Vigdís Hallfríður Guðjónsdóttir fæddist á Oddsstöðum í Lundarreykjadal 27. október 1946. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands 7. nóvember 2024.
Foreldrar hennar voru Ingibjörg Sigríður Sigurðardóttir, f. 29. apríl 1919, d. 8. febrúar 1987 og Guðjón Bjarnason, f. 16. desember 1911, d. 2. ágúst 2007.
Systkini Vigdísar eru fjögur. Elstur er Sigurður, f. 17. mars, 1942, giftur Gígju Garðarsdóttir, f. 18. september 1944, d. 12. september 2023, Ástríður, f. 4. júlí 1949, d. 20. ágúst 1949. Bjarni, f. 6. ágúst 1954, giftur Margréti Grétarsdóttur, f. 12. febrúar 1958, Ástríður Lilja, f. 15. nóvember 1955, gift Margeiri Þorgeirssyni, f. 24. september 1955.
Hinn 17. júní 1972 giftist Vigdís eiginmanni sínum Kristjáni Jóhannessyni, f. 21. febrúar 1945. Foreldrar hans voru Jóna Kristjánsdóttir, f. 9. ágúst 1915, d. 3. júní 1989 og Jóhannes Ólafsson, f. 10. nóvember 1918, d. 5. janúar 2005.
Börn þeirra eru: Guðjón Jóhannes, f. 9. júlí 1968, Þórður Grétar, sonur Kristjáns, f. 16. júní 1969, maki hans er Halla Sigrún Árnadóttir, f. 16. desember 1971, börn þeirra eru Embla Ósk, f. 22. janúar 1995, Gísli Hafþór, f. 21 maí 2001, Kristrún Helga, f. 19. apríl 2005.
Jóna, f. 18. maí 1971, maki hennar er Gísli Matthías Gíslason, f. 15. maí 1973. Börn Jónu af fyrra hjónabandi eru Jóhann Ingi, f. 28. september 1995 og Kristján Elí, f. 17. október 1999. Stjúpbörn Jónu eru Karen Rut, f. 22. ágúst 1995, Agnes Helga, f. 4. maí 2003.
Ingibjörg, f. 3. júlí 1977, maki hennar er Björn Steinar Unnarsson, f. 16. ágúst 1973.
Vigdís lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Akranesi 1963, nam í Húsmæðraskólanum á Varmalandi, Borgarfirði, 1964-1965. Hún lauk svo vefnaðarkennaranámi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1971. Hún var kennari í Barnaskóla Vestmannaeyja og Hamarskóla ásamt því að leiðbeina og aðstoða við handverk á Dvalarheimili aldraðra í Vestmannaeyjum. Síðar kenndi hún við Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ og að lokum í Heiðarskóla í Leirársveit. Vigdís var alla tíð afar handlagin og eftir hana liggja mörg verk, ofin, prjónuð og í seinni tíð saumuð. Eins var hún ötul í skógrækt en hún var meðlimur í Skógræktarfélagi Skilmannahrepps.
Útför Vigdísar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 21. nóvember 2024, kl. 13. Athöfninni verður streymt á vef Akraneskirkju.
Stytt slóð:
https://mbl.is/go/q9sev
Í dag kveðjum við saumavinkonu okkar Dísu í Bjarkarási.
Dísa var ein af stofnendum bútasaumsklúbbsins Skraddaralúsa í Hvalfjarðarsveit.
Fyrir rúmum 20 árum komu nokkrar konur saman til að sauma bútasaum til að hafa gaman af og er sá klúbbur enn starfandi. Nú er skammt stórra högga á milli. Enn ein saumavinkonan er fallin frá en í september sl. kvaddi okkur Birgitta Guðnadóttir frá Hlíðarfæti og við kveðjum þær báðar með söknuði, en svona er víst gangur lífsins.
Það hafa orðið fagnaðarfundir hjá þeim í sumarlandinu. Nú sauma þær saman og fylgjast með okkur sem eftir erum hérna megin og láta vita af sér öðru hvoru.
Það var mikill hugur í Dísu þótt hún væri orðin svona lasin, hún heimsótti okkur á saumadag í Miðgarði viku fyrir andlát sitt og bað um uppskrift til að sauma. Hún var mikil handavinnukona og alltaf til í að hjálpa og leiðbeina. Kvaddi hún okkur allar með knúsi eins og hún vissi alveg að hverju stefndi. Mikið þótti okkur vænt um þessa heimsókn.
Við Skraddaralýs sendum Kristjáni og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur með þökk fyrir allt.
Blessuð sé minning þín, elsku Dísa okkar.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi.
Hafðu þökk fyrir allt og allt
(Valdimar Briem)
Þínar saumavinkonur, Skraddaralýs,
Sigrún Sólmundardóttir.