Reynslumikill Haukur Helgi Pálsson er næstleikjahæstur í landsliðshópnum sem mætir Ítalíu í undankeppni EM.
Reynslumikill Haukur Helgi Pálsson er næstleikjahæstur í landsliðshópnum sem mætir Ítalíu í undankeppni EM. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Haukur Helgi Pálsson er mættur aftur í leikmannahóp íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik eftir langa fjarveru en Ísland mætir Ítalíu í tveimur leikjum í B-riðli undankeppni EM 2025 á næstu dögum

EM 2025

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Haukur Helgi Pálsson er mættur aftur í leikmannahóp íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik eftir langa fjarveru en Ísland mætir Ítalíu í tveimur leikjum í B-riðli undankeppni EM 2025 á næstu dögum.

Liðin mætast fyrst í Laugardalshöll á morgun og svo í Reggio Emilia á Ítalíu þann 25. nóvember, en Ísland er í þriðja sæti riðilsins með tvö stig eftir fyrstu tvo leiki sína í febrúar. Íslenska liðið vann þá sterkan sigur gegn Ungverjalandi, 70:65, í Laugardalshöll en tapaði svo naumlega fyrir Tyrklandi í Ataköy, 76:75.

Ítalir tróna á toppi riðilsins með fjögur stig en liðið hafði betur gegn Tyrklandi í Pesaro, 87:80, og gegn Ungverjalandi í Szombathely, 83:62. Liðin sem enda í efstu þremur sætum riðilsins tryggja sér sæti í lokakeppninni sem fram fer næsta haust, í ágúst og september, á Kýpur, í Finnlandi, Póllandi og Lettlandi.

Haukur Helgi, sem er 32 ára gamall, er einn af reynslumestu leikmönnum liðsins en alls á hann að baki 74 A-landsleiki.

„Þessi leikur leggst virkilega vel í mig og þetta verður alvöru prófraun fyrir okkur,“ sagði Haukur Helgi í samtali við Morgunblaðið á æfingu íslenska liðsins í Laugardalshöll.

„Það er góð blanda í leikmannahópnum og þetta eru mikið til leikmenn sem eru bæði snöggir og fljótir. Við erum auðvitað án Martins Hermannssonar og Kristófers Acox og við söknum þeirra klárlega. Það munar um minna og það er kannski aðeins að pirra mann hversu langt er síðan við náðum að stilla upp okkar allra sterkasta liði. Við erum samt orðnir vanir því að einhverju leyti líka en það verður frábært þegar við getum stillt upp okkar allra sterkasta liði, vonandi sem fyrst,“ sagði Haukur Helgi.

Sigur sem gefur kraft

Íslenska liðið vann frækinn sigur gegn því ítalska, 107:105, í undankeppni HM 2023 á Ásvöllum í Hafnarfirði þann 24. febrúar árið 2022 eftir tvíframlengdan leik en Haukur Helgi var í stóru hlutverki hjá íslenska liðinu á Evrópumótinu 2015 í Berlín og Evrópumótinu 2017 í Helsinki.

„Sigurinn gegn þeim í undankeppni HM gefur okkur helling. Þetta var klárlega einn af stærstu sigrum landsliðsins og á undanförnum árum höfum við bara verið í hörkuleikjum gegn þessum stærri þjóðum. Við vitum að við getum unnið þá, sem gefur okkur kraft, og við erum líka mjög nálægt því að komast inn á Evrópumótið, sem gefur okkur ennþá meiri kraft.

Við mætum svo sannarlega tilbúnir til leiks. Fyrir mitt leyti eru Evrópumótin tvö það skemmtilegasta sem ég hef upplifað með landsliðinu og það er fátt sem toppar þau, bæði vegferðin að stórmótinu og svo stórmótið sjálft. Mig langar mikið að upplifa þessa tilfinningu aftur áður en maður kallar þetta gott.“

Hugsar vel um sig

Er Haukur farinn að leiða hugann að því að hætta með landsliðinu?

