Sviðsljós
Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Lönd í Evrópu standa frammi fyrir mjög alvarlegum mönnunarvanda í heilbrigðisþjónustunni og brýn þörf er fyrir aðgerðir vegna skorts á læknum, hjúkrunarfræðingum og öðru heilbrigðisstarfsfólki í heilbrigðiskerfum fjölmargra Evrópulanda.
Á árunum 2022 og á síðasta ári var greint frá miklum skorti á læknum í 20 aðildarlöndum Evrópusambandsins og skortur var á hjúkrunarfræðingum í 15 löndum. Að mati OECD vantaði um 1,2 milljónir lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra til starfa í löndum ESB á árinu 2022 til að uppfylla viðmið um lágmarksmönnun og aðgengi að alhliða heilbrigðisþjónustu.
Þessar upplýsingar koma fram í nýútkominni skýrslu OECD um stöðu heilbrigðismála í Evrópu, Health at a Glance: Europe. Í skýrslunni segir berum orðum að Evrópulönd standi frammi fyrir alvarlegri kreppu vegna skorts á heilbrigðisstarfsfólki.
Langvarandi álag, sem jókst á tímum kórónuveirufaraldursins, hefur ýtt undir mönnunarvanda í heilbrigðiskerfum landanna og hækkandi meðalaldur íbúa kallar á fjölgun starfsfólks í heilbrigðisþjónustunni. Á sama tíma blasir við að fjöldi lækna og hjúkrunarfræðinga mun láta af störfum vegna aldurs á komandi árum vegna hækkandi meðalaldurs í þessum stéttum.
Ríflega þriðjungur lækna og um fjórðungur hjúkrunarfræðinga í löndum Evrópusambandsins eru eldri en 55 ára. OECD bendir á að á sama tíma fari áhugi ungs fólks minnkandi á störfum í heilbrigðisþjónustunni, sem sé sérstaklega áberandi við hjúkrun.
Mörg lönd hafa brugðist við manneklunni og langvarandi álagi með því að sækja lækna og annað sérhæft starfsfólk til annarra landa. Læknum sem eru menntaðir í öðrum löndum fjölgaði í löndum Evrópu um 17% á árinu 2022 og mun meiri innflutningur átti sér stað meðal hjúkrunarfræðinga.
Þrátt fyrir mikla manneklu hefur starfsfólki í heilbrigðiskerfum landanna fjölgað á seinustu 20 árum. Starfandi læknar í löndum ESB voru 4,2 á hverja þúsund íbúa á árinu 2022 en voru 3,1 á hverja þúsund íbúa árið 2002. Á Íslandi voru 4,4 læknar á hverja þúsund íbúa á árinu 2022 en voru um 3,5 fyrir 20 árum samkvæmt skýrslu OECD. Svipuð þróun hefur verið í röðum hjúkrunarfræðinga, sem voru að meðaltali 8,4 á hverja þúsund íbúa í ESB-löndum 2022 en voru 7,3 á árinu 2012. Hlutfall hjúkrunarfræðinga miðað við mannfjölda var hæst í Noregi, á Íslandi og í Finnlandi á árinu 2022 (12 til 15 á hverja þúsund íbúa).
Góðar heilsulíkur á Íslandi
Eldri borgurum mun fjölga mikið á komandi árum og spáð er að hlutfall 65 ára og eldri af íbúafjölda fari úr 21% í fyrra í 29% á árinu 2050. Og ævin lengist. Að jafnaði getur Evrópubúi sem er 65 ára í dag reiknað með að eiga rúmlega 20 ár ólifuð. Lífslíkur við fæðingu hafa hækkað í 81,5 ár að meðaltali í löndum ESB.
Íslendingar hafa lengi verið meðal langlífustu þjóða en nokkur lönd eru þó ofar í samanburði OECD. Meðallífslíkur við fæðingu voru hæstar á Spáni í fyrra eða 84 ár, 83,4 ár í Svíþjóð og 83,1 ár í Noregi en 82,6 ár á Íslandi og hefur dregið úr lífslíkum hér frá árinu 2021 þegar þær voru 83,2 ár.
Fjölgun landsmanna og öldrun þjóðarinnar eykur álagið á heilbrigðiskerfið á komandi árum. Á móti vegur að heilsufar fer almennt batnandi en engu að síður kemur fram í skýrslu OECD að yfir 60% Evrópubúa sem eru 65 ára eða eldri eiga við einn eða fleiri langvinna sjúkdóma að stríða.
Í skýrslu OECD er birtur samanburður á líkum fullorðinna einstaklinga á að lifa við góða heilsu á efri árum. Lagt er mat á það út frá gögnum um heilsufar og langvinna sjúkdóma hvað 60 ára einstaklingur megi að jafnaði búast við að eiga mörg ólifuð ár við góða heilsu og hversu mörg ár við slæma heilsu.
Heilsulíkur Íslendinga eru hvað bestar í þessum samanburði sem nær til tæplega 30 þjóða. 60 ára Íslendingur má að meðaltali reikna með að lifa í 19,1 ár við góða heilsu en í 5,8 ár við heilsubrest. Spánverjar eru á svipuðum stað í þessum samanburði en heilsulíkur þeirra við sextugt eru 18,9 ár við góða heilsu en í 6,1 ár við heilsubrest.