar svokölluð lagarök en ekki málsástæður, sem þýðir það að aðilar málsins ráða ekki hvernig fer um það atriði, dómaranum ber að gæta að því. Þannig að óháð því hverju stjórnvöld halda fram í málinu þá er það að lokum undir dómaranum komið að túlka stjórnarskrána og heimfæra hana til laganna, algjörlega óháð því hverju Samkeppniseftirlitið heldur fram í málinu. Þetta er bara atriði sem dómarinn gætir að af sjálfsdáðum,“ segir Hafsteinn.

Áfrýi SKE ekki séu þó allar líkur á því að málið verði tekið fyrir á æðra dómstigi.

„Ef ekkert verður gert með þetta mál og því verður ekki áfrýjað, þá blasir til dæmis við að þeir aðilar sem hafa staðið að þessum samrunum sem hefur þegar verið tilkynnt um, sem eru þá Kaupfélag Skagfirðinga og Kjarnafæði, hafa augljóslega lögvarða hagsmuni af niðurstöðu ágreinings um þetta og þeir gætu þá höfðað mál eða gert einhvern ágreining fyrir dómstólum sem síðan myndi ganga lengra, þannig að ég er sammála því sem ég held að hafi verið haft eftir Hafsteini í Morgunblaðinu í gær að öll sagan í þessu máli er ekki sögð, óháð því hvað Samkeppniseftirlitið gerir í framhaldinu,“ segir Sigurður Kári.

Í umræðum er meðal annars komið inn á hugsanleg áhrif niðurstöðunnar, standi hún, á þingsköp.

„Þingið og stjórnendur Alþingis þurfa að velta fyrir sér, ef þetta er niðurstaðan, hvernig það horfir við vinnubrögðunum sem eru viðhöfð á þinginu. Þarf að gefa út einhverjar leiðbeiningar um það hversu langt má ganga við breytingar á lagafrumvörpum sem koma inn í þingið? Hefur verið gengið of langt hingað til, svona í ljósi þess sem fram kemur í þessum dómi, eða þarf að skýra þessar línur með einhverjum hætti? Miðað við mína reynslu þá held ég að það þurfi að gera það, og jafnvel að taka nefndastarfið og þingsköpin að minnsta kosti til skoðunar með hliðsjón af því sem þarna kemur fram,“ segir Sigurður Kári.

Kaupfélag Skagfirðinga

Kaupum á félagi frestað

Sigurjón R. Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga á Sauðárkróki (KS), segir að félagið muni að sjálfsögðu fara eftir tilmælum Samkeppniseftirlitsins í kjölfar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur sem ógilti breytingu á búvörulögum.

Fram kom í byrjun mánaðarins að KS hygðist kaupa fjölskyldufyrirtækið B. Jensen sem rekur sláturhús, kjötvinnslu og verslun við Lónsbakka, við landamæri Hörgársveitar og Akureyrar. Sigurjón sagði við Morgunblaðið að KS myndi fara að tilmælum Samkeppniseftirlitsins og aðhafast ekki frekar varðandi þessi kaup á meðan óvissuástand ríkti vegna dómsins.

Höf.: Andrea Sigurðardóttir