„Það kemur klárlega að því. Við erum með unga og hressa stráka hérna sem eru svo sannarlega tilbúnir að taka við keflinu. Mér líður mjög vel með þennan hóp og hvar þessir leikmenn eru staddir á leikmannaferli sínum. Ég er fyrst og fremst spenntur að fá að taka aftur þátt í þessu með þeim enda langt síðan maður spilaði síðast fyrir landsliðið.

Mér líður ágætlega í skrokknum í dag en það er svo sem ekkert leyndarmál að maður er að eldast. Ég kom ungur inn í landsliðið og er því búinn að vera hluti af hópnum í frekar langan tíma. Andlega líður mér ekkert eins og ég sé orðinn það gamall, það er meira líkaminn sem er farinn að segja til sín. Ég hugsa hins vegar vel um mig og í dag snýst þetta um að gíra sig rétt inn í leikina.“

Töffarar sem koma inn

Leikmannakjarninn í íslenska liðinu hefur nánast verið sá sami undanfarin ár en þó hafa ungir og efnilegir leikmenn einnig verið að koma inn í hópinn í undanförnum landsleikjagluggum í fjarveru lykilmanna á borð við Martin Hermannsson sem hefur misst af mörgum landsleikjum síðustu tvö árin vegna meiðsla.

„Þessir strákar sem hafa verið að koma inn í þetta eru frekar miklir töffarar og það þarf í raun mjög lítið að halda eitthvað sérstaklega utan um þá. Maður reynir auðvitað aðeins að leiðbeina þeim hér og þar en annars eru þetta bara ákveðnar týpur af töffurum sem eru að koma inn og þeir eru algjörlega klárir í slaginn.

Auðvitað hefði maður viljað hafa Martin með í þessum verkefnum enda er hann okkur gríðarlega mikilvægur. Það segir sig samt sjálft að þegar leikmenn sem koma mikið að skorhlutanum hjá okkur detta út, þá verða aðrir að stíga upp í fjarveru þeirra. Það höfum við strákarnir gert og leikmenn hafa líka öðlast dýrmæta reynslu í fjarveru Martins.“

Hefði getað endað verr

Haukur Helgi hefur sjálfur verið óheppinn með meiðsli á undanförnum árum en hann gekkst undir aðgerð á ökkla fyrir þremur árum og er ennþá að glíma við eftirköst aðgerðarinnar. Þá lenti hann í bílslysi á Reykjanesbrautinni á síðustu leiktíð sem hélt honum frá keppni í nokkurn tíma.

„Ég er búinn að vera að takast á við eftirköstin eftir þessa ökklaaðgerð undanfarin ár og bataferlið var miklu lengra en ég átti sjálfur von á. Körfuboltinn hjá mér í dag snýst einfaldlega um að læra að spila með eftirköstunum og ég er svona aðeins búinn að vera að átta mig á því sjálfur að ég verð aldrei aftur leikmaðurinn sem ég var fyrir aðgerðina.

Hugurinn hefur alveg reikað, í raun frá því að maður kom heim eftir aðgerðina. Ég hugsaði með mér hvort þetta ætlaði aldrei að stoppa og sú hugsun læddist að mér eftir bílslysið líka. Það er samt ekkert annað í stöðunni en að ýta þessum hugsunum frá sér og halda áfram. Svona hlutir gerast, koma bæði fyrir mig og aðra, og bílslysið hefði klárlega getað endað mun verr.“

En hvernig líður Hauki í líkamanum í dag?

„Ég er að spila á fullu en þetta háir mér hér og þar. Það koma dagar þar sem ég finn meira fyrir þessu og þá sérstaklega í hálsinum og mjöðmunum. Mig langar bara það mikið að spila körfubolta að ég læt þetta ekki stoppa mig og þetta er í raun ákveðin leið til þess að takast á við þetta líka. Ég keyri auðvitað Reykjanesbrautina á hverjum degi og ég var aðeins eftir mig þessa fyrstu mánuði eftir slysið og fór mér hægt en þetta er samt allt að koma núna,“ bætti Haukur Helgi Pálsson við í samtali við Morgunblaðið á æfingu íslenska liðsins í Laugardalshöllinni.

Höf.: Bjarni Helgason