Hrammur kínverskra stjórnvalda fellur á lýðræðissinna

Dómstóll í Hong Kong dæmdi á þriðjudag 45 manns, sem barist hafa fyrir lýðræði, í fangelsi. Þeim er gefið að sök að hafa grafið undan stjórnvöldum. Þyngsti dómurinn var tíu ára fangavist.

Stjórnvöld í Kína hétu því þegar þau tóku við völdum í Hong Kong af Bretum árið 1997 að stjórnarfarið myndi halda sér næstu hálfu öldina. Fyrirkomulaginu var lýst með orðunum eitt land, tvö kerfi.

Eins og vænta mátti kom í ljós að stjórnvöld í Peking höfðu enga þolinmæði til að bíða í 50 ár. Jafnt og þétt hefur verið þrengt að lýðræði í Hong Kong. Þessum svikum hafa íbúarnir ekki viljað taka þegjandi og hljóðalaust og stjórnvöld hafa mætt andófi og mótmælum af síauknum krafti.

Dómarnir á þriðjudag sýna hvað gerist í Kína þegar fólk krefst aukina réttinda og reynir að varpa af sér oki kommúnistaflokksins.

Brot lýðræðissinnanna var að freista þess að ná meirihluta á þinginu í Hong Kong. Í lýðræðisríki þykja áform stjórnmálaafls um að ná meirihluta liggja í hlutarins eðli, en Kína er ekki lýðræðisríki.

Kínverski kommúnistaflokkurinn kallar þetta markmið ráðabrugg gegn ríkisvaldi og ógn við þjóðaröryggi.

Í Hong Kong standa nú yfir réttarhöld yfir útgefandanum Jimmy Lai, sem setið hefur í fangelsi í fjögur ár. Lai rak fjölmiðlaveldi í Hong Kong og var blaðið Apple Daily mest áberandi. Það var útbreiddasta blaðið í Hong Kong og bauð kínverskum stjórnvöldum iðulega birginn. 2021 var því lokað, ráðist inn á ritstjórnarskrifstofurnar og eigur þess frystar. Lai er sakaður um samstarf við erlend öfl.

Hann bar vitni í gær og neitaði að hafa „mengað“ hugi lesenda. „Grunngildi Apple Daily eru reyndar grunngildi íbúa Hong Kong,“ sagði hann og bætti við að á meðal þeirra væru „réttarríki, frelsi, sóknin eftir lýðræði, málfrelsi, trúfrelsi, fundafrelsi“. Kínversk stjórnvöld hafa ekki tileinkað sér nein þessara gilda, en skrumskæld réttvísi er þeirra fag.