Rósa Guðbjartsdóttir
Í þættinum Forystusætinu á RÚV á dögunum og í Spursmálum á mbl.is var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar spurð út í ábyrgð flokks hennar á ónægu lóðaframboði Reykjavíkurborgar í meirihlutastamstarfi í höfuðborginni síðastliðin ár og áhrif þess á húsnæðismarkaðinn. Greip hún þá til óvæntrar smjörklípu og fór skyndilega að ræða skuldastöðuna í Hafnarfirði! Fullyrti hún að skuldir væru hæstar á hvern íbúa í Hafnarfirði á meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Mér er bæði ljúft og skylt að taka til varna fyrir Hafnarfjörð, leiðrétta rangar fullyrðingar og útskýra þróun skuldastöðu sveitarfélagsins, sem hefur tekið stakkaskiptum undarfarin ár.
Algjör viðsnúningur á fjárhag
Fyrir rúmum tíu árum komumst við Sjálfstæðismenn í meirihluta í Hafnarfirði eftir áralanga óstjórn Samfylkingarinnar. Þá var sveitarfélagið undir eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga vegna afar þungrar skuldastöðu en sveitarfélögum er gert að hafa skuldaviðmið undir 150%. Skuldaviðmið Hafnarfjarðarbæjar var tæplega 200% á þessum tíma og var strax brugðist við með því að taka reksturinn í gegn og fjárfesta einungis fyrir eigið fé. Markmiðið var að lækka skuldir og rekstrarkostnað. Á þessum tíu árum hefur algjör viðsnúningur orðið á fjárhag Hafnarfjarðar. Hefur skuldaviðmiðið nú lækkað jafnt og þétt og er 82% í lok ársins 2024. Við erum stolt af þessari þróun sem sjá má á meðfylgjandi línuriti. Á því sést einnig hve illa hefur tekist til með rekstur Reykjavíkurborgar undanfarin ár þar sem Viðreisn er í meirihluta með Samfylkingunni. Þar er þróunin í þveröfuga átt.
Rangar fullyrðingar
Það er hreinlega rangt að halda því fram að skuldir á hvern íbúa séu hæstar í Hafnarfirði af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem litið er til A-hluta eða A- og B-hluta. Það sést þegar síðustu ársreikningar sveitarfélaganna eru skoðaðir. Vissulega eru sveitarfélögin mjög skuldsett og fjölgun íbúa hefur verið mishröð innan þeirra undanfarin ár. En það er þróun svokallaðs skuldaviðmiðs og skuldahlutfalls sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga fylgist með. Fyrir skemmstu bárust einmitt af því fréttir að Reykjavíkurborg hefði fengið viðvörun frá nefndinni því skuldaviðmið höfuðborgarinnar væri yfir hámarkinu eða 158%.
Hafnarfjörður úthlutað miklum fjölda lóða
Þegar þessi samanburður er skoðaður má segja að undir stjórn Samfylkingar og Viðreisnar hafi fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar versnað verulega og þjónustan líka. Árlega er ánægja íbúa með þjónustuna í 20 stærstu sveitarfélögum landsins mæld og kemur borgin jafnan lökust út úr þeim könnunum. En tilefni þessarar greinar var umræða um húsnæðismál og lóðaframboð og get ég stolt upplýst að í Hafnarfirði hefur á undanförnum árum verið úthlutað lóðum undir gríðarlegan fjölda íbúða og ný hverfi risið hratt og vel. Spá um íbúafjölgun gerir ráð fyrir að á næstu fimm árum muni íbúum í Hafnarfirði fjölga úr 32.600 í um 40.000. Þannig hefur Hafnarfjarðarbær lagt drjúgan skerf til þess að auka húsnæðisframboð en fleiri íbúðir stuðla að lægra íbúðaverði. Það er það sem kallað er eftir. Ábyrg fjármálastjórn og öflug uppbygging getur svo sannarlega farið saman.
Höfundur er bæjarstjóri í Hafnarfirði og skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.