Jóhannes Loftsson
Síðasta skýrsla um Hvassahraunsflugvöll endaði sneypulega. Þegar skýrsluhöfundar tilkynntu að hverfandi líkur væru á eldgosi á flugvallarsvæðinu reis almenningur upp og mótmælti og skýrsluhöfundar urðu að viðurkenna að eldgosaváin hefði verið metin miðað við ástandið fyrir 2021, áður en eldsumbrotin á Reykjanesi hófust.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem „sérfræðingar“ gefa sér falskar forsendur og fá „rétta“ niðurstöðu fyrir þann sem borgar þeim laun. Þegar neyðarbraut Reykjavíkurflugvallar var lokað árið 2017 var það gert vegna skýrslu sem endurmat nothæfisstuðul flugvallarins mun hagstæðari en áður var talið. Til að fá þetta út var því sleppt að taka tillit til sjúkraflugs og brautarskilyrða og aðeins notuð veðurgögn frá veðurmildasta tímabili í sögu vallarins. Aðferðafræðin fylgdi hvorki forskrift alþjóðlegra viðmiða né íslenskrar reglugerðar.
Fyrsta grein sem greinarhöfundur skrifaði, sem birtist í Morgunblaðinu 12. ágúst 2015, var einmitt til að benda á þetta misræmi og vara við því að slík veðurgögn yrðu notuð fyrir jafn veigamikla ákvörðun. Þar var bent á að óveðursdagar voru allt að helmingi sjaldgæfari á veðurmilda tímabilinu sem var notað.
Ekkert var hlustað á aðvaranirnar og neyðarbrautinni var lokað, braskarar græddu og þjóðin tapaði.
Við lokun neyðarbrautarinnar „gleymdist“ einnig að meta áhrif nýrra bygginga við enda brautarinnar á sviptivinda. Þessi áhrif voru ekki metin fyrr en eftir að byggingarnar komu. Við nýlega rannsóknarvinnu kom í ljós að töluverðu magni veðurgagna hafði verið safnað frá 2012-2023 í veðurstöðvum við alla brautarenda. Ekkert var gert við þessi gögn.
Samhliða þessu var haldið áfram að skipuleggja nýja byggð í Skerjafirði, við enda neyðarbrautarinnar. Á fundi sem haldinn var af því tilefni spurði greinarhöfundur Isavia hvort einhverjar rannsóknir hefðu verið gerðar til að meta afleiðingar af lokun neyðarbrautarinnar. Eitt er að reikna eitthvað út í Excel, annað er að meta hvað raunverulega gerðist. Tilefni spurningarinnar var það að einn reyndasti sjúkraflugmaður landsins hafði birt færslu þar sem hann sagði frá því að eftir að neyðarbrautinni var lokað hefði það aukist verulega að bráðasjúklingar kæmust ekki suður. Miðað við reynslu hans má áætla að um 50 sjúklingar hafi ekki komist suður eftir lokun brautarinnar.
Svar yfirmanns innanlandsdeildar Isavia var að engar slíkar rannsóknir hefðu farið fram.
Reykjavíkurflugvöllur fallinn
Þetta svar var óviðunandi og í framhaldinu bar greinarhöfundur sig eftir því að fá nýju veðurgögnin. Gögnin fengust afhent og nú er úrvinnslu lokið. Notuð var sambærileg einfölduð aðferð og gert var í skýrslunni sem leiddi til lokunar neyðarbrautarinnar, með því fráviki þó að nothæfisstuðull var líka reiknaður fyrir sjúkraflug. Matið sjálft er þó ákveðið bjartsýnismat, þar sem gögn vantaði til að taka tillit til brautarskilyrða. Ef farið er í slíka viðbótargreiningu mun nothæfisstuðullinn lækka enn frekar.
Þrátt fyrir þetta er niðurstaðan sláandi eins og sjá má á myndinni. Nothæfisstuðull vallarins er töluvert verri en óttast var, sem skýrir vel þá miklu skerðingu sem orðin er á þjónustu sjúkraflugs. Nothæfisstuðullinn er einnig afleitur fyrir áætlunarflugið þar sem þrjár af fjórum veðurstöðvum sýna að flugvöllurinn stenst ekki heldur nothæfisviðmið fyrir stærri vélar.
Forsendur samkomulags brostnar
Tvær meginforsendur samkomulags sem ríki og borg gerðu um Reykjavíkurflugvöll eru nú brostnar: Hvorki hefur tekist að finna nýtt flugvallarstæði né tryggja rekstraröryggi flugvallarins. Það mun enginn heilvita maður reisa nýjan flugvöll í sprungusveimi eldstöðvar og í dag liggur fyrir að áratugaveðursveiflurnar sem undirritaður varaði við hafa eyðilagt rekstraröryggi vallarins það mikið að nothæfisstuðullinn er langt undir lágmarksviðmiði.
Samt er nú verið að færa girðinguna nær vellinum og undirbúa nýja byggð nær honum.
Björgum Reykjavíkurflugvelli
Reykjavík er höfuðborg Íslands og miðstöð þjónustu. Algjört ábyrgðarleysi er að halda áfram að hunsa hætturnar og skemma flugvöllinn og því þarf að eiga sér stað raunveruleg stefnubreyting. Ef tryggja á flugsamgöngur innanlands þarf að verja Reykjavíkurflugvöll og stöðva aðförina. Í framhaldinu þarf að eiga sér stað raunveruleg rannsókn á stöðu mála svo hægt sé að taka upp samtal um hvernig megi leiðrétta þau mistök sem gerð hafa verið. Ein leið sem hægt væri að grípa til væri að meta hvort leggja mætti niður 01/19-brautina og byggja nýja SV/NA-braut hornrétt á 13/31-brautina út í sjó. Slík braut myndi í senn bæta hljóðvist og færa nothæfisstuðulinn í ásættanlegra horf.
Yfirvöld sem flýja ábyrgð með því að láta sem vandamálin séu ekki til munu aldrei leysa neitt. Það er kominn tími til að fá ábyrgð aftur í íslensk stjórnmál. Það er kominn tími til að Reykjavíkurflugvöllur verði aftur það hjarta flugsins sem hann ávallt hefur verið.
Höfundur er formaður Ábyrgrar framtíðar.