Ólafur Pálsson
olafur@mbl.is
Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við íslenska ríkið hófst í gær og lýkur á mánudag. Samningurinn er í kynningu meðal félagsmanna en fimmti og síðasti kynningarfundurinn verður síðdegis í dag. Guðbjörg Pálsdóttir formaður segist ekki geta úttalað sig um innihald samningsins, hjúkrunarfræðingar sem starfi hjá ríkinu verði að fá að vita fyrst hvað um ræðir.
Fengið góðar viðtökur
Guðbjörg getur þó sagt að allra mikilvægustu atriði kröfugerðar félagsins hafi náðst fram en auk hækkunar grunnlauna hjúkrunarfræðinga hafi t.a.m. mikilvæg skref verið fest í sessi um betri vinnutíma og breytt vaktaálag á stórhátíðum. Þá hafi starfsmenntunarsjóður verið efldur og faglegur stuðningur aukinn í starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga. Í samningnum sé jafnframt tryggt að áfram verði unnið að mönnunarviðmiðum í hjúkrun á landsvísu en í sumar kom út skýrsla í heilbrigðisráðuneytinu í kjölfar heilsársverkefnis þar um, sem Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir leiddi. Þá hafi fengist fram bókun og yfirlýsing heilbrigðisráðherra um frekari vinnu og skoðun á víkkuðu starfssviði sérfræðinga í hjúkrun, sem Guðbjörg segir afar mikilvægt. „Það er átta ára ferli að fá sérfræðileyfi í hjúkrun og þetta er hópur hjúkrunarfræðinga sem við getum nýtt miklu betur og markvissar, sérstaklega á tímum þegar skortur er á hjúkrunarfræðingum og heimilislæknum, og horfi ég þar til annarra landa og hvernig þeir hafa verið nýttir þar.“
Guðbjörg segist almennt mjög ánægð með viðtökurnar á fundunum og þakkar hún góða þátttöku, margar spurningar, óskir um nánari útskýringar sem og opna og gagnrýna umræðu. „Ég finn að hjúkrunarfræðingar hafa mjög mikinn áhuga á þessum samningi og að sjá hvað hann gerir fyrir hvern og einn.“