Bjarni Hólm Frímannsson fæddist á Dalvík 12. maí 1939. Hann lést 12. nóvember 2024 á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Foreldrar hans voru Frímann Sigurðsson, f. 18.12. 1902, d. 31.12. 2001, og Árný Lilja Þorleifsdóttir, f. 9.3. 1901, d. 30.8. 1995. Bjarni á einn bróður, Hauk, sem fæddist 13. maí 1935 og lifir bróður sinni.

Bjarni kynntist konu sinni Jytte meðan hann var við nám í Kaupmannahöfn. Þau giftust 14. nóvember 1966 og þeim fæddust þrjár dætur. Þær eru: 1) Marianne Hólm, f. 9.5. 1966, sonur hennar er Bjarni Hólm, f. 13.8. 1990. Sambýlismaður Marianne er Kristján Guðlaugsson. 2) Ása Karin Hólm, f. 16.1. 1969, hún er gift Henning Frey Henningssyni og þau eiga börnin Lovísu Björt, f. 11.10. 1995, og Hilmar Smára, f. 3.9. 2000. Fyrir átti Ása Karin soninn Arnar Hólm Kristjánsson, f. 10.8. 1989. 3) Lise-Lotte, f. 2.2. 1971, hún er gift Even Brøste og saman eiga þau Unu Mareyju, f. 11.7. 2009. Fyrir átti Lise-Lotte Mariu Hólm Magnúsdóttur, f. 22.10. 1993.

Að loknu skyldunámi lauk Bjarni sveinsprófi í trésmíði og hélt að því loknu í framhaldsnám til Kaupmannahafnar í byggingarverkfræði. Að námi loknu árið 1965 flutti hann aftur til Íslands með fjölskylduna. Þá hóf hann störf hjá Verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar og varð fljótt einn af eigendum fyrirtækisins. Bjarni varð fljótlega framkvæmdastjóri fyrirtækisins sem fékk síðan nafnið VSÓ eins og það heitir í dag. Hann starfaði sem framkvæmdastjóri VSÓ til ársins 2008 og átti hann drjúgan þátt í að byggja upp eina af stærstu og farsælustu verkfræðistofum landsins.

Bjarni var mikill hestamaður og ferðaðist mikið um landið á hestbaki ásamt konu sinni Jytte og stórum vinahópi sem kallaði sig Bruna. Bjarni og Jytte voru alla tíð mjög samheldin og gestrisin hjón og héldu oft og tíðum glæsileg boð í húsi þeirra á Álftanesi.

Meðal annarra áhugamála Bjarna voru laxveiði, garðrækt og ferðalög um landið. Hann undi sér jafnframt vel í glæsilegu sumarhúsi fjölskyldunnar á Laugarvatni sem hann hannaði og byggði af miklum myndarskap.

Jytte, eiginkona Bjarna, dó 11. apríl á þessu ári og var það mikil sorg í lífi hans.

Bjarni Hólm verður jarðsunginn í Garðakirkju í dag, 21. nóvember 2024, klukkan 15.

Bjarni var forkur til vinnu, höfðingi heim að sækja, sannur og áhugasamur hestamaður, gróinn vinur og hjálpsamur í hvívetna. Ég kynntist þessum öðlingi 1978, þá nýfluttur út á Álftanes. Þau hjónin Jytte og Bjarni höfðu komið sér fyrir í Sólheimum, smekklegu húsi með dönskum hreim. Hesthús okkar lágu saman og mikill var samgangurinn. Þarna komu einatt dæturnar Ása Karín, Maríanna og Lisa-Lotte og hjálpuðu til með mokstur og gjafir og síðar við þjálfun hestanna.

Þessi eining í Sólheimum, Jytte og Bjarni með stelpurnar þrjár, var falleg og vinskapnum virði og því var missir fjölskyldunnar mikill þegar Jytte kvaddi þennan heim snemma í maí á þessu ári. Bjarna varð sorgin mikil og sá missir mikill. Hann saknaði hennar beint frá hjartanu og þráði að hitta hana eins skjótt og auðið væri. Svo fór að hinn 12. nóvember lokaði Bjarni augunum í síðasta sinn umkringdur dætrum sínum og í faðmi fjölskyldunnar.

Á þessum fyrstu árum okkar í hestastússinu færði ég snemma í tal við Bjarna að gaman gæti verið að leggja í ferðir inn á hálendið. Hann var ekki lengi að bregðast við, áhugasamur og spenntur. Hann lét mér þó alltaf eftir að velja heimsóknarstaðina, ferðadagana og lengd ferðar, sagði bara „ég fer hvert sem er með þér“.

Þótt Jytte riði ekki með okkur fór hún í allar ferðirnar okkar, keyrði trússbílinn og gaf kaffi og kökur á vinstri og hægri í áningum.

Á þessu tímabili sinnti Bjarni veigamiklu starfi, var forstjóri á verkfræðiskrifstofunni VSÓ og átti annríkt, en þegar kom að hestaferðum var aldrei sleppt úr degi. Hann sagði mér síðar að í ferðum okkar hvíldist hann mest, gat undið af sér vandmeðfarinni lífsbaráttu og skrifstofuönnum og átt afslappaða tíma með okkur Álftnesingum.

Þau hjónin voru ekki bara gjafmild heldur rausnarleg, það voru stórar veislur vegna afmæla, einhverra áfanga hjá fjölskyldunni og að hestaferðaleiðarlokum. Til viðbótar þessu amstri öllu buðu þau hjónin sínum nánustu vinum í julefrokost á hverju ári, lögðu fram 36 rétta máltíðir sem stóðu frá sjö um kvöldið til sjö næsta morgun og ávallt var Frank Sinatra með okkur í þessum veislum.

Margar voru gleðistundirnar í kringum Bjarna og Jytte, mér eru minnisstæðar flottar ferðir okkar um Fjallabak suður og norður, upp að Arnarfelli, um Borgarfjörð og út á Snæfellsnes, svo eitthvað sé talið. Yfir hausttímann höfðum við hesta okkar á beit í Kjarnholtum hjá Gísla hreppstjóra og Ingibjörgu konu hans, þar voru veislur að hætti Bjarna. Allar ár á vegi hans, akandi eða ríðandi, afgreiddi hann með sínu orðatiltæki, að „laggóa“, og svo skellti hann sér yfir.

Við Brunafélagar samhryggjumst dætrum, barnabörnum og fjölskyldunni á þessum tímamótum en gælum við þá staðreynd að nú eru þau aftur saman í öðrum heimi. Við viljum hér koma á framfæri innilegum þökkum fyrir yndislega vináttu og heppni okkar að hafa kynnst þeim hjónum.

Ólafur Magnús Schram.

Bjarni Hólm Frímannsson verkfræðingur lést hinn 12. nóvember sl. umvafinn sínum nánustu líkt og hafði eiginkona hans, Jytte, misseri fyrr. Bjarni sem var skipuleggjari góður virðist hafa talið þetta orðið gott, giftusömu ævistarfi lokið og ákveðið að fylgja Jytte sinni á huldum slóðum.

Bjarni byggði upp og rak ásamt Stefáni Eggertssyni félaga sínum eina öflugustu verkfræðistofu landsins, VSÓ. Bjarni var skarpgreindur, hamhleypa til verka og ötull að finna stofunni verkefni þar sem lítt hafði verið áður unnið.

Fjölskyldu sinni reisti hann fallegt einbýlishús á náttúruperlu við Skógtjörn á Álftanesi, og síðar sumarbústað austan Laugarvatns. Bjarni komst til efna af sjálfum sér, hafði ekki veraldlegan auð úr föðurgarði. Hann erfði hins vegar frá foreldrum sínum iðni og verklagni sem dugðu honum vel á lífsleiðinni.

Bjarni naut þess að sökkva sér í hin ýmsu störf sem fylgdu umfangi verkfræðistofunnar. En hann var jafnframt lífsnautnamaður og lifði vel þær frístundir sem gáfust frá annasömu verkfræði- og stjórnunarstarfi. Fór oft á laxveiðar, sinnti blóma- og trjárækt og sigldi tíðum til útlanda með Jytte. Svo skellti hann sér í hestamennsku. Og þar voru engin vettlingatök frekar en við annað sem Bjarni tók sér fyrir hendur. Á skömmum tíma hafði hann sankað að sér afburðahestum. Þetta stúss endaði með myndun hestaferðahóps með Ólafi Schram og fleirum. Þar komum við hjónin fyrst inn í veröld Bjarna og Jytte, höfðum lítillega þekkt þau áður. Um áratugaskeið voru farnar hestaferðir um hálendi Íslands. Bjarni naut þess sýnilega að þurfa ekki að stjórna öðru en reiðskjóta sínum, var mjög skemmtilegur ferðafélagi, húmoristi, hláturmildur og prakkari. Ef fauk í karlinn, eins og gerist stundum með hugumstóra menn, þá var því lokið við næstu vegamót. Jytte, kona Bjarna, fór sjaldan á hestbak, en sinnti trússbílnum og öðrum bráðnauðsynlegum verkefnum sem falla til í svona ferðum. Það var ljúft að koma í náttstað þar sem Jytte tók brosandi á móti okkur og umvafði hópinn. Þá fyrst fengu reiðmenn sér lögg í tána, og framundan var kvöldvaka þar sem hver sagði frá ævintýrum dagsins hvort sem var á hestbaki eða í trússbíl. Bjarni og Jytte voru stórkostlegir gestgjafar. Var enginn vanhaldinn í veitingum eða hlýju sem þau heimsótti. M.a. buðu þau hestahópnum árlega til jólafrokosts. Borðhaldið stóð yfirleitt næturlangt, jafnvel fram undir morgun, með spjalli og neyslu ljúfmetis sem Jytte reiddi fram eftir því sem gekk á réttina.

Innilegar samúðarkveðjur til dætranna, Maríanne, Ásu Karínar og Líse-Lotte, afkomenda og ástvina.

Sigríður og Sigurður G. Thoroddsen.

Bjarni Frímannsson kom ungur til starfa hjá Verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar fyrir tæpum sextíu árum. Innan fárra ára var hann sestur við stjórnvölinn og stýrði skútunni næstu áratugina gegnum þykkt og þunnt, lengst af með Stefán Pétur Eggertsson sér við hlið.

Þeir félagarnir voru framsæknir og óhræddir við að þróa fyrirtækið og leggja út á ný mið, voru brautryðjendur á mörgum sviðum og byggðu upp líflegt samfélag einstaklinga með fjölbreytta menntun sem mynduðu eina stærstu verkfræðistofu landsins.

Bjarni var atkvæðamikill stjórnandi, metnaðarfullur og fylginn sér, og okkur kjúklingunum sem til hans réðumst kenndi hann margt, ekki síst öguð og vönduð vinnubrögð og óspart var hvatt til að leita út fyrir landsteina að nýrri þekkingu og reynslu. Hann gerði vel við sitt fólk af örlæti, engin smámunasemi þar. Bjarni var skapmaður, gat verið hornóttur eins og hann sagði sjálfur og stundum gat hvesst duglega kringum hann en undir yfirborðinu var raungóður og skemmtilegur maður sem stóð með sínu fólki.

Bjarni kunni vel að gera sér glaðan dag og starfsmenn nutu þess í ríkum mæli. Marga smitaði hann af laxveiðibakteríunni, enda öflugur veiðimaður og ófáar eru samkomur og veglegar starfsmannaferðir sem sitja eftir í minningunni.

Eftir að hafa eytt allri starfsævinni, 40 árum, á VSÓ skilaði Bjarni keflinu til næstu kynslóðar fyrir tæpum tuttugu árum og sá fram á að njóta eftirleiksins með lífsförunautnum henni Jytte. Þau fengu því miður ekki að dansa jafn létt gegnum efri árin og þau áttu skilið og nú eru þau bæði gengin á braut með fárra mánaða millibili. Blessuð sé minning þeirra.

Fyrir hönd VSÓ og fyrrverandi vinnufélaga er Bjarna Frímannssyni þökkuð gefandi samfylgd.

Grímur Jónasson,
Þorbergur Karlsson.