Á æfingu Sigtryggur Baldursson, eða Bogomil Font, er fremst á myndinni með Karlakór Grafarvogs.
Á æfingu Sigtryggur Baldursson, eða Bogomil Font, er fremst á myndinni með Karlakór Grafarvogs.
Árlegir hausttónleikar Karlakórs Grafarvogs verða nk. fimmtudagskvöld, 28. nóvember, og hefjast kl. 20.00 í Grafarvogskirkju. Sigtryggur Baldursson, öðru nafni Bogomil Font, kemur fram á tónleikunum, bæði einn og með karlakórnum

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Árlegir hausttónleikar Karlakórs Grafarvogs verða nk. fimmtudagskvöld, 28. nóvember, og hefjast kl. 20.00 í Grafarvogskirkju. Sigtryggur Baldursson, öðru nafni Bogomil Font, kemur fram á tónleikunum, bæði einn og með karlakórnum. „Þetta verður toppurinn á ferlinum,“ segir trommuleikarinn landskunni, sem sló í gegn með Milljónamæringunum á sínum tíma og gerði áður garðinn frægan með Sykurmolunum en hefur auk þess trommað og sungið með fjölda banda.

Í fyrra voru 30 ár frá því að Milljónamæringarnir sendu frá sér plötuna Ekki þessi leiðindi með gullkornum eins og „Marsbúa cha, cha, cha“, „Hæ mambó“ og „Kaupakonan hans Gísla í Gröf“. Af því tilefni setti Bogomil Font saman band til að spila lögin og hafa þau slegið enn og aftur í gegn. Með honum í bandinu eru Einar Scheving trommuleikari, Pálmi Sigurhjartarson píanóleikari, Birgir Steinn Theodórsson bassaleikari og Jóel Pálsson saxófónleikari. „Þetta hefur verið mjög gaman,“ segir hann, en annar hópur spilar með honum og kórnum í Grafarvogskirkju. Það eru Kjartan Valdemarsson píanóleikari, Þórður Árnason gítarleikari, Birgir Steinn Theodórsson bassaleikari, Jóhann Hjörleifsson trommuleikari, Matthías Stefánsson fiðluleikari og Sigurður Sigurðsson munnhörpuleikari.

Fjölbreytt og létt efnisskrá

Nýleg lög Bogomils Fonts og Greiningardeildar Hljómskálans hafa yfir sér kalypsóblæ með tilvísun í tíðarandann. „Sjóddu frekar egg“, sem fjallar um skammdegisþunglyndi, og „Skítaveður“ eru góð dæmi og hafa fengið mikla spilun og vakið athygli. „Þessi lög eru í rauninni hliðargrín frá Hljómskálanum,“ segir hann og vísar í samnefnda sjónvarpsseríu hans, Braga Valdimars Skúlasonar og Guðmundar Kristins Jónssonar, Kidda Hjálms. Áheyrendur á tónleikunum fá að njóta þessara laga auk annarra. Miðasala er á netinu (tix.is) og við innganginn.

Bogomil Font hefur ekki komið mikið fram að undanförnu. „Þetta hefur verið frekar spari og ég hef aðallega spilað á Vestfjörðum í ár,“ segir hann og vísar í hátíðina Aldrei fór ég suður á Ísafirði um páskana og á tónleika á Vagninum á Flateyri um verslunarmannahelgina.

Íris Erlingsdóttir söngkennari stofnaði Karlakór Grafarvogs 2011 og hefur verið stjórnandi hans síðan. Á efnisskrá tónleikanna eru ýmis þjóðþekkt lög af léttara taginu. Kórinn syngur með Bogomil Font í lögum hans og hann tengist kórnum með ýmsum hætti. „Ég þekki vel Óla, formann kórsins, bróðir minn er í kórnum sem og heimilislæknirinn minn. Ég þekki því vel til.“ Hann bætir við að það sé sérstakt að taka þessi lög með kór og kórinn leggi sitt af mörkum í lögum sínum. „Þetta er mjög skemmtilegt og svo erum við með æðislega hljómsveit með okkur. Þetta verður mikið fjör.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson