Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur samþykkt að skrifa undir nýjan eins árs samning við félagið en fyrri samningur átti að renna út næsta sumar. The Athletic greinir frá því að möguleiki sé á að framlengja samninginn um eitt ár. Guardiola tók við stjórnartaumunum hjá City sumarið 2016 og hefur gert liðið sex sinnum að Englandsmeisturum á þeim tíma og einu sinni að Evrópumeisturum.
Lið Spánar er úr leik á heimavelli sínum í Málaga í Davis Cup í tennis. Þar með er farsælum ferli Rafaels Nadals lokið. Nadal hafði gefið það út að mótið yrði hans síðasta á ferlinum og laut spænska liðið í lægra haldi fyrir því hollenska í átta liða úrslitum á þriðjudag.
Andri Hjörvar Albertsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari kvennaliðs HK í knattspyrnu. Skrifaði hann undir tveggja ára samning. Andri, sem er 44 ára gamall, mun einnig þjálfa 2. flokk kvenna og 6. flokk karla hjá félaginu. Hann er frá Akureyri og þjálfaði kvennalið Þórs/KA í efstu deild árin 2020 og 2021 en hafði áður verið aðstoðarþjálfari liðsins.
Cleveland Cavaliers tapaði sínum fyrsta leik í bandarísku NBA-deildinni í körfubolta karla fyrir meisturum Boston Celtics, 120:117, í Boston í fyrrinótt. Cleveland hafði unnið fyrstu 15 leiki sína og var fjórða liðið í sögunni til að afreka það. Jayson Tatum fór mikinn í liði Boston með 33 stig, 12 fráköst og sjö stoðsendingar. Donovan Mitchell skoraði 35 stig og tók átta fráköst fyrir Cleveland.
Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur dæmt Rúmeníu 3:0-sigur gegn Kósovó eftir að leik liðanna í C-deild Þjóðadeildar karla á föstudag var hætt áður en leik lauk. Leikmenn Kósovó gengu af velli og báru við níðsöngvum stuðningsmanna Rúmeníu. Knattspyrnusamband Kósovó var sektað um 6.000 evrur fyrir að ganga af velli og gefa þar með leikinn að mati UEFA. Knattspyrnusamband Rúmeníu var sektað um 128.000 evrur fyrir truflun stuðningsmanna á þjóðsöng Kósovó fyrir leikinn og níðsöngva í garð annarrar þjóðar, Ungverjalands. Mun Rúmenía spila næsta heimaleik sinn án áhorfenda af þessum sökum.
Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Tottenham ætla að áfrýja sjö leikja banninu sem úrúgvæski miðjumaðurinn Rodrigo Bentancur var úrskurðaður í á dögunum. Bentancur lét óviðeigandi ummæli falla um samherja sinn hjá Tottenham, Son Heung-Min, í sjónvarpsviðtali í heimalandi sínu þar sem hann gaf það í skyn að allir Asíubúar litu eins út. Tottenham mun ekki áfrýja banninu sjálfu heldur lengd þess.
Knattspyrnumarkvörðurinn Alisson Becker hefur hafið æfingar að nýju með félagsliði sínu Liverpool. Alisson, sem er 32 ára gamall, meiddist aftan í læri í 1:0-sigri gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni 5. október og þurfti að fara af velli undir lok leiks. Hann hefur misst af síðustu átta leikjum Liverpool í öllum keppnum en Írinn Caoimhín Kelleher hefur leyst hann af hólmi í síðustu leikjum og staðið sig vel.