Gjafabréfin Ráðherra væntir þess að fá 100 milljarða fyrir bankann.
Gjafabréfin Ráðherra væntir þess að fá 100 milljarða fyrir bankann. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Við væntum þess að fá 90 til 100 milljarða fyrir sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og með því náum við að lækka skuldir ríkisins um sömu upphæð. Ef þú gefur slíka upphæð, þá lækkar þú ekki skuldir um leið sem væri mjög bagalegt fyrir þær áætlanir …

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

„Við væntum þess að fá 90 til 100 milljarða fyrir sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og með því náum við að lækka skuldir ríkisins um sömu upphæð. Ef þú gefur slíka upphæð, þá lækkar þú ekki skuldir um leið sem væri mjög bagalegt fyrir þær áætlanir sem við höfum gert og erum farin að sjá árangur af,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra um þá stefnu Miðflokksins að gefa þjóðinni hlutabréf ríkisins í Íslandbanka.

Úr stefnu Miðflokksins

Í stefnu Miðflokksins kemur fram að flokkurinn vilji afhenda almenningi í landinu hlut í bankanum beint. Þar með fengi hver íslenskur ríkisborgari eignarhlut sinn til ráðstöfunar, í formi hlutabréfa í bankanum.

Litið er svo á, eins og gert var í tilviki Leiðréttingarinnar, að verið sé að afhenda eign sem viðkomandi átti þegar. Aðgerðin stuðli að virkari hlutabréfamarkaði og auki möguleika fólks á að fjárfesta í verðmætasköpun. Þar er vísað til þess að sambærilegt verkefni hafi verið framkvæmt í tíð ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem tók til starfa 2013. Aðgerðin snúist um að tryggja fullkomið jafnræði þar sem hver og einn fái jafnan hlut. Gjafabréfin munu ekki leiða til hærri verðbólgu því aðgerðin feli hvorki í sér peningaprentun né viðbótarlántöku ríkisins.

Færi ekki í stjórnarsáttmála

Sigurður Ingi segir að með því að gefa 100 milljarða sé verið að auka fjármagn í umferð sem sé ekki það gáfulegasta þegar verið sé að ná tökum á verðbólgunni.

„Ég verð að segja alveg eins og er að þetta er afar sérkennileg hugmynd.“

Ef Framsóknarflokkurinn og Miðflokkurinn setjast niður eftir kosningar til að mynda ríkisstjórn, myndir þú hafna slíkri tillögu inn í stjórnarsáttmála?

„Já, þetta er vitlaus hugmynd og ekki líkleg til að styðja við ábyrg ríkisfjármál. Hún er óábyrg með öllu,“ segir Sigurður Ingi.

Íslandsbankabréfin

Verðmæti bréfanna er
90-100 milljarðar.

Verður hægt að nota til
að greiða niður skuldir.

Gjafagjörningur sem leiðir til aukins fjármagns í umferð og ýtir undir verðbólgu.

Vitlaus hugmynd og ekki líkleg til að styðja við ábyrg ríkisfjármál.

Ekki það gáfulegasta til að ná tökum á verðbólgunni.

Höf.: Óskar Bergsson