Björn Júlíusson fæddist í Reykjavík 19. nóvember 1940. Hann lést á Landspítalanum 12. nóvember 2024.

Foreldrar hans voru Hanna Guðrún Jóhannesdóttir, f. 1920, d. 2000, og Júlíus F. Óskarsson, f. 1914, d. 1992. Stjúpfaðir hans var Magnús Þ. Sigurðsson, f. 1913, d. 2002. Systkini sammæðra Anna Vigdís Gunnlaugsdóttir, f. 1943, d. 2022, Sigurður Magnússon, f. 1948, og Guðleif Unnur Magnúsdóttir, f. 1953.

Hinn 21. nóvember 1959 kvæntist Björn Guðrúnu Ásmundsdóttur, f. 27. ágúst 1940. Foreldrar hennar voru Ásmundur Ásmundsson, f. 1907, d. 1976, og Gróa Ásta Jafetsdóttir, f. 1902, d. 1988.

Börn Björns og Guðrúnar eru: 1) Ásmundur, f. 11. nóvember 1957, fyrri maki Ragnheiður Ása Ingvarsdóttir, börn þeirra eru Guðrún Ósk, f. 1980, Mánarós Iðunn, f. 1986, og Ásmundur Gunnar, f. 1988. Fyrir átti Ragnheiður Ása Alexiu Nótt, f. 1976. Seinni maki Ásmundar er Janine Andrews, börn þeirra eru Björn Leo, f. 1999, Sarah Nicole, f. 2000, og Daniel, f. 2008. Fyrir átti Janine Roberto, f. 1990, og Paolo, f. 1997. 2) Hildur, f. 28. apríl 1961, fyrri maki Kristinn Rúnarsson, f. 1961, d. 1988. Þeirra sonur er Kristinn Steinar, f. 1989. Seinni maki Hildar er Bernódus Kristinsson, dætur þeirra eru Jórunn Margrét, f. 1994, og Berghildur, f. 2002. 3) Vignir, f. 15. febrúar 1969, fyrri maki Harpa Hilmarsdóttir, börn þeirra eru Helena, f. 1992, Fannar Dan, f. 1996, Aníta Sól og Hilmar Blær, f. 2004. Seinni maki Vignis er Elín Ósk Þorsteinsdóttir, synir hennar eru Þorsteinn Friðfinnsson og Hreinn Garðar Friðfinnsson.

Langafabörnin eru sex og eitt langalangafabarn.

Björn og Guðrún hófu sinn búskap í Drápuhlíð 20. Byggðu síðan eigið húsnæði í Hraunbæ 160 og bjuggu þar í 19 ár. Síðan fluttu þau í Selvogsgrunn 26 og bjuggu þar í 30 ár, en síðustu átta árin hafa þau búið á Kirkjusandi 1 í Reykjavík.

Björn gekk í Austurbæjarskóla og var síðan einn vetur í Iðnskólanum í Reykjavík. Hann vann í Sindrastáli sem vörubílstjóri og verkstjóri en lengst af starfaði hann sem sjálfstæður sendibílstjóri hjá Nýju sendibílastöðinni.

Björn var mikill knattspyrnumaður og spilaði með Val í yngri flokkum og meistaraflokki. Hann spilaði með gullaldarliði Vals og varð oftar en einu sinni Íslandsmeistari, Reykjavíkurmeistari og bikarmeistari.

Útför Björns fer fram frá Laugarneskirkju í dag, 21. nóvember 2024, klukkan 13.

Í dag kveð ég tengdaföður minn Björn Júlíusson, Bjössa eins og hann var ávallt kallaður. Ég kynntist honum þegar ég kynntist manninum mínum Vigni fyrir sex árum.

Bjössi virkaði hrjúfur við fyrstu kynni en alltaf skein glettni og góðmennskan í gegn hjá honum.

Tengdaforeldrar mínir bjuggu áður í húsinu þar sem við hjónin búum í dag og hafði Bjössi því mikinn áhuga á húsinu og þeim breytingum sem við höfum staðið í á undanförnum árum. „Elín, þetta er bara snoturt hjá þér,“ átti hann til að segja þegar hann sá breytingar. Mér fannst þessi orð hlýleg og lýsa honum vel.

Bjössi hafði mikinn áhuga á fjölskyldunni sinni, fjölskyldan er stór og telur nú fjóra ættliði. Hann spurði sífellt fregna af fólkinu sínu og lét sig málefni þess varða, hafði skoðanir á öllum sköpuðum hlutum og hafði lúmskan húmor, og oft fylgdi glettni þeim athugasemdum sem hann hafði gagnvart Vigni sínum en blikkaði mig í laumi.

Elsku vinur, takk fyrir samfylgdina þessi sex ár og njóttu sumarlandsins.

Kær kveðja,

Elín Ósk.

Elsku afi okkar.

Við sitjum hér saman Vignisbörn og rifjum upp minningar um þig. Það fyrsta sem ber á góma er húmorinn þinn. Svarti, beinskeytti húmorinn og hláturinn sterki sem fylgdi í kjölfarið. Það var ávallt stutt í grínið og kaldhæðnina sem við sjáum enn skýrar eftir að við urðum fullorðin. Að horfa á glottið þitt eftir að þú gerðir eitthvert grín eins og til dæmis með LU-kexið. Óneitanlega horfum við á LU-kexið í búðum og þá rifjast það upp fyrir okkur. Ætli við munum ekki horfa enn sterkara til þess í búðum hér eftir og hugsa til þín. Þegar við hugsum til þín á Selvogsgrunninum rifjast upp fyrir okkur háaloftið með alla sína leyndardóma og hvað það var gaman og spennandi sem krakki þegar þú leyfðir okkur að fara og grúska þar. Valhneturnar sem þurfti að brjóta á jólunum og allir þurftu að nota hnetubrjót nema þú með þína stóru hramma. Það var ekkert lítið sport að eiga svona sterkan afa sem gat brotið hneturnar með berum höndum. Það sem er okkur mjög minnisstætt ert þú keyrandi um á sendiferðabílunum og þegar þú breyttir einum þeirra í húsbíl og varst ekkert lítið stoltur af því. Appelsínuguli húsbíllinn sem ók um göturnar og maður gat auðveldlega bent á úr fjarlægð að væri þinn bíll. Þú varst einstaklega sparneytinn og nýtinn. Nýttir allt til hins ýtrasta og keyptir allt í stórum stíl til að spara. Þú varst líka mjög lunkinn að fá hluti frítt. Kolaportið er staður sem var í miklu uppáhaldi hjá þér og fékk maður oft að heyra af Kolaportsferðunum þínum að kaupa kartöflur og tómata. Stundum laumaðist eitthvert gotterí með eins og þú orðaðir það og var það iðulega falið í pottaskápnum til að enginn kæmist í það, þó við vissum öll hvar það væri geymt. Hins vegar var enn skemmtilegra þegar maður fékk að fara með þér í Kolaportsferðir þegar við gistum hjá þér og ömmu. Þú varst stoltur Valsari í húð og hár sem þreyttist ekki á því að rifja upp þína gömlu tíma með Val og þína mörgu titla með liðinu. Það var mikið stolt hjá okkur barnabörnunum að fletta í gegnum Valsbókina og skoða myndirnar af þér og sömuleiðis að leita að myndum af þér upp í Valsheimili. Við munum sakna þín og yljum okkur á minningunum um þig og með þér.

Góða ferð í Sumarlandið, elsku afi.

Þín afabörn,

Helena, Fannar,
Aníta og Hilmar.

Björn bróðir minn er látinn eftir stutta sjúkrahúslegu. Hann var orðinn slitinn og glímdi við ýmsa krankleika sem fylgja háum aldri. Ég kom til hans nýlega og sá að lífsgæði hans voru mikið skert en vonaðist til að með sjúkraþjálfun gæti hann fengið nokkurn bata. Við vorum sammæðra og hann elstur systkina minna. Aldursmunur var nokkur svo í barnæsku vorum við litlir leikfélagar, það var fremur að ég liti upp til hans sem stóra bróður. Í litla húsinu okkar í Þverholtinu svaf hann inni hjá Vigdísi ömmu en nafnið sitt fékk hann frá Birni föður hennar. Vigdís amma var alltaf stolt af dugnaði Bjössa. Hann kenndi mér mannganginn og leiddi mig inn í forvitnilegan heim frímerkjanna þar sem veröldin öll var undir. Þegar hann flutti að heiman til að verða fullorðinn heimilisfaðir gaf hann mér safnið sitt.

Bjössi var einn af sterkustu varnarmönnunum í Val, spilaði aftastur í vörninni og var framherjum andstæðinganna erfiður. Þegar ég átti í deilum við aðra stráka í Holtunum, en skærur voru oft milli strákaflokka á þessum árum, gat ég hótað því að Bjössi kæmi og tuskaði þá til ef ég var í vandræðum. Þetta virkaði oftast enda margir sem vissu hver Bjössi var.

Bjössi tók ungur ábyrgð. Hann fór ungur að vinna og ungur stofnaði hann heimili með konu sinni Guðrúnu Ásmundsdóttur sem nú lifir mann sinn. Bjössi og Guðrún kynntust á kvöldgöngu fyrir sunnan Fríkirkjuna, rómantískara gerist það varla. Ég minnist þess að boðin hjá ungu hjónunum í Drápuhlíðinni voru gleðileg nýbreytni og tilhlökkunarefni í hvert sinn. Bjössi var reglumaður en reykti vindla í hófi og þótti gott í vikulokin að fá sér eitt eða tvö viskíglös.

Hann starfaði mest við akstur, fyrst vörubílaakstur hjá Sindrastáli og seinna á eigin sendibíl hjá Nýju sendibílastöðinni. Hann var áreiðanlegur og traustur bílstjóri, eignaðist fljótt fasta viðskiptavini og þurfti lítið að reiða sig á Stöðina. Hann sá ekki aðeins um keyrslu fyrir viðskiptamenn sína heldur leysti út vörur og hafði margs konar milligöngu um flutningana. Bíllinn hans, ljósi Benzinn, var alltaf hreinn og snyrtilegur. Hann var líka tiltækur ef einhver í fjölskyldunni þurfti flutningsþjónustu. Í minningunni eru líka dagstúrar út úr bænum með fjölskyldunni t.d.í berjaleit en þá voru komnir bekkir í Benzann.

Bjössa var ekki gjarnt að flíka tilfinningum sínum en var umhyggjusamur við fjölskyldu sína og sjálfur á ég minningu um umhyggjusemi hans á erfiðum tímum í mínu lífi. Hann var líka einstaklega hlýr og góður við móður okkar enda uppáhaldið hennar. Mamma og Vigdís amma kunnu margar sögur af Bjössa sem krakka þar sem hann var að aðstoða einstæða móður sína í bragganum á Skólavörðuholtinu. Dró við í eldinn og tróð sér jafnvel undir girðingar bresku hermannanna á holtinu til að ná í spýtur. Þegar hann hafði tök á við keyrsluna kom hann iðulega við hjá mömmu í kaffisopa sem gladdi hana mjög, ekki síst eftir að hún varð eldri.

Ég kveð bróður minn og þakka samfylgdina. Við Agnes færum Guðrúnu, börnum þeirra, barnabörnum og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Sigurður Magnússon.

Jæja, þá er afi farinn í sumarlandið sitt, þar sem konan úr sveitinni hans í gamla daga tekur á móti honum opnum örmum. Eins og það er sárt að sjá á eftir elsku afa, þá held að þetta hafi verið góður tími fyrir hann að fá að fara.

Þó afi væri eflaust ekki allra, þá var hann minn. Afi var ákaflega skemmtilegur afi og við náðum sérstaklega vel saman.

Ég var mikið með ömmu og afa á mínum bernskuárum og fékk því að sjá hliðar á afa sem aðrir sáu ekki. Það var yndislegt að vera hjá þeim og þau voru svo góð saman. Ég á margar góðar minningar af Selvogsgrunninu, þar sem afi átti alltaf sinn stól og þar sem við lékum oft á háaloftinu. Amma leyfði það alltaf en iðulega heyrðist í afa: „Æi krakkar, ekki vera þarna uppi“ en bað okkur svo bara að fara varlega og loka upp til að kæla ekki húsið. Þarna uppi var ævintýraheimur í kringum tollinn sem kom frá Benidorm, viskí og vindla. Þar var líka allt draslið sem mamma, Ási og Viggi fengu að geyma og annað dót svo sem áratuga birgðir af sápu. Öll sápan kom einmitt eftir einn vinnuleiðangur afa, eins og bleika hjólabrettið sem var alltof stórt fyrir mig. Maður naut oft góðs af þessum leiðöngrum afa á sendibílnum.

Það var framan af mikil vindlalykt af manni þegar maður kom heim frá ömmu og afa, síðan nennti afi ekki að reykja meira og hætti því bara. Fyrir afa voru kaffitímarnir heilagir í Selvogsgrunninu þar sem hann fékk sér snúða og kaffi eða sat að fylla út tjónaskýrslu fyrir ömmu. Maður heyrði oft: „Æ, vertu ekki að þessu Gugga“ þegar amma var að leyfa okkur að fá einhverjar kræsingar og síðan blikkaði hann okkur því hann vildi í raun allt fyrir okkur gera. Hlutverk afa var bara alltaf að stuða. Vera smá erfiður að passa að fólk væri nú ekki að borða yfir sig, en svo glotti hann. Hann leyfði mér ansi mikið og kenndi mér margt.

Afi tók mig með í vinnu hvort sem það voru heimilisverk, garðverk eða að keyra sendibílinn. Hann var stoltur af bílunum sínum og fór með mig í bíltúr til að prófa bremsurnar og oft lét hann sem þær virkuðu ekki. Við fórum næstum hverja helgi í Kolaportið saman að prútta og síðan fékk ég eina kókosbollu. Afi gat tekið út úr sér tennurnar og var það mikið sport fyrir mig og vini mína. Í eitt skipti var hringt í Selvogsgrunnið og spurt um Björn Júlíusson, ég sagði sem ég hélt, að viðkomandi væri að hringja í skakkt númer. Afi var ekki mjög ánægður en skildi samt þegar ég útskýrði að hann hefði ekki verið að leita að Bjössa afa.

Afi gerði mig lofthræddan með því að stríða mér við Gullfoss 5 ára og losaði mig við lofthræðsluna að miklu leyti 15 ára þegar afi sendi mig upp í tré á völtum stiga með vélsög: „Láttu ekki svona strákur, taktu ofan af þessu tré annars þarf ég að príla upp og þú heldur við stigann.“

Ég gleymi ekki jólunum og áramótunum, þegar amma bakaði randalínu og afi steikti áramótakjúklinginn. Síðan teipuðum við stærstu rakettuna við ljósastaur og sprengdum á leiðinni á brennuna.

Afi var ekki allra en hann var sannarlega minn.

Kristinn Steinar
Kristinsson.