Baksvið
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Landhelgisgæsla Íslands hefur sparað um það bil 100 milljónir króna á þessu ári með því að kaupa olíu á varðskipin í Færeyjum en ekki á Íslandi.
Þetta kemur fram í skriflegu svari Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Gæslunnar, við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Varðskip Landhelgisgæslunnar hafa tekið olíu í fimm skipti á árinu 2024, Freyja þrisvar og Þór tvisvar. Í fjórum tilfellum var olía tekin í Færeyjum en einu sinni á Íslandi. Að óbreyttu gerir Landhelgisgæslan ekki ráð fyrir að þurfa að taka meiri olíu á varðskipin á þessu ári, segir í svari Ásgeirs.
Alls hafa rúmlega 2.600.000 lítrar af olíu verið keyptir á varðskipin á árinu 2024. Með fyrirvara um að krónutalan á síðustu olíutöku á Freyju liggur ekki endanlega fyrir með 100% nákvæmni hefur Landhelgisgæslan tekið olíu fyrir samtals um 261,4 milljónir króna í ár. Þar af fyrir 23,1 m.kr. á Íslandi og hin fjögur skiptin í Færeyjum fyrir samtals 238,3 m.kr. Meðalverð á lítra úr þessum fimm olíutökum er um 99,3 krónur. Lítraverðið í olíutökunni á Íslandi var 154,1 króna en var að meðaltali 96,0 krónur við Færeyjar.
Nýtist í önnur verkefni
„Landhelgisgæslan gerir ráð fyrir að lágmarkskostnaðarmunur á olíutöku á Íslandi og í Færeyjum á þessu ári nemi um 100 milljónum króna sem nýttust til frekari leitar, björgunar og löggæsluverkefna Landhelgisgæslunnar. Munurinn er ekki einungis fólginn í virðisaukaskatti og kolefnisgjaldi, eins og oft er haldið fram þegar olíukaup Landhelgisgæslunnar í Færeyjum eru til umfjöllunar, heldur hefur olían sjálf reynst ódýrari,“ segir í svari Ásgeirs við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Hér til hliðar birtist graf yfir olíukaup Landhelgisgæslunnar á þessu ári. Eftirfarandi skýringar fylgdu með svari stofnunarinnar:
•Fyrir olíutöku í Færeyjum þann 9.7. 2024 var Freyja í viðhaldi í Noregi. Skipið er haft eins létt og mögulegt er þegar farið er í slipp.
•Fyrir olíutöku í Færeyjum þann 11.11. 2024 var Freyja búin að vera að sinna eftirlitsstörfum með síldveiðiskipum á djúpslóð. Þar höfðu nokkur færeysk síldveiðiskip verið að veiðum.
Eftirlitið fór þannig fram að áhöfnin á varðskipinu fer um borð í skipin og kannar aflasamsetningu og framkvæmir tegundagreiningu á aflanum. Veðurgluggi var nýttur til olíutöku.
•Fyrir olíutöku í Færeyjum þann 4.5. 2024 var áhöfnin á varðskipinu Þór við æfingar í tengslum við æfinguna Dynamic Mongoose. Bæði varðskip Færeyinga, Brimill og Tjaldrið, tóku þátt ásamt Þór.
•Fyrir olíutöku í Færeyjum þann 18.10. 2024 var áhöfnin á Þór við eftirlit á djúpslóð.
„Eins og Landhelgisgæslan hefur áður bent á í svörum til Morgunblaðsins ber stofnuninni að sýna ráðdeild í rekstri. Þá áréttar Landhelgisgæslan að starfsemi stofnunarinnar er með þeim hætti að tæki hennar eru gjarnan við æfingar, viðhald og störf víðar en á Íslandi og þar með er erfitt að einskorða olíutöku við Ísland,“ voru lokaorðin í svari Ásgeirs Erlendssonar.
Frá aldamótum hafa varðskip Landhelgisgæslunnar tekið olíu í Færeyjum þegar þau hafa verið við eftirlitsstörf djúpt austur af landinu eða við æfingar með dönsku og færeysku varðskipunum.
Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu árið 2022, í stjórnsýsluúttekt á Landhelgisgæslu Íslands, að stofnunin ætti að hætta olíutöku í Færeyjum og beina þess í stað viðskiptunum til Íslands. Þegar litið sé til þeirra fjármuna sem Landhelgisgæslan fær til reksturs stofnunarinnar og heildarhagsmuna ríkisins sé varla hægt að líta á það sem svo að um raunverulegan sparnað sé að ræða.
Sá virðisaukaskattur, sem stjórnendur Landhelgisgæslunnar vísi til að skeri úr um hvar borgi sig að kaupa eldsneyti, renni allur til ríkissjóðs.
Sóun og óþarfa mengun
„Þeir aðilar sem þiggja rekstrarfé sitt úr ríkissjóði geta ekki vísað til þess að með því að komast hjá greiðslu opinberra gjalda sé stuðlað að rekstrarhagkvæmni. Siglingar Landhelgisgæslunnar í þessum tilgangi fela í sér sóun, óþarfa mengun og skerðingu á viðbragðsgetu varðskipa innan efnahagslögsögunnar,“ sagði m.a. í skýrslunni.
Engu að síður hélt Landhelgisgæslan áfram að taka olíu á varðskipin í Færeyjum. Sú skýring var gefin að síðan álit Ríkisendurskoðunar var sett fram hafi forsendur breyst og rekstur Landhelgisgæslunnar orðið mun þyngri. Þar vegi stórhækkaður olíukostnaður þungt. Hið nýja varðskip Freyja eyði mun meira eldsneyti en Týr, sem Freyja leysti af hólmi, enda fjórfalt stærra skip. Freyja kom til landsins síðla árs 2021.
Margir hafa í opinberri umræðu lýst yfir undrun á því hvers vegna virðisaukaskattur af olíukaupum Landhelgisgæslunnar væri ekki einfaldlega felldur niður. Með því yrði greitt fyrir olíukaupum stofnunarinnar á Íslandi og siglingar varðskipanna til Færeyja þar með óþarfar.
Morgunblaðið sendi árið 2022 fyrirspurn til fjármálaráðuneytsiins um málið. Í svörum ráðuneytisins kom fram að í lögum um virðisaukaskatt sé sú meginregla að greiða skuli í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru og þjónustu, eins og nánar er kveðið á um í lögunum.
Af meginreglunni leiði að Landhelgisgæslunni líkt og öðrum aðilum sem kaupa hér á landi skattskylda vöru og þjónustu, þ.m.t. olíu, beri að greiða virðisaukaskatt af slíkum kaupum hér á landi.
Þá teljist slík sala til innlends aðila líkt og Landhelgisgæslunnar ekki vera útflutningur í skilningi laganna og skip Landhelgisgæslunnar ekki til millilandafara. Af því leiði að sala innanlands á olíu til Landhelgisgæslunnar telst ekki til undanþeginnar veltu í skilningi VSK-laganna.
„VSK-kerfinu er í eðli sínu ætlað að vera hlutlaust gagnvart ólíkum tegundum efnahagsstarfsemi með jafnræði og hlutlæga mælikvarða að leiðarljósi. Kerfið á því hvorki að ívilna né íþyngja einstökum greinum atvinnulífsins,“ sagði í svari ráðuneytisins.