Framkvæmdir Í Peningamálum kemur fram að rúmlega helmingur stjórnenda fyrirtækja í byggingariðnaði taldi sig búa við skort á starfsfólki.
Framkvæmdir Í Peningamálum kemur fram að rúmlega helmingur stjórnenda fyrirtækja í byggingariðnaði taldi sig búa við skort á starfsfólki. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Peningamálum Seðlabankans sem út komu í gær samhliða vaxtaákvörðun bankans er vitnað í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Þar kemur fram að 7.800 íbúðir hafi verið í byggingu á landinu öllu í nóvember sem er það mesta sem verið hefur frá árinu 2006

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Í Peningamálum Seðlabankans sem út komu í gær samhliða vaxtaákvörðun bankans er vitnað í fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Þar kemur fram að 7.800 íbúðir hafi verið í byggingu á landinu öllu í nóvember sem er það mesta sem verið hefur frá árinu 2006.

„Niðurstöður úr talningum HMS á árinu benda til þess að byggingaraðilar hafi lagt aukna áherslu á að klára framkvæmdir sem ráðist hefur verið í en hlutdeild nýbygginga af íbúðum á sölu hefur aukist nokkuð það sem af er ári,“ segir í ritinu.

Í takt við vísbendingar

Þar segir einnig að samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar hafi íbúðafjárfesting aukist um 6,6% milli ára á fyrri hluta ársins en í ágúst var gert ráð fyrir 13,3% aukningu. Einnig kemur fram að Hagstofan hafi endurskoðað tölur á fyrsta ársfjórðungi nokkuð niður vegna minni umsvifa í endurbótum og viðhaldi íbúða en áður var áætlað. „Aukningin á fyrsta ársfjórðungi var í takt við það sem helstu skammtímavísbendingar úr byggingariðnaði gáfu til kynna en á öðrum fjórðungi reyndist hún þó nokkru minni en vísbendingarnar höfðu gefið til kynna,“ er útskýrt í Peningamálum.

Í ritinu segir einnig að nú sé gert ráð fyrir að íbúðafjárfesting aukist um 4,2% á þessu ári sem er heldur minna en spáð var í ágúst. „Þar vegur minni vöxtur á fyrri hluta ársins þungt en helstu skammtímavísbendingar í byggingariðnaði benda auk þess til að hægt hafi á vexti umsvifa eftir því sem liðið hefur á árið. Horfurnar á næstu tveimur árum eru þó hagfelldari og endurspegla að miklu leyti aukinn fjölda nýframkvæmda á þessu ári og meiri hækkun húsnæðisverðs í kjölfar eldsumbrotanna á Reykjanesi en spáð var í ágúst. Gangi spáin eftir verður hlutfall íbúðafjárfestingar af landsframleiðslu rétt yfir 5% í lok spátímans sem er um 1 prósentu yfir meðaltali undanfarins aldarfjórðungs.“

Helmingur býr við skort

Einnig er í Peningamálum vitnað í haustkönnun Gallup. Þar segir að rúmlega helmingur stjórnenda fyrirtækja í byggingariðnaði telji sig búa við skort á starfsfólki og um þrír af hverjum fjórum sögðust eiga erfitt með að mæta óvæntri eftirspurn. Jafnframt kemur fram í könnuninni að heldur fleiri stjórnendur hafi viljað fjölga starfsfólki en þeir sem vildu fækka því. „Áraun á framleiðsluþætti í byggingariðnaði er því enn mikil en hefur þó minnkað frá því í sumar. Eins og í síðustu spá bankans er gert ráð fyrir að álíka margar íbúðir komi á markað á þessu ári og í fyrra. Áætlun HMS fyrir þetta ár er einnig óbreytt frá fyrri áætlun í apríl en á næsta ári er hins vegar búist við lítils háttar fjölgun nýrra íbúða frá talningunni í apríl.“

Um nýframkvæmdir segir í Peningamálum að þeim hafi fækkað töluvert milli ára og framkvæmdir hafi jafnframt farið hægt af stað á fyrri hluta þessa árs. „Þó virðist sem umsvif hafi tekið að glæðast á ný á síðustu mánuðum. Talning HMS sýnir að nýjum framkvæmdum hafi fjölgað um 48% milli ára í september eftir nokkurn samdrátt í talningunum á undan. Því er útlit fyrir að fjöldi nýframkvæmda verði lítillega meiri í ár en gert var ráð fyrir í síðustu spá og meiri en í fyrra samkvæmt tölum úr fasteignaskrá HMS,“ segir að lokum í Peningamálum Seðlabankans.

Höf.: Þóroddur Bjarnason