Valdakonur samanstendur af þremur brjóstmyndum. Verkin vann Anna Hallin fyrir sýningu sem sett var upp í Listasafni Árnesinga þegar það fagnaði aldarafmæli fullveldis Íslands árið 2018 með því að rýna í menningararfinn í eigin safneign og setja verk Halldórs Einarssonar í samhengi við verk fjögurra samtímalistamanna, en Anna var einn þeirra.
Hún gerði brjóstmyndir af þremur brautryðjendum í íslenskum stjórnmálum og þjóðlífi, Vigdísi Finnbogadóttur, Katrínu Jakobsdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur. Femínískt svar samtímans við viðarstyttum Halldórs frá sjötta áratugnum, af 54 alþingismönnum lýðveldisins árið 1944, sem allir voru karlar. Styttur Halldórs eru smáar og sérstakar fyrir það að höfuð hvers og eins alþingismanns er helmingur styttunnar á móti sitjandi búk á stól. Anna svarar þeim leik með því að móta konurnar með langan háls og neðan við hann eru tvö form sem gefa styttunni stöðugleika. Þau minna óneitanlega á brjóst og undirstrika þannig að um er að ræða brjóstmyndir af konum. Fyrirmyndirnar eru vel þekkjanlegar af andlitsfalli og hárgreiðslu, en annað sterkt auðkenni eru augun. Anna gefur þeim aukna áherslu með því að klippa þau út úr litljósmyndum af fyrirmyndunum og líma á sinn stað. Þannig brýtur hún formið upp, sýnir nýstárlega útfærslu samklipps innan skúlptúrs og ljær hvítum styttunum lit. Með því að nota marmarasand og hvítt sement upphefur listamaðurinn hversdagsleika steypunnar. Með þessum verkum skapaði Anna verðuga áminningu um valdajafnvægi. Nokkrum árum fyrr hafði Anna einnig rýnt í eldri tíðaranda. Það var fyrir sýninguna Samleikur þar sem verk hennar voru sýnd ásamt verkum Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara. Við það tækifæri rýndi hún einnig í verk læriföður hans Carls Milles, sem var sænskur líkt og hún, en frá árinu 2001 hefur Anna verið búsett á Íslandi. Samhengi verka hennar við umhverfið skiptir Önnu máli sem og sjónarhorn. Anna vinnur í fjölbreytta miðla og er hvað þekktust fyrir leirskúlptúra og teikningar, en einnig stórar innsetningar sem hún vinnur með konu sinni, Olgu Bergmann, en saman mynda þær listamannatvíeykið Berghall